ÞINGHÚS Á ÞINGVÖLLUM ?

Fjölnismenn börðust fyrir því að Alþingi sæti á Þingvöllum en Jón Sigurðsson var raunsærri. En nú eru aðrir tímar og alveg hægt að velta upp spurningunni: Af hverju er ekki Alþingishús á Þingvöllum? Þá á ég ekki við að venjulegir þingfundir eða þingstörf fari þar fram heldur setning og slit þings og hugsanlegir hátíðarfundir. Þinghús til þessara nota þyrfti ekki að vera stórt og sennilega er Þingvallakirkja nógu stór fyrir setningarguðsþjónustu. Alþingishúsið þyrfti ekki að vera mikið stærra.

Þegar stjórnarmyndunarviðræður færu fram mætti gera það að hefð að þær fari fram á Þingvöllum með leyfi forseta.

Ef þetta yrði gert er hugsanlegt að Þjóðargrafreiturinn kæmist í nýja stöðu í stað þess að vera einmanalegur legstaður aðeins tveggja manna.

Þingvellir eru mesti helgistaður þjóðarinnar. Ég hygg að of fáar samkomur og athafnir fari þar fram. Sú næsta er hugsanlega ekki fyrr en 2018 á aldarafmæli fullveldisins og þá verða liðin 18 ár frá síðustu hátíð. Þrátt fyrir mistök í skipulagningu Þingvallahátíðanna 1994 og 2000 má læra af þeim. Ég get ekki hugsað mér hátíðlegra og skemmtilegra fyrirbrigði en Þingvallahátíð fyrir alla fjölskylduna.


Bloggfærslur 22. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband