TAKK, ALFREÐ !

Þótt Íslendingar næðu ekki þeim árangri á EM sem vonast var eftir finnst mér ekki að það eigi að kenna Alfreð Gíslasyni um það þótt það sýnist vera venja að gera það svo oft í boltaíþróttum. Ég tel það hafa verið mikla gæfu að hafa haft Alfreð og sérstaklega var það kærkomið að honum tókst að vinna bug á Svía-Grýlunni hér um árið sem annars hefði sennilega loðað um alla eilífð við Íslendinga.

Við töpuðum að vísu fyrir Svíum núna en töpuðum líka fyrir fleirum og ég held að það liggi ljóst fyrir að enginn þjálfari hefði getað náð lengra með þetta landslið eins og í pottinn var búið hjá leikmönnum þegar í ljós kom að margir lykilleikmenn voru ekki í toppformi vegna meiðsla, skorts á leikæfingu og fleiri atriða. 

Í raun er það kraftaverk að jafn fámenn þjóð og Íslendingar geti haldið úti landsliði með öllum þeim toppleikmönnum sem til þarf. Eftir að reglunum var breytt er yfirferð leikmanna og hraði mun meiri en áður og því reynir á úthaldið, ekki bara í hverjum leik, heldur ekki síður á heilu móti.

Stórþjóðirnar hafa stærra varalið toppleikmanna að grípa til eðli málsins samkvæmt og þessi liðsmunur telur, sama hvað þjálfarinn er góður.

Við getum ekki ætlast til þess að þjálfari í hæsta gæðaflokki eins og Alfreð, sem er upp fyrir haus í verkefnum í erfiðustu handknattleiksdeild heims, geti fórnað sér meira fyrir Ísland en hann hefur gert.

Þess vegna finnst mér að við eigum að þakka honum fyrir það sem hann hefur gert. Hann lagði sig allan fram og er einn af bestu sonum landsins.

  

 


Bloggfærslur 24. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband