27.1.2008 | 23:22
ÓÞARFA GALLAR Á KOSNINGALÖGUM.
Úrslit síðustu alþingiskosninga sýna að þörf er á umræðum og tillögum á Alþingi um lagfæringar á kosningalögunum. Vonandi verður tillaga Marðar Árnasonar um að sameina Reykjavíkurkjördæmin til þess að að minnsta kosti tvær lagfæringar fáist fram: 1. Reykjavík verði eitt kjördæmi. 2. Þröskuldur fyrir atkvæðamagn verði færður í svipað horf og er hjá næstu frændþjóðum okkar, úr 5% niður í 2,5%
Fróðlegt er að sjá hvað útreikningar, sem kunnáttumaður hefur gert fyrir mig í sambandi við tillögu Marðar, leiða í ljós að gerst hefði ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi í síðustu kosningum. Nefnum þrjú þeirra.
1. Jón Sigurðsson hefði komist á þing og væri því sennilega enn formaður Framsóknarflokksins því að hann sagði að ástæða þess að hann hætti formennsku í Framsóknarflokkum væri sú að hann teldi sér ekki fært að gegna því utan þings.
2. Íslandshreyfinguna skorti aðeins 61 atkvæði til að koma kjördæmakjörfnum manni á þing í Reykjavík.
Á þýðingarmiklu tímabili í kosningabaráttunni sýndu skoðanakannanir 0 þingmann þótt fylgið í Reykjavíkurkjördæmunum væri nægt til að koma einum manni á þing í sameinuðu kjördæmi. Það er mikill sálfræðilegur munur á að sjá töluna 1 eða töluna 0 og ekki er vafi á í mínum huga að að minnsta kosti í Reykjavík hefðu kjósendur ekki hræðst að kjósa I-listann vegna þess að hætta væri á að atkvæðin dygðu ekki til að koma manni á þing.
3. Þingmaður VG í Reykjavík hefði færst til Norðausturkjördæmis.
Það hefur verið upplýst að það hafi verið að kröfu landsbyggðarþingmanna að Reykjavík var skipt í tvö kjördæmi. Það var auðvitað alveg á skjön við þau rök sem færð eru fyrir kjördæmaskiptingu að rétt sé að kjósendur sem eigi svipaða hagsmuni vegna landfræðilegrar legu og aðstæðna í kjördæminu eigi að vera saman í kjördæmi.
Ef samræmi hefði verið í þessu hefði verið nær að skipta Reykjavík í austur og vesturkjördæmi þar sem úthverfin hefðu þá verið talin eiga að einhverju leyti aðra hagsmuni en eldri hverfin.
Aldeilis fráleitt er að skipta Reykjavík eins og gert er. Íbúar í húsaröðinni við sunnanverða Hringbraut eiga enga aðra hagsmuni en íbúarnir í húsaröðinni hinum megin við götuna og því síður gengur það upp að skipta upp einu af austasta hverfi borgarinnar eftir því endilöngu.
Raunar er fráleitt að skipta Reykjavík, einu sveitarfélaga landsins, upp. Það er svona álíka fráleitt eins og að skipta Eyjafjarðarsvæðinu á milli Norðvestur- og Norðausturkjördæmis þannig að línan liggi eftir endilangri Akureyri.
Í skoðanakönnunum í kosningabaráttunni kom í ljós að það var forsenda þess að stjórnin félli að Íslandshreyfingin kæmi mönnum að í samræmi við fylgi sitt og það kom enn einu sinni í ljós í kosningunum sjálfum.
Af þessu ættu menn að læra, ekki vegna Íslandshreyfingarinnar, heldur vegna lýðræðisins og komandi kosninga og framboða til þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)