29.1.2008 | 21:17
JÚ, 30 PRÓSENT, EN EKKI ÉG.
Mér skilst að rannsókn hafi leitt í ljós að óviðráðanlegt þunglyndi herji á 30 prósent fólks einhvern tíma á ævinni. Þar sem tíu manns koma saman ættu því að meðatali þrír að geta stigið fram og sagt: Ég er einn af þeim. En það gerist ekki. Hver og einn getur svo sem fallist á að þetta séu 30 prósent, - en, - ekki ég. Enda einkamál.
Ég er einn af þeim sem hef haft það sem einkamál mitt og minna nánustu að ég fékk þunglyndisköst sem gátu enst í allt að 1-2 daga á aldrinum 9-21 árs. Þá hvarf þetta, ég fékk síðasta kastið 1962 og síðan ekki söguna meir.
Lýsingin á þessum krankleika er einföld í mínum huga. Í tilfelli svipuðu mínu er viðkomandi sem lamaður, getur ekkert gert- horfir á sjálfan sig þjást í einrúmi líkt og aðra persónu og veit af reynslunni að vegna þess að kastið muni hvort eð er líða hjá væri best að stytta það strax en að láta það halda áfram. En það er ekki hægt frekar en að maður geti ákveðið að láta flensu eða lungnabólgu á hverfa á stundinni, bara rétt si svona.
Þetta er ótrúlegt fyrir þá sem ekki hafa reynt það. Þetta er sjúkdómur sem getur staðið mislengi alveg eins og aðrir sjúkdómar. Líka komið í mislöngum köstum eins og bakveiki, flogaveiki eða mígreni. Þetta gerðist misjafnlega oft hjá mér og stundum var langt á milli, margir mánuðir.
Enginn utanaðkomandi hefði getað trúað því að ég glímdi við þetta á fyrstu árunum sem ég fór um allar byggðir landsins sem skemmtikraftur með grín og glens. Allir hefðu hins vegar getað trúað því að ég fengi bakveikisköst eða hálsbólguköst. Fólki er hættara við þessum einkennum á unglingsárum og síðan eldist það af því. Ég reikna með því að vegna þess hve ég var bráðþroska hafi þetta komið svona snemma fram hjá mér. Ég ólst upp á heimili áfengisvandamála foreldra minna og stormasamrar sambúðar þeirra, ég var elstur systkinanna og tók þessi vandamál inn á mig.
Sjúkdómar há okkur öllum í mismiklum mæli. Sjúkdómar geta hamlað getu okkar tímabundið til lengri eða skemmri tíma. Í mínum huga skiptir ekki máli hvort sjúkdómurinn herjar á höfuð, herðar, hné eða tær, tennur, heila eða innyfli.
Ég gat ekki um þennan kvilla minn í bók sem ég skrifaði á sínum tíma um bernskuminningar mínar en sagði hins vegar frá því í bókinni því að ég lagðist alvarlega veikur með óráð og háan hita sex ára gamall og lá rúmfastur í nokkrar vikur.
Mér fannst þessi þunglyndisköst mín svo fá og tiltölulega stutt að ég sleppti því að segja frá þeim í bókinni þótt ég liti nákvæmlega sömu augum á þau og hin veikindin, sem lögðu mig í rúmið svo að ég var lengi að jafna mig.
Nú greini ég frá hvoru tveggja til að leggja mitt af mörkum til raunsærrar umræðu um sjúkdóma og heilsu sem við ættum öll að geta lært af og miðlað hvort til annars.
Heilsufarið skiptir auðvitað máli fyrir líf, starfsþrek og traust hvers manns. Það hefur verið gert óspart grín að því að Guðni Ágústsson henti á lofti þau ummæli þekkts manns að það væri betra að hafa góðar hægðir en góðar gáfur. Ég hef sjálfur fengið ristil- og meltingarfærakrampa sem hefur gert mig óvinnufæran í allt að sólarhing og á meðan slíkt gengur yfir afkastar maður ekki miklu í vinnu. Þetta er oft viðkvæmt, - benda má á nýlegar áhyggjur verkalýðssamtaka vegna heilsufarsupplýsinga um fólk sem gætu ratað inn í fyrirtæki og stofnanir. Ég held að það sé hollt fyrir okkur öll að íhuga þessi mál og ýmsar hliðar þess af yfirvegun og fordómalaust. Skyldi sá dagur koma að stofnuð verði samtök fyrrverandi og núverandi þunglyndissjúklinga svipuð samtökum um áfengissýki, sykursýki og Parkinsonveiki?Bloggar | Breytt 30.1.2008 kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
29.1.2008 | 14:48
FJÖLMIÐLAR - SJÁLFHVERFUR SPEGILL?
Þegar menn gagnrýna að fjölmiðlar og fjölmiðlafólk fjalli um það sem er að gerast í þeim og þar með fjölmiðlafólkið og séu því alltof sjálfhverfir er fyrri helmingnum af ákveðnu ferli sleppt en hann er sá að langoftast eiga aðrir upptökin að því að umræða fer inn á ákveðið plan, - oftast fólk í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu. Frá því eru komin orð eins og "hnífsstunga", "hnífasett", "óheilindi", "trúnaðarbrestur" o. s. frv. Þessi orð falla eðli málsins samkvæmt í fjölmiðlum og eru þar með orðin efniviður í fjölmiðlaumfjöllun.
Sú fjölmiðlaumfjöllun getur síðan orðið tilefni til umræðna og skiptra skoðana, sem fjölmiðlar verða að sinna.
Orð og atburðir skapa mikla umræðu í þjóðfélaginu og áhuga fólksi. Hún fer fram í fjölmiðlum sem oft henda á lofti það sem sagt er og gert. Að þessu leyti eru fjölmiðlarnir spegill þjóðfélagsins þótt þeir séu líka gerendur við að miðla vitneskju um málin.
Það er hins vegar krafa sem á fullan rétt á sér að mínum dómi að fjölmiðlar reyni að gera eitthvað meira en að fiska á yfirborðinu. Þeir eiga að kafa ofan í málin og leitast við að "lyfta málinu á örlítið hærra plan" svo að vitna sé í fleyg orð Nóbelskáldsins.
Það er hins vegar mikil einföldun að mínum dómi að skrifa á fjölmiðlana allt sem mönnum finnst fara aflaga í umræðunni. Þá er verið að skjóta sendiboðann sem á að sinna þeirri skyldu sinni að miðla upplýsingum og mismunandi skoðunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)