30.1.2008 | 23:45
SONUR LÆRÐI EKKI AF FÖÐUR.
George Bush eldri fór að ráðum góðra ráðgjafa og lét her sinn ekki halda áfram til Bagdad og steypa Saddam Hussein af stóli eins og honum hefði verið í lófa lagið. Ráðgjafarnir sögðu að það hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér. Bush eldri gætti þess að hafa alþjóðlega samstöðu um hernaðinn og fara að alþjóðalögum. Sonur hans gerði flest öfugt við föður sinn í hefnd sem byggð var á uppspuna um gerðeyðingarvopn sem reyndust ekki vera til.
Þakka má forsjóninni fyrir að Bush yngri var ekki forseti þegar misvitrir hershöfðingjar lögðu til að varpa kjarnorkusprengju á Kyoto en Stimson hershöfðingi lét það vera eitt sitt síðasta verk að fá Truman forseta á sitt band og grípa ekki til slíks óyndisúrræðis.
Bush yngri hefði vafalaust hent hugmynd Mac Arthurs hershöfðingja á lofti um að beita kjarnorkuvopnum gegn Kína, en Truman setti hins vegar Mac Arthur af.
Ólíkir forsetar, annars vegar Truman, fyrrum vefnaðarvörukaupmaður frá Missouri, sem eyddi 15 árum ævi sinnar í að vinna sig upp úr gjaldþroti og komast til æðstu metorða á eigin verðleikum og heilbrigðri skynsemi, og hins vegar pabbasonurinn sem fór í misskilda hefndarherför og er nú Guði sé lof er nú senn að enda forsetatíð sína.
Hvað verða margir látnir í Írak þegar þessi ósköp enda, ef þau gera það þá nokkurn tíma?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)