AÐ LOKA SJOPPUNNI Í JANÚAR.

Ég hef stundum sagt í hálfkæringi að það besta sem Íslendingar gætu gert væri að "loka sjoppunni" hér heima frá þrettánda fram á þorra og að sem allra flestir færu þá til suðrænna stranda í þrjár vikur til að hressa upp á sál og líkama í mesta kuldanum, myrkrinu og rokinu. Þetta myndi skila sér í auknum afköstum og lífgleði aðra tíma ársins.
Því miður hafa ekki allir efni á þessu en margir þó.

Jón Baldvin Hannibalsson er maður sem er gæddur þvílíku andlegu þreki og frískleika að það er synd að hér heima skuli slíkt mannlegt náttúruafl ekki nýtast. Ég kynntist því mjög vel í fyrravor að hann var bókstaflega að springa af lífsorku og var í betra formi en ég hef kynnst hjá honum í áratugi.

Minnisstæð er frábær ræða sem hann flutti í Bæjarbíói í Hafnarfirði í baráttunni vegna álversins. Betri ræða var að mínum dómi ekki flutt um orku- og umhverfismál á þeim tíma. Ég hafði hitt hann nokkrum sinnum áður og hann var undra fljótur að átta sig á helstu atriðum þessara mála og flytja um þau þessa mögnuðu ræðu.

Ekki þurfti að spyrja að flutningum og kraftinum sem reif þessa ræðu upp í hæðir. Gott er að þau Bryndís skuli njóta lífsins og láta þá drauma sína rætast sem mögulegt er.


mbl.is Jón Baldvin og Bryndís Schram láta gamlan draum rætast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AF HVERJU ER ALLTAF SVONA HVASST?

Svar við ofangreindri spurningu er einfalt. Á öllum kortum sem sýna meðaltöl í veðurfari fyrir janúar, þ. e. meðaltalsveðurlagið á veturna, er annars vegar næsthæsta hæð loftþrýstings á norðurhluta jarðar yfir Grænlandi, og hins vegar LÆGSTI MEÐALLOFTÞRÝSTINGUR JARÐAR sunnarlega á Grænlandshafi fyrir suðvestan Ísland. Meðan Grænlandsjökull er við líði verður þetta svona og vegna þess hve stutt er á milli hæðarinnar og lægðarinnar er mesti og samfelldasti meðalvindstrengur jarðarinnar við Ísland að vetrarlagi.

Þetta er meðaltal, en í raunveruleikanum eru þetta lægðirnar sem fara hver af annarri oftast í norðausturátt við Ísland, "Íslandslægðin" eins og nágrannaþjóðir okkar kalla þetta fyrirbæri stundum.

Algengasti vindgangurinn er þessi: Fyrst hvöss suðaustanátt meðan lægðin nálgast, síðan hvöss suðvestanátt meðan hún er að fara hjá og síðast hvöss norðanátt þangað til hæðarhryggur milli lægðarinnar og næstu lægðar fer yfir landið og nýja lægðin tekur við.

Á sumrin er meðallægðin grynnri og sömuleiðis Grænlandshæðin og vindar og veður draga dám af því. 


Bloggfærslur 31. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband