ÞREYTANDI UNGLINGADRYKKJA.

Fréttin í 24 stundum um þreytta skólastjóra vegna unglingadrykkju kemur mér ekki á óvart. Ég bý skammt frá einum helsta skemmtistað borgarinnar og það er ömurlegt að vakna upp á næturnar við það þegar ofurölvi unglingar undir lögaldri veltast um nágrenni staðarins og um hverfið í nágrenninu. Ég veit til þess að þeir hafi komist inn í stigaganga fjölbýlishúsa og ælt þar allt út. Nú síðast á nýársnótt töfðumst við hjónin, Helga og ég, fyrir utan blokkina sem við búum í, því að hópur unglinga fór hamförum í anddyrinu, kúgaðist og ældi fyrir utan blokkina og reyndi allt hvað hægt var að komast inn í stigaganginn.

Loks gáfust þeir upp og slöguðu á móti óveðrinu í austurátt. Ekki veit ég hve langa leið þeir ætluðu að fara en það vöknuðu áhyggjur um það hvernig þeim gengi í óveðrinu. Tók óratíma fyrir þá að komast aðeins 20 metra fyrir húshornið. Fyrst þá var óhætt að fara inn í anddyrið því að maður veit ekkert í hverju maður getur lent ef maður fer að skipta sér af hópi sem er í þessu ástandi. 

Fyrir nokkrum árum stálu unglingar bíl sem ég átti og fannst hann síðar ónýtur í Hafnarfirði. Lögreglan þar sagði að ekki væri rétt að tala um unglingavandamál heldur frekar foreldravandamál. Langoftast kæmu svona unglingar af heimilum þar sem foreldrarnir mættu ekkert vera að því að hugsa um afkomendur sína um helgar, því að "skyldudjammið" svonefnda vægi þyngra.

Í sumum tilfellum væri ekkert hægt að gera því að foreldrarnir stunduðu vinnu sína á virkum dögum á viðunandi hátt en þyrftu ævinlega að detta í það á föstudagskvöldum og síðan rynni ekki af þeim fyrr en í lok helgarinnar.

Mjög líklegt er að unglingarnir sem við sáum á nýjársnótt og voru langt undir lögaldri, hafi í raun ekki átt í nein hús að venda þessa nótt vegna þess ástands sem var á heimilum þeirra.

Þeir hafa ekki við neitt annað að vera um helgar en það sem þeir hafa leiðst út í. Ég segi bara eins og Jón Ársæll: Já, svona er Ísland í dag.  


Bloggfærslur 4. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband