5.1.2008 | 23:57
GÓÐUR Í SVEIFLUNNI, HVAÐ ANNAÐ?
Það kemur mér ekki á óvart að Bubbi skuli blómstra í sveiflunni og ég hefði átt að muna eftir að segja frá því í þættinum hjá Loga á Stöð 2 að hann gaf forskot á sæluna í laginu "Landi og lýð til hagsældar" á diskinum Sumarfrí sumarið 2006. Lagið var frá minni hendi kántrílag, en Bubbi réði því sem betur fór að gera það að sveiflulagi. Sagði mér frá því að hann hefði á siglingu um Karíbahafið hrifist af stórsveit sem kom í lyftu upp úr kjallara og lék fyrir farþega. Þá hefði hann uppgötvað í návígi til fulls leyndardóma stórsveitarsveiflunnar.
Þegar Logi spurði Bubba í þætti sínum að því hvort hann myndi fíla sveifluna hefði ég getað sagt það strax að Bubbi væri fæddur sveiflusöngvari, þvílík tilþrif og tilfinningu fann maður streyma frá honum þegar hann tók lagið með mér hér um árið.
Og nú hefur vinur minn bætt einni rósinni enn í smókingshnappagatið eins og við mátti búast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2008 | 21:41
RÁÐ VIÐ BOTNGJÖF OG HEMLALEYSI.
Frétt um vandræði og árekstur af völdum fastrar bensíngjafar leiða huga minn að hugarleikfimi sem gott er að stunda reglulega hvað varðar það og einnig það að hemlar bresti. Föst bensíngjöf: Stiga strax á kúpingu / setja sjálfskiptingu í hlutlaust og hemla. Hemlaleysi: Notað neyðarhemil sem á að vera í hverri bifreið og kallast handbremsa.
En hugarleikfimin er aðalatriðið, því að aðalatriðið er að "frjósa" ekki eða fara í panik. Þessi hugarþjálfun er sú leikfimi að fara að staðaldri í gegnum það í huganum og þá helst í næði í bílnum sjálfum að æfa sig í þessum viðbrögðum svo að þau verði helst ósjálfráð.
Mér er það minnisstætt haustið 2001 þegar ég kom akandi á 43 ára gömlum NSU Prinz inn í Gautaborg og hemlarnir fóru skyndilega af. Litlu munaði að ég gleymdi því að handbremsa var á bílnum af því að það var orðið svo langt síðan að ég hafði leitt hugann að þessu. Mundi það þó nógu snemma til að afstýra stórslysi.
![]() |
Bensíngjöfin festist í botni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.1.2008 | 18:19
HLÝNUN OG MEIRI SNJÓR ?
Já, hlýnandi veðurfar getur valdið aukinni snjókomu á ákveðnum svæðum. Það stafar að því að stóraukin úrkoma fellur að vetrarlagi sem snjór á hálendi eins og nú gerist á skoska hálendinu og í Siearra Nevada í Kaliforníu. Sama hefur átt sér stað á norska hálendinu undanfarin ár. Munu jöklar þá ekki vaxa með aukinni snjókomu? Nei, því að það er bara takmarkaðan tíma ársins sem úrkoman fellur sem snjór en frá vori til hausts er hlýrra og meiri rigningar en áður og leysingin gerir meira en vinna aukna snjókomu upp.
Á ótal ferðum mínum um hálendið hef ég tekið eftir því undanfarna vetur að hlákurnar eru lengri og ákafari en áður var og að norðan Vatnajökuls gerir það meira en vega upp aukna snjókomu á köflum. Þannig gat ég lent á flugvellinum við Herðubreiðarlindir alla mánuði ársins 2004 og hef lent á Sauðarmel rétt norðan Brúarjökuls allt fram undir jól.
![]() |
Snjóflóðahætta á Bretlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2008 | 01:21
SÉRKENNILEGUR FLÓTTI.
Ummæli Jóns Viðars Jónssonar, "snobbliðið mætir til að klappa (í Borgarleikhúsinu) en almenningur finnur nályktina og flýr" hafa verið á allara vörum að undanförnu. Við sem tökum þátt í söngleiknum Ást höfum ekki skynjað þetta svona. Uppselt hefur verið á þær 70 sýningar sem haldnar hafa verið og sér ekki fyrir endann á því.
Í Morgunblaðinu í dag sé ég að þegar sé uppselt á allar fyrstu níu sýningar fram í febrúar á söngleiknum Jesus Christ Superstar á stóra sviðinu. Sérkennilegur flótti áhorfenda þar.
Að öðru leyti dettur mér ekki í hug að fara að deila um ummæli sem tengjast smekk eða matsatriðum þessa ágæta gagnrýnanda eða annarra. Hver verður að dæma fyrir sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)