KALLAR Á SÆSTRENG ?

Sjónvarpið fjallaði í kvöld aðeins nánar en áður hefur verið gert um sjávarfallavirkjanir í Breiðafirði. Minnst var á þann stóra galla að "á liggjandanum" eins og tímibilið er kallað milli þess sem fellur út og fellur inn, standa hverflarnir kyrrir og framleiða enga orku. Því var ekki fylgt eftir nægilega að rafmagnsleysið á þessum tveimur klukkustundum kemur í veg fyrir að hægt sé að nota orkuna fyrir stórfyrirtæki sem þurfa samfellda orku. Minnst var á að aðrar virkjanir gætu fyllt upp í gatið en hvernig þá?

Ekki er að sjá að hægt sé að bæta í afköst annarra virkjana á þessum dauðu stundum því að þær virkjanir eru hannaðar fyrir samfellda orkuframleiðslu. Ef hægt væri að vera með jafn stórar sjávarfallavirkjanir nógu langt frá Breiðafirði til þess að liggjandinn sé ekki á sama tíma og við þar væri dæmið leysanlegt með samtengingu flutningsnetfsins.

En því miður sýnist mér ekki að hliðstæðar aðstæður finnist annars staðar á landinu sem skapi jafn mikla orku úr sjávarföllum. Þá er aðeins eftir sá möguleiki að tengja íslenska raforkukerfið við það evrópska þannig að sveiflur í sjávarfallavirkjunum þar vegi upp sveiflurnar hér.

Mikið orkutap yrði í slíkum streng og það myndi draga mjög úr hagkvæmninni. En sá tími kanna að koma að samt yrði talið semkeppnisfært að koma orkuöfluninni fyrir á þennan hátt.

Þetta er eitt af því sem sýnir hve fráleitt það er að rasa um ráð fram nú með stórfelldum náttúruspjöllum við aðrar virkjanir ef umhverfisvænni virkjanir upp á 3-4 Kárahnjúkavirkjanir eru handan við hornið.

Fyrir nær 60 árum las ég af áfrergju bók sem hét "Undur veraldar" og innihélt fróðlegar greinar af ýmsu tagi, meðal annars um tilraunir til að klífa fjallið Everest, en það hafði þá ekki tekist og frásagnirnar af Mallory og Norton voru til merkis um hve illmögulegt það yrði.

Einn kafli bókarinnar fjallaði um þá framtíðarsýn að mannkynið myndi í framtíðinni framleiða langmest af orku sinni með sjávarfallavirkjunum. Það myndi hins vegar hafa þau áhrif að hægja myndi smám saman á snúningi jarðar sem aftur leiddi til þess að tunglið myndi vegna minnkandi miðflóttaafls færast nær og nær jörðu uns það félli til jarðar með þeim afleiðingum að heimsendir yrði hvað snerti mannkynið og líf á jörðinni.

Þessari atburðarás var lýst á dramatískan og eftirminnilegan hátt í bókinni allt til hinstu stundar mannkyns þegar tunglið, þá orðið að risastórum hlemmi á himninum, félli með öllum sínum þunga á jörðina.

Ekki veit ég hvort þessi pæling stóðst á sínum tíma vísindalegar kröfur en get þessa hér aðeins til gamans.


SVANDÍS, ÓSKABORGARSTJÓRI MOGGANS.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag er haldið áfram þar sem frá var horfið í fyrrasumar um það að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að mynda stjórn með VG. Það myndi þjóna langtímahagsmunum flokksins best "að opna ekki helsta keppinautnum leið til valda." Nú hvetur bréfshöfundur til samstarfs Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna í borginni vegna þess að ekki sé samstaða í nýja meirihlutanum þar. Í bréfinu eru tíndtil ýmis "strategisk" rök fyrir samstarfi við VG og talað um "myndun slíks meirihluta með Svandísi Svavarsdóttur sem borgarstjóra..."

Athyglisvert er að höfundur bréfsins sem átelur forsætisráðherra fyrir að setja ekki langtímahagsmuni Sjálfstæðisflokksins ofar öllu í íslenskri pólitík gerir ekki þá kröfu að borgarstjóri í óskasamastarfinu komi úr röðum Sjálfstæðismanna sem hafa þó 7 af 15 borgarfulltrúum. Þetta minnir á SMS-skilaboðin frægu, "með eða án Villa."

Ég hvet fólk til að lesa Reykjavíkurbréfið í dag því að það er mjög áhugavert fyrir þá sök að það sýnir okkur inn í hugarheim manna sem hafa ólíka sýn á siðfræði og aðferðir í íslenskri pólitík, - annars vegar viðhorf forsætisráðherrans og hins vegar höfundar bréfsins.


GRÓÐAFORMÚLA TRASSANNA.

Athyglisverð er greining íbúa við Baldursgötu á áformum um nýbyggingar við götuna. Út úr henni kemur eftirfarandi formúla: Ef þú ferð vel með húsin og kostar til þess peningum er þér ekki umbunað í einu eða neinu. Ef þú skerð þig hins vegar nógu vel úr sem húseigandi og lætur hús þín drabbast niður svo að þau verða að lýti í hverfinu umbuna borgaryfirvöld þér með því að leyfa þér að rífa þau og reisa svo mikið stærri hús í staðinn að þú græðir vel á öllu saman. Gömul og gróin skotheld formúla.
mbl.is Gagnrýna skipulagsáform við Baldursgötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband