16.10.2008 | 22:40
Höldum ró okkar og skoðum málið.
Hugsanlega hefur lokasetningu leiðtogafundarins í Brussel verið bætt inn fyrir tilverknað Breta eða Hollendinga en við vitum það ekki. Kannski er þessari viðbótarsetningu ætlað að minna á að Evrópusambandið ætli ekki að gefa út óútfylltan víxil um takmarkalausa hjálp heldur til að minna á að við Íslendingar eru í margs konar sambandi við alþjóðasamfélagið og verðum að hafa hliðsjón af því.
Kannski eimir enn eftir af viðbrögðunum, sem ég varð vitni að erlendis við upphrópun íslensks ráðamanns í sjónvarpi í byrjun þessa darraðardans, sem skilja mátti þannig að við ætluðum aldrei að borga neitt.
Of mikið hefur verið um upphrópanir og æsingarkenndar aðgerðir í þessu máli. Nú er að skoða hverjar skuldbindingarnar eru sem um ræðir og hvernig þær tengist lausn málsins.
Engum er hagur í því að rasað sé um ráð fram heldur verður að draga djúpt inn andann og íhuga sanngjarnar aðgerðir til þess að við vinnum okkur út úr vandanum með aðstoð nágranna okkar.
Aðgerðir alþjóðasamfélagins mega hins vegar ekki vera í anda handrukkunarinnar sem Bretar beita okkur þessa dagana.
Vísa í bloggpistil minn um það efni.
![]() |
Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.10.2008 | 22:10
M-H-M-H.
Stóreignir verða verðlausar í kreppu. Markaður fyrir lúxus skreppur saman. En sumir hlutir halda verðgildi betur en aðrir. Meðal þess er hugvitið, mannauðurinn. Margt nytsamlegt var fundið upp á verstu kreppuárunum 1930-40 og sumir gátu aukið tekjur sínar og skapað virðisauka á þeim grundvelli.
Stórbrotin skáldverk, listaverk og tónlist urðu til. Kreppan varð jafnvel til þess að nytsamir hlutir urðu til sem annars hefði kannski ekki verið fundnir upp. Neyðin kenndi naktri konu að spinna.
Matar verður alltaf þörf, einnig húsaskjóls. Mannauður, menntun og menning eru undirstöður byggðar í landinu og dýrmæti heilsu og heilbrigði missir aldrei gildi sitt.
Úr þessu má lesa skammstöfunina M-H-M-H.
M=Matur. Íslendingar framleiða mat til sjávar og sveita og hvert starf við sjávarútfveg gefur þrefaldan virðisauka í þjóðarbúið miðað við hvert starf í álveri.
H= Húsaskjól. Því miður var byggt svo langt umfram þarfir í "góðæri" skuldanna að lægð kemur á eftir. Betra hefði verið að fara sér hægara svo að eðlilegri þörf væri mætt áfram jafnt og þétt. En það mun jafna sig.
M=Mannauður, menntun, menning. Þar liggja sóknarfærin til að halda mannauðnum í landinu. Áfram er þörf fyrir uppfræðslu og sköpunargáfu, menntun og menningu og störf sem tengjast þessu.
H=Heilsa og heilbrigði. Grundvallaratriði.
Hugum að þessu þegar við þurfum á endurhæfingu að halda eftir áföllin.
![]() |
Gott uppgjör hjá Google |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.10.2008 | 21:07
Stærsta handrukkun heims.
Íslendingar voru kannski á fjármálalegum fíkniefnum og talsmaður okkar sagði það óþvegið framan í agndofa heimsbyggðina í sjónvarpi að við myndum ekki borga fíkniefnaskuldina. En viðbrögð Breta við því og ruddalegar aðfarir er varla hægt að líkja við annað grófa handrukkun þar sem hinn rukkaði er laminn svo til óbóta dag eftir dag , að með sama áframhaldi mun hann ekki getað borgað neitt.
Þegar sjávarútvegsfyrirtækin stöðvast vegna þessara aðgerða má líkja aðgerðum Breta við það að bóndi flái kindur sínar í stað þess að rýja þær. Þetta er svo ótrúlega lítilmótlegt og heimskulegt athæfi að það á ekki að láta Breta komast upp með það að sleppa frá þeim órefsað.
Þeim væri nær að beita hryðjuverkalögum á Bandaríkjamenn, sem áttu stærstan þátt í þessari fjármálakreppu heimsins og komu henni af stað.
En þetta er svipað fyrirbæri og í gamla daga þegar hjáleigubóndinn þorði ekki að lemja óðalsbóndann, heldur lét reiði sína bitna á vinnumanninum.
![]() |
Hryðjuverkalögin skemma fyrir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.10.2008 | 20:40
Baslsöm útgerð ljóss og skugga.
Fór í birtingu í morgun á gömlum smájepparræfli upp á flugvöllinn á Sauðármél milli Kárahnjúka og Brúarjökuls til þess að taka þaðan "minnsta jöklabíl á Íslandi," tuttugu ára gamlan tveggja manna Toyta Hilux pallbíl, sem ég hef haft þarna efra til taks til að draga Örkina, ef fara þyrfti í lokasiglingar á lónum Kárahnjúkavirkjunar austan Snæfells.
Ég fór reyndar austur 19.-20. septembar á Fiat 126, til að ná mynd af drekkingu gróinna og fallegra áreyra Kelduár 20. desember, en hún gerðist um nótt og var að því leyti fyrir luktum rökkurtjöldum og náðist ekki á mynd. Ég kom fljúgandi ausur í fyrradag og lenti á flugvellinum eftir myndatökur af Hálslóni og svæðinu vestan við það þar sem enn eru jarðskjálftakippir.
Ágætismaður, Helgi Haraldsson, fór með mig frá Kárahnjúkum inn á flugvöll og varð mér síðan samferða til baka. Ljósið í þessari ferð var eitthvert fallegasta vetrarveður sem ég hef fengið á þessum slóðum.
Í ljós kom að ventill lak á litla jeppanum og nú er ég kominn niður á Egilsstaði og er að leggja þessum gömlu druslum en færa eina þeirra til frá Mývatni til Egilsstaða í fyrramálið. Þetta stand í kringum Örkina er svona basl eins og gengur hjá útgerðarmönnum og ákveðinn sjarmi við það.
Dapurlegra verður þegar Kelduárlón verður fyllt til fulls á næstunni og sex ferkílómetrum af fallegu landi með tjörnum, gróðurvinjum og hinu blátæra Folavatni með Vatnajökul og Snæfell í tignarlegri umgjörð sinni verður sökkt í aurugt lón.
Eins og ég hef lýst áður í bloggi er þetta "virkjun til einskis" svipað og "bridge to nowhere" Söru Palins í Alaska. Brú Palins liggur þó til um fjörutíu manna og kostaði ekki eyðileggingu náttúrverðmæta en Hraunaveitan austan við Eyjabakka er gersamlega óþörf.
Svo mikið vatn hefur verið og verður í Jöklu og Kringisá í hlýnandi loftslagi að þessar tvær ár hafa nægt fyrir Kárahnjúkavirkjun og vel það án þess að Jökulsá í Fljótsdal hafi veirð notuð.
Aðeins var notuð 25 metra sveifla af 50 metrum mögulegum í Hálsóni í vor og kröftugt yfirfall á Kárahnjúkastíflu sýnir fáránleika þess að umturna ánum, gróðurvinjunum og fossunum á Hraununum austan Snæfells án þess að skapa eitt einasta megavatt.
Þetta er jafnvel verra en bruðlið sem hefur leitt okkur þangað sem við erum komin. Verið er að ganga braut eyðileggingar á náttúru landsins til enda án þess að fá nokkuð í staðinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)