Véfrétt sem getur þýtt margt.

Einhver ástæða hlýtur að vera fyrir sérstakri yfirlýsingu Century Aluminium um að verið sé að "yfirfara áætlanir um álverið í Helguvík". Athygli vekur að gengi hlutabréfa fyrirtækisins hefur rýrnað um meira en 80% síðan í maí. Heimsmarkaðsverð á áli stefnir enn niður á við. Og þá er að fara að giska á hvað liggi að baki.

Kannski það sama og hefur gerst ítrekað áður, bæði á Reyðarfirði, Bakka og í Straumsvík: Því miður kemur í ljós í næstu yfirlýsingu fyrirtækisins að álverið verði ekki hagkvæmt nema það verði tvöfalt stærra en nú er áætlað. Les: Virkja í Kerlingafjöllum og/eða á Torfajökulssvæðinu.

Eða: Nú eru erfiðir tímar og þið verðið að liðka fyrir okkur á alla lund og betur en áður var inni í myndinni. Eða: Ef þetta heldur svona áfram niðurávið hjá okkur verðum við að fresta framkvæmdum og sjá til hvort rofi til.

Og þá er spurt á móti: En varla ætla þeir að fresta neinu úr því þeir tiltaka sérstaklega hvað álverið verði gott og einnig hvað það sé nauðsynlegt að reisa það í þágu gjaldþrota þjóðar?

En svarið við þeirri spurningu gæti verið að með þessu séu þeir aðeins að rökstyðja enn frekar að við eigum enga aðra völ en að ganga að hvaða afarkostum sem okkur eru settir, - annars verður ekki reist álver í Helguvík.

Það er sama aðferð eins og notuð var vegna áforma um stækkun álversins í Straumsvík fyrir einu og hálfu ári. Þá var gefið í skyn, að ef ekki yrði samþykkt að fara með álverið upp í 460 þúsund tonn á ári myndi það einfaldlega verða lagt niður.

Þá rétt tókst að stöðva það ferli en nú er mótstaðan minni þegar "hnípin þjóð í vanda" á í hlut.


mbl.is Fer yfir áform um Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnisvarðarnir misvel á sig komnir.

Allmargir risastórir minnisvarðar sem núlifandi Íslendingar hafa verið að reisa um sig sjálfa síðustu ár munu standa misvel á sig komnir þeirri spilaborg til háðungar sem nú er að hrynja. Ég játa það að ég gat aldrei skilið hvernig allar þessar risaverslanir gátu þotið upp á skömmum tíma.

Ég skoðaði Tónlistarhúsið í Þrándheimi tvívegis og hef einnig litið á tónlistarhúsið í Kaupmannahöfn. Tók myndir á eigin kostnað og ætlaði að fjalla um þetta í fréttum en það fórst fyrir. Get kannski gert það síðar.

Ólafshöllin í Þrándheimi kostaði brot af því sem tónlistarhöllin í Reykjavík á að kosta og samt ber íslenskum tónlistarmönnum, söngvurum og leikstjórum saman um að bestu skilyrði til flutnings hvers kyns tónlistar, líka óperuverka, sé að finna þar. Sambyggt hótel og verslun er þar en það þarf að leita að höllinni, - hún er ekki minnismerki í samkeppni við óperuhúsið í Sydney.

Þrándheimur og Þrændalög eru það byggðarlag í heiminum sem er líkast höfuðborgarsvæðinu að hnattstöðu, menningu, veðurfari og lífskjörum.

Ólafshöllin er það sem Hrafn Gunnlaugsson sagði að útvarpshúsið ætti að vera, verksmiðjuhús þar sem framleidd væri menning en ekki risavaxið minnismerki eins og til dæmis útvarpshúsið er. Samt fallegt og smekklegt hús sem ber arkitektunum fagurt vitni.

Ólafshölin tekur 1200 manns í sæti og í kjallaranum er salur sem tekur rúmlega 200 manns. Hvorugtveggja er þéttskipað fólki um hverja helgi. Í kjallara íslenska tónlistarhússins er 500 manna salur, sem þarf að keppa við nokkra aðra sali af svipaðri stærð. Margir hafa þegar efast um að þessi salur nýtist. 150 manns í litla salnum í Ólafshöllinni virkar þéttskipaðu og með þéttri stemningu,, það hef ég sjálfur reynt.

150 manns í 500 manna sal æpa á mann sem hálftómt hús með enga stemningu.

Tónlistarhöllin í Reykjavík á að keppa við tvær glæsilegar nýjar tónlistarhallir í Kaupmannahöfn og Osló. Hvernig verður sú samkeppnisstaða hér út við ysta haf?

Það má að vísu ekki gerast úr því sem komið er að tónlistarhúsið í Reykjavík standi árum saman ófullgert og óupphitað eins og Þjóðleikhúsið á sínum tíma. Þá myndi það stórskemmast eins og ÞJóðleikhúsið.


mbl.is Flestum starfsmönnum Bauhaus sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll dýrin í skóginum vinir. Bull og vitleysa !

Kannski er viturlegustu setninguna um atburði síðustu vikna að finna í munni Mikka refs í Dýrunum í Hálsaskógi. Þegar lesin eru upp lög Hálsaskógar: "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Ekkert dýr má éta annað dýr", svarar Mikki: "Bull og vitleysa." Hann veit sem er að þessu góða takmarki verður aldrei náð til fulls.

Kommínisminn og óheftur kaptílisminn gleymdu því að fólk er misjafnt, gleymdu mannlegu eðli og breyskleika. Það er sjálfsagt að reyna með öllum mætti að stefna að því að öll dýrin í skóginum séu vinir en í mannlegu samfélagi verður fullkomnun aldrei náð.

Tilurð krónubréfanna eða jöklabréfanna ein hringdi strax bjöllum um það að í óefni gæti stefnt og að Murphyslögmálið gæti virkað óþyrmilega, - þess efnis að ef eitthvað gæti farið úrskeiðis myndi það gera það fyrr eða síðar. Þessi bréf voru fyrst og fremst afleiðing af rangri vaxtastefnu Seðlabankans sem var grundvöllur fyrir þau og innflutnings-neyðsluæði á grundvelli allt of hás gengis krónunnar.

Neysluæðið byrgði landsmönnum sýn og eðlilegri varkárni og tortryggni gagnvart því að allt léki í lyndi. Innlendir gagnrýnendur voru stimplaðir kverúlatar og erlendir gagnrýnendur óvinveittir öfundarmenn.

Ég minnist þess að hafa í fyrra í bloggskrifum líkt þessum bréum við Daemoklesarsverð sem Seðlabankinn hefði látið hengja upp yfir landsmönnum og enginn vissi hvenær hendurnar sem héldu á þessu sverði létu það falla.

Þær hendur voru margar og á ýmsum öðrum sviðum inni í spilaborg fjármálaheimsins gátu einhverjir séð sér hag í því eða fundið til valds síns með því að koma skriðu af stað þar sem það var hægt.

Tölvutæknin er dásamleg uppgötvun sem ætti að laða fram það jákvæða í öllum. En hvers vegna eru þá til tölvuþrjótar? Af því að dýrin í skóginum eru ekki öll vinir. Því miður.


mbl.is Íslands-heilkennið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofþenslan gerir þetta verra.

Svo einkennilega sem það hljómar er þjóðin kannski verr undir það búin að takast á við áföll og eignamissi en ef hér hefði verið nokkuð eðlilegt ástand áður en hinn mikli skellur kom. Vegna ofþenslunnar og lánabrjálæðisins hefur verið byggt alltof mikið og mikið af því of stórt. Þess vegna er engin eftirspurn eftir húsnæði, heldur stefnir í offramboð af of stóru húsnæði sem selst ekki.

Fólk sem vildi geta dregið saman seglin og spara fasteignagjöld, hita, rafmagn og viðhald með því að selja og kaupa minna húsnæði í staðinn getur það ekki.

Það er hægt að gera ráðstafanir til að selja bíla úr landi, en allt of stór hluti þeirra er af dýrari gerðum sem ekki er markaður fyrir í samdrættinum í heiminum. Engin leið er að selja hús úr landi. Tónlistarhúsið er óseljanlegt og ekki hægt að minnka það.

Það er því alveg áreiðanlega rétt hjá Gunnari Þorlákssyni að atvinnuhorfurnar séu mun veri en gert er ráð fyrir. Vandræðin eru rétt að byrja.

Í sjónvarpsfréttum nýlega var fólk spurt um kreppuna 1929. Þar var nefnt skakkt ártal því að áhrifa kreppunnar fór ekki að gæta hér á landi að marki fyrr en ári síðar. Sumarið 1930 var vígt fullt af nýjum byggingum og nýjar stofnanir voru teknar í notkun og haldin fyrsta glæsihátíð landsmanna, Alþingishátíðin.

Stjórn íhaldsmanna hafði gert þau mistök að hækka gengi krónunnar (Seðlabankinn stóð að hinu sama undanfarin ár) og Jónas frá Hriflu og vinstri stjórnin fór út í mklar framkvæmdir.

Siðan kom skellurinn og átökin, svo sem Gúttóslagurinn 1932, og 1936 voru af því fregnir að landið rambaði á barmi gjaldþrots og hinir erlendu lánardrottnar, einkum Bretar, orðnir mjög órólegiir.

Kreppan náði nýjum botni 1939 vegna borgarastyrjaldarinnar á Spáni og lokunar saltfiskmarkaðarins þar. Kveldúlfur, stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, fór á hliðina og mynda varð þjóðstjórn. Hambrosbanki í London hefði annars líklega getað heimt landið upp í skuld.

Stríðið og stríðsgróðinn bjargaði okkur úr snörunni en skóp hugsanlega þann brest "þetta reddast einhvern veginn" -hugsunarinnar sem alltaf hefur loðað við okkur. Við áttum stríðsgróðann ekki skilið þótt við misstum marga sjómenn og því síður Marshallaðstoðina. Kem að því nánar síðar.


mbl.is Staðan verri en af er látið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband