2.11.2008 | 22:31
Velkomin í hópinn, Þorgerður og Steingrímur.
Fyrir síðustu kosningar setti Íslandshreyfingin fram þá stefnu að þegar í stað yrði sett af stað vinna við að ganga frá samningsmarkmiðum Íslendinga og hafa umsókn um aðild að ESB klára, ef til þess kæmi að hún yrði á dagskrá. Þessi stefna jafngilti þá að vísu ekki að það ætti þá að sækja um aðild, - einungis það að vinna heimavinnuna sína svo að enginn tími tapaðist ef til þessa kæmi.
Þessi stefna var afflutt í fjölmiðlum en nú kemur í ljós að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og jafnvel Steingrímur Sigfússon aftaka ekki lengur að farið verði í þessa vinnu. Steingrímur vill að vísu frekar samstarf við Norðmenn en segist ekki útiloka að jafnframt athugun á henni verði aðrir kostir skoðaðir, þar með talin umsókn um aðild að ESB.
![]() |
Tilbúin að endurskoða afstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
2.11.2008 | 17:56
Enginn mótleikur?
Eiga Sjálfstæðismenn möguleika á að láta bóka á ríkisstjórnarfundi að æðsti maður Fjármálaeftirlitsins starfaði aðeins í umboði Samfylkingarinnar? Eða að einhver annar forstöðumaður í ráðuneytum Samflylkingarinnar starfaði ekki í umboði Sjálfstæðisflokksins?
Svarið er líkast til: nei. Með því væru Sjálfstæðismenn að viðurkenna mistök við efnahagsstjórnunina og geta auðvitað ekki hugsað sér slíkt.
Samfylkingin leikur nú þann leik að firra sig ábyrgð á sem flestu sem úrskeiðis hefur farið hjá ríkisstjórninni til þess að beina þunga gagnrýninnar á Sjálfstæðisflokkinn og opna um leið til undirbúnings því að efna til samstarfs við VG eftir kosningar næsta vor.
Aðdragandi þeirra gæti orðið svipaður og 1956. Þá samþykkti Framsóknarflokkurinn á Alþingi ályktun um brottför hersins sem var þvert á stjórnarsáttmála flokksins og Sjálfstæðismanna.
Þetta jafngilti stjórnarslitum og kosningar í júní 1956 fylgdu í kjölfarið með vinstri stjórn í framhaldinu.
Athygli vakti í viðtali við Steingrím J. Sigfússon í Silfri Egils í dag að hann útilokaði ekki, að aðildarumsókn að ESB yrði skoðaður samtímis öðrum möguleikum til samstarfs við nágrannaríkin í efnahagsmálum. Hann fór í flæmingi undan spurningu um það hvort VG væri sósíaliskur flokkur.
Báðir vinstriflokkarnir eru greinilega að opna dyr til hvors annars þessa dagana í ljósi skoðanakannana sem benda til hugsanlegs meirihluta þessara tveggja flokka á þingi og fyrstu vinstri stjórnarinnar í 14 ár.
![]() |
Samfylking afneitar Davíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.11.2008 | 17:39
Hélt dyrum opnum.
Steingrímur J. Sigfússon fór að með mikilli gát í Silfri Egils í dag, minnugur mistakanna fyrstu dagana eftir síðustu kosningar. Þráspurður um það hvort VG væri sósílískur flokkur fór hann undan í flæmingi og staðsetti VG nálægt jafnaðarmannaflokkum Norðurlanda.
Hann sagði einnig að til greina kæmi að athuga aðildarumsókn að ESB samtímis því sem aðrir möguleikar til samstarfs við nágrannalöndin væru skoðaðir. Hann vildi heldur ekki halda fram kröfu um það að Davíð Oddsson viki, heldur vildi að "allt gengið" sem bæri ábyrgð á honum, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu, þ. e. Geir og Björgvin og þar með ríkisstjórnin, vikju.
Það er rétt að ábyrgðin er viðkomandi ráðherra, Geirs og Björgvins, en krafan um að Davíð og Seðlabankastjórnin víki er hliðstæð því að krafa væri uppi um að stjórn KSÍ viki landsliðsþjálfanum og aðstoðarmönnum hans úr starfi vegna mistaka og slæms gengis landsliðsins og réði nýja.
Slíkar kröfur hafa komið fram í gegnum tíðina án þess að verið væri að heimta að stjórnin víki, heldur að hún víki þjálfaranum frá.
Síðan geta málavextir að vísu verið þannig að krefjast þurfi þess að öll forystan víki en það er matsariði á hverjum tíma.
Um árabil hefur það komið upp að rétt væri að skipta um menn í stjórnkerfinu hér og þar og ef það væri gert að skilyrði að ævinlega þyrfti að víkja viðkomandi ráðherrum um leið, yrði erfitt að hnika nokkru.
![]() |
Vill að kosið verði í vor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2008 | 13:05
Of miklar sveiflur.
Í áttatíu ár hefur jafnvægi á fjölmiðlamarkaðnum verið af skornum skammti. Alla tuttugustu öldina báru dagblöð sem voru beint og óbeint á vegum Sjálfstæðisflokksins ægishjálm yfir hin dagblöðin. Alþýðublaðið átti góðan sprett á fjórða áratugnum undir forystu Finnboga Rúts Valdimarssonar og Tíminn upp úr 1960 undir stjórn Hauks Snorrasonar, Tómasar Karlssonar, Jóns Helgasonar og Indriða Þorsteinssonar.
Dagblaðið og seinna DV komu sterk inn eftir 1975 en mestalla öldina voru Morgunblaðið og Vísir með meirihluta markaðarins langt umfram fylgi Sjálfstæðisflokksins.
Í aldarlok var svo komið að gömlu flokksblöðin Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið höfðu lagt upp laupana og Sjálfstæðisflokkurinn hafði tröllatak á báðum þeim dagblöðum sem eftir voru, Morgunblaðinu og DV. Aldrei í áttatíu ár hafði slagsíðan aldrei verið meiri á dagblaðamarkaðnum.
Þá hefði verið þörf fyrir atbeina löggjafarvaldins. En ríkjandi valdamenn létu sér þetta vel líka.
Þá gerist það að Fréttablaðið er stofnað og leikar jafnast á ný og höfðu aldrei fyrr verið jafnari.
En hvað gerist þá? Davíð Oddsson keyrir fram fjölmiðlafrumvarp sem augljóslega var beint gegn þessu ástandi. Þetta var synd, því að alla tíð hafði verið þörf á löggjöf til að sporna við slagsíðu á dagblaðamarkaðnum.
Með þessu gerði Davíð mikið ógagn, kom öllu í uppnám og eyðilagði fyrir því að hægt væri að koma á fót nauðsynlegum og eðlilegum lagaramma um fjölmiðlamarkaðinn.
Þjóðin skynjaði hinn raunverulega tilgang með fjölmiðlalögunum og því féllu þau fyrir atbeina hennar (skoðanakannanir) og forsetans. Eftir þann slag hefði þurft að stokka spilin upp á nýtt eftir að öldur lægði og setja nauðsynleg og skynsamleg fjölmiðlalög.
Nú blasir við ný staða í eignarhaldi á fjölmiðlum og ein sveiflan enn. Hvað sjónvarps og útvarpsmarkaðinn snertir er mjög mikils virði að Ríkisútvarpið sé ekki einrátt og því yrði það skref afturábak, aftur fyrir 1986, ef einkareknu útvarps- og sjónvarpsstöðvarnar dæu drottni sínum.
Það er heldur ekki æskilegt að dagblöðin fari á hliðina. En skoðun mín hefur verið sú allt frá því er ég fyrst skynjaði veruleika dagblaðamarkaðarins fyrir 60 árum að slagsíðu í eignarhaldi og áhrifum á fjölmiðlana beri að forðast.
Með því er ekki tekin afstaða til þess, hverjir hafa þessi áhrif eða dómur um það hvort þeir misbeiti þeim, heldur er hér fyrst og fremst nauðsynlega undirstöðu lýðræðisþjóðfélags.
![]() |
Félag Jóns Ásgeirs keypti fjölmiðla 365 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)