Dásamleg stórfrétt.

Er ekki dásamlegt að fá þá stórfrétt að erfitt hafi verið að koma í kring afhendingu bókargjafar til forseta Bandaríkjanna frá kollega hans á íslandi fyrir næstum áratug? Það er svo gott að fá svona stórfrétt til að skyggja á hinar einhliða fréttir sem dunið hafa undanfarna daga á landsmönnum.

Mér líður strax betur. Það er svo hollt að huga að hinu smáa sem getur verið stærra en Salomon í allri dýrð sinn, eins og það var orðað forðum af meistaranum frá Nasaret.

Nú þurfa rannsóknarblaðamenn Íslands að gera hlé á leit sinni að samtölunum sem Davíð geymir hjá sér og fara í vesturveg til að finna út hvar bókin góða er nú niður komin og hvort Clnton hafi lesið hana. Þetta varðar miklu um samskipti okkar við stórþjóðina í vestri og orðstír mannanna sem forðum fóru saman um landið "á rauðu ljósi", en stefna nú á móti hvor öðrum, báðir á rauðu ljósi út af miklu stærri málum en þá voru rædd.


mbl.is Afhending bóka dróst af gildri ástæðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógn hinnar værukæru velsældar.

"Velsæld er oft orsök ósigurs og ósigurinn lykill að velsældinni. Eitthvað á þessa leið sagði De Gaulle, reynslunni ríkari úr heimsstyrjöldinni. Í hátt í heila öld hefur verið sagt að það sem sé gott fyrir General Motors sé gott fyrir Bandaríkin.
Nú má snúa þessu við og segja að það sem er vont fyrir General Motors sé vont fyrir Bandaríkin.

Vandi bandarísku bílaverksmiðjanna er ekki fjárskortur og innspýting fjár því engin lausn nema meira fylgi. Upp úr síðustu heimsstyrjöld voru bandarískir bílar þeir bestu í heimi. Hurðir féllu þétt að stöfum, gírskiptingar runnu í gegn nákvæmar og áreynslulaust, gæðin og samsetningin gerðust ekki betri.

Preston Tucker, sem framleiddi byltingarkennda bíla 1948 var snúinn niður af ofurveldi bílarisanna og reynt að fá hann sakfelldan fyrir svik. Tucker var sýknaður en sagði í lokaorðum sínum fyrir réttinum að ef Bandaríkin héldu áfram á þessari braut myndu hinar nýsigruðu þjóðir, Þjóðverjar og Japanir, sigla fram úr þeim.

Ærandi hlátur skall á í dómshúsinu, - hvílík fjarstæða, - þessi maður sannaði með þessum orðum að hann væri algerlega geggjaður. Þjóðverjar og Japanir voru enn í sárum og allt í kaldakoli hjá þeim.

Um 1970 gerðu Japanir áætlun. Þeir byrjuðu að framleiða vandaða litla bíla á borð við Honda Civic, sem slógu í gegn hjá hippum 68-kynslóðarinnar.

Bandarísku bílarisarnir brostu, - þessir krakkar borguðu svo lítið fyrir þessar pútur að þeir máttu vel gera það. 15-20 árum síðar vöknuðu risarnir upp við vondan draum. "Krakkarnir" höfðu lokið námi, fengið vel borgaðar stöður og smám saman keyptu þeir stærri og dýrari bíla, en alltaf japanska, vegna gæðanna og áreiðanleikans á sama tíma sem gæðum bandarískra bíla hrakaði sífellt.

Japanska áætlunin hafði verið gerð fyrir 20 ára tímabil sem átti að færa þeim bandaríska markaðinn. Nú eru liðin tæp 40 ár síðan þessi útsmogna áætlun var gerð og niðurlæging bandarísks bílaiðnaðar blasir við öllum.

Á meðan Toyota var með framsýna framleiðsluáætlun sem birtist meðal annars í Prius-tvinnbílnum veðjaði GM á Hummer og risapallbíla.

Í Bandaríkjunum, eins og hér, á að ausa af almannafé til sömu mannanna og klúðruðu öllu og því eru miklar líkur á að þetta verði liður í áframhaldandi hnignun Bandaríkjanna.

"Easy" er algengasta orðið í bandarískum auglýsingum. Barátta gegn hrakandi vinnubrögðum, lánsfjárfíkn og veruleikaflótta verða stærsta viðfangsefni nýs forseta.


Hverjir fóru til að "finna eitthvað á hann"?

Það er skemmtileg tilviljun að daginn eftir bloggpistil minn um aðferð Davíðs Oddssonar sem ég kalla "finndu eitthvað á hann"-aðferðina, skuli upplýst hvernig Davíð lagði það upp árið 2003 að gera forseta Íslands að athlægi um víða veröld með því að afhjúpa ólöglegt hjónaband hans og Dorritar, afhjúpa afglöp sýslumannsins í Hafnarfirði og afglöp erlendra kollega sýslumanns, sem hefðu væntanlega gefið fyrrverandi eiginmann Dorritar oftar en einu sinni í ólöglegt hjónaband!

25 ára löng hneykslissaga fjölþjóðlegs fjölkvænis! Gerist varla meira krassandi.

Í bloggpistli mínum lýst ég því hvernig reynt var að hræða mig frá gerð myndarinnar "Á meðan land byggist" með hótunum, sem urðu til í andrúmslofti þar sem ekki þurfti einu sinni atbeina Davíðs til að koma "finndu eitthvað á hann"-aðferðinni í gagnið. Það nægði að viðkomandi héldu að Davíð hugnaðist þetta afsprengi óttans sem gegnsýrði þjóðfélagið.

Svo virðist sem aðförin að forsetanum hafi farið á sömu lund og það sem mér var ætlað. Í ljós kom að allir hjúskapargerningarnir, bæði erlendis og hér heima voru löglegir en Davíð gat látið alla á Hagstofu Íslands og hjá sýslumanninum í Hafnarfirði skjálfa af ótta vikum saman vegna þess að erfitt var að hafa uppi á 25 ára gömlu skilnaðarvottorði erlendis frá.

Eftir situr spurningin um leyniþjónustu Davíðs, bæði þá sem stjórnað var og ekki síður hinni sem var sjálfvirk. Hverjir fóru og fundu eitthvað á forsetann með því að snuðra í gögnum hjá sýslumannsembættinu í Hafnarfirði?

Hve víða var farið til að "finna eitthvað á" Ólaf Ragnar og hans fólk? Hvaða meðöl voru notuð? Hve langt mátti ganga? Vonandi ekki að nota símhleranir?

Nei, þar geng ég sennilega of langt, þótt þetta mál sýni allt að það virtust lítil takmörk fyrir því hve hægt var að ganga langt. Og nú bíða allir spenntir eftir því hvað Davíð hefur á Geir og aðra með samtölunum sem hann segist "hafa undir höndum."  


Minnihlutinn ræður?

Umræður um Seðlabankastjórnina eru fróðlegar á Alþingi. Fram kemur í ræðu stjórnarandstöðuþingmanns að þingmeirihluti sé fyrir því að láta verða mannaskipti í bankanum. Verður látið á slíkt reyna? Verður lýðræðið í stofnun fulltrúa lýðræðisins látið virka og meirihlutinn látinn ráða? Sennilega ekki.
mbl.is Nýja Seðlabankastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband