23.11.2008 | 21:59
Frumkvæðinu snúið við.
Margir minnast deilna fyrir aldarfjórðungi um eldflaugar í Evrópu þar sem vesturveldin töldu að frumkvæðið um skammdrægar eldflaugar kæmi frá Rússum og flaugarnar í Vestur-Evrópu ættu að vera andsvar við því.
Að undanförnu hefur frumkvæðið komið frá Bandaríkjunum og Rússar vilja bregðast við því. Vonandi tekst Obama að koma á sátt um þessi varnarmál í Evrópu og hindra eldflaugakapphlaup sem dregur álfuna að nýju inn í miðju átaka.
![]() |
Biðja Obama að hætta við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.11.2008 | 20:09
Ólíkindatól.
Stefán Karl Stefánsson er eitthvert mesta ólíkindatól að hæfileikum, bæði andlegum og líkamlegum, sem ég hef kynnst. Margir minnast frábærrar frammistöðu hans og Hilmis Snæs Guðnasonar í leikriti í Þjóðleikhúsinu, sem ég man ekki lengur hvað hét en ég hef einnig kynnst hæfileikum hans á ýmsum öðrum sviðum.
Um meira en þrjátíu ára skeið hef ég staðið fyrir tilvist svonefnds Stjörnuliðs og þar hefur spilað lunginn úr þekktustu leikurum, skemmtikröftum, stjórnmálamönnum, fjölmiðlamönnum og íþróttamönnum þjóðarinnar.
Stefán Karl fór tvisvar með liðinu á pollamótið í Vestmannaeyjum, en auk hans var og er Magnús Schevning ómissandi fyrir þetta lið.
Stefán heillaði alla strákana upp úr skónum sem Glanni glæpur á fótboltaskóm og brilleraði í leikjunum, sem við lékum.
En hann lét ekki þar við sitja. Með okkur fóru oft lyftingakappar á borð við Jón Pál Sigmarsson og Magnús Ver og þótt ég muni ekki hver lyftingakappinn var í þessari ferð, var það eftirminnilegt þegar hann gerði mikla lyftingaraflraun og skoraði á einhvern fullorðinn meðal áhorfenda að leika það eftir.
Enginn gaf sig fram en þá kom bara Glanni glæpur og lék allt eftir lyftingameistaranum svo að menn trúðu ekki sínum eigin augum!
Maðurinn er ekki einhamur! Hann er til dæmis ótrúlega góð eftirherma þótt leynt hafi farið. Þess vegna kemur mér ekki á óvart þótt hann heilli Bandaríkjamenn upp úr skónum. Svona menn fæðast ekki nema á margra áratuga fresti.
![]() |
Stefán Karl vekur athygli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.11.2008 | 09:49
Voru Íslendingar heppnir að vera fyrstir?
Þessi spurning kom í hugann í bankahruninu þegar ég velti vöngum yfir óláni Íslendinga, sem tróðust fyrst undir í flóttanum undan hinum alþjóðlega eldi kreppunnar og voru því meðal fyrstu þjóða til að leita til IMF.
Svarið við spurningunni felst í því hvort það muni verða til góðs eða ills að hafa fengið sömu mönnum peninga í hendur og klúðruðu öllu og komu málum í óefni í upphafi.
![]() |
Botni kreppunnar ekki náð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.11.2008 | 09:42
14% kjósenda án þingfylgis?
Ýmislegt athyglisvert kemur út úr skoðankönnun Fréttablaðsins fyrir utan fylgisleysi ríkisstjórnar sem hefur gumað af sjálfri sér daglega vikum saman í fjölmiðlum.
Helmingur Samfylkingar styður ekki ríkisstjórnina.
Tæp 14% aðspurðra falla í þrjá minnstu fylgisflokkana, og þeirra á meðal er Framsókn með aðeins 6,3% og er þó í stjórnarandstöðu. 4,3% styðja Frjálslynda flokkinn, sem ekki virðst heldur græða á því að vera í stjórnarandstöðu og næði ekki inn manni vegna þess að tilskilið er að framboð fái minnst 5% á landsvísu til að fá þingmann.
Ef þessi 14% myndu skiptast jafnt á milli þessara þriggja myndi þetta fylgi, sem samsvarar um 25 þúsund kjósendum ekki fá neina þingmenn vegna þess að tilskilið er að framboð fái minnst 5% á landsvísu til að fá þingmenn. Glæsilegt lýðræði það?
Efstu menn á listum Sjálfstæðismanna, Samfylkingar og VG þurfa ekki að hafa áhyggjur af stöðu sinni því að kjósendur eiga ekkert val um þá í kjörklefanum, heldur geta aðeins refsað fótgönguliðum neðar á listunum sem sveiflast út og inn á kosninganótt.
Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði á borgarafundi að ráðamenn gætu gert og sagt hvað sem er því að kjósendur létu þá komast upp með það. Þetta er ekki alls kostar rétt. Kjósendur eiga enga möguleika í kjörklefunum til að hagga við þeim.
Undantekningar í síðustu kosningum voru Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz vegna slæmrar útkomu Framsóknar á höfuðborgarsvæðinu.
En efstu menn á listum Sjálfstæðisflokksins, til dæmis í Reykjavík, hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af stöðu sinni í 79 ár frá stofnun flokksins og þess vegna hafa kjósendur fyrir löngu gefist upp og láta þá komast upp með hvað sem er.
Það er sáraauðvelt að breyta þessu öllu, sem að ofan er sagt, en stóru flokkarnir hverju sinni mega ekki heyra það nefnt.
![]() |
31,6% stuðningur við stjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)