Hugsjónir og raunsæi í bland.

Í baráttusöng Íslandshreyfingarinnar eru þetta lokaorðin: "...hugsjónir og raunsæi í bland." Það má líkast til orða stefnu Obama á svipaðan hátt og svona var stefna Kennedys á sínum tíma.

Í Íslandshreyfingarsöngnum er orðið "hugsjónir" á undan orðinu "raunsæi", þ. e. hugsjónirnar eru grunnurinn og raunsæi nefnt til að vísa til þeirra aðferða sem best henta til að koma hugsjónunum í framkvæmd.

Lyndon Johnson, sem tók við af Kennedy, var realpólitíkus, raunsæisstjórnmálamaður eins og það er kallað. Kennedy flutti margar frábærar ræður og hreif fólk með þeim. Ekki minnist ég þess að Johnson hafi nokkurn tíma haldið neinar slíkar ræður.

Þegar upp var staðið var það hins vegar Johnson sem náði miklu betri árangri í umbótum fyrir blökkumenn en Kennedy og líklega liggur ekki meira eftir nokkurn Bandaríkjaforseta á því sviði en eftir hann.

Kennedy var ákveðinn í orðum varðandi baráttuna fyrir frelsi og notaði orðalag, sem gat alveg eins verið tekið úr munni haukanna í bandarískum utanríkismálum.

Í Kúbudeilunni sýndi hann hins vegar hófsemi, lagni og yfirvegun og gætti þess að láta haukana ekki leiða sig út á hálan ís.

Menn óttast að orðum Obama muni ekki fylgja efndir, "raunsæið" verði hugsjónunum ofar. Eitt veigamikið atriði mælir á móti því: Enginn Bandaríkjaforseti hefur nokkurn tíma verið eins kunnugur mismunandi menningar- og trúarheimum og mismunandi aðstæðum hjá jarðarbúum og Obama.

Þessi sérstaða hans mun vonandi skila sér í þeim ákvörðunum sem hann tekur.

Hillary Clinton var þingmaður fyrir New York ríki, en í New York er höfuðvígi Gyðinga og þeir hafa gríðarleg áhrif á stjórnmál ríkisins og borgarinnar. Vonandi losar Clinton sig frá áhrifunum af þessu og þjónar víðsýnni stefnu Obama í viðkvæmustu deilumálum heimsins við Miðjarðarhafsbotn.

Ef hún gerir það ekki vona ég að Obama hafi það bein í nefinu að taka fram fyrir hendurnar á henni eða víkja henni til hliðar.


mbl.is Obama haukur í sauðargæru?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Nokkur hundruð manns..."

Ég hef nú starfað sem leikari og skemmtikraftur með öðru í tæpa hálfa öld og tel mig vita nokkurn veginn hvað þúsund manns er margt fólk þegar það kemur saman. Ég var á Arnarhóli í dag og tel að ekki færri en þúsund manns hafi verið þar, jafnvel "nokkur hundruð manns" fleiri. Ég held að fundarmenn á hólnum hefðu ekki komist allir í sæti í Háskólabíói sem tekur tæplega þúsund manns.

Í fréttum Sjónvarpsins var hins vegar sagt að "nokkur hundruð manns" hefðu komið þarna saman, ekki "mörg hundruð manns," heldur "nokkur hundruð manns." Sem sé ca 3-600 manns.

Íslenska óperan tekur 550 manns og það er alveg klárt að fólkið á Arnarhóli hefði ekki allt komist í sæti í óperunni, ekki einu sinni helmingur þess.


mbl.is Endurvakin sjálfstæðisbarátta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Möller kallar á samstöðu.

Þegar farið er yfir ráðleggingar Claus Möller til Íslendinga sést að forsendan, sem hann gefur fyrir endurreisn er samstaða og leiðtogi sem þjóðin treystir. En hvernig er hægt að ná fram slíkri samstöðu og trausti til leiðtogans?

Ríkisstjórnin virðist álíta að það náist fram með því að engin mannaskipti verði og að enginn stjórnmálamaður eða stjórnarstofnun taki neina ábyrgð á því sem gerst hefur.

Að undanförnu hafa staðið yfir fjöldafundir með andófi og gagnrýni almennings sem á sér engin fordæmi í sögu þjóðarinnar. Ekki verður séð hvernig samstaða á að nást ef engar breytingar verða.

Fyrir bragðið sitjum við uppi með það ástand sem Claus Möller varar mest við.

Ríkisstjórnin segist vera að vinna í umboði þjóðarinnar og fyrir hana. Gerir hún það með því að ganga gegn þeim yfirgnæfandi meirihluta landsmanna sem styður hana ekki? Getur hún gert það á grundvelli kosninga sem fóru fram við allt aðrar aðstæður en nú ríkja?

Svar mitt er nei. Ríkisstjórnin verður að taka sér tak og breyta um kúrs.

Hér verður að sitja ríkisstjórn sem hefur ótvíræðan stuðning fólksins sem hún vinnur fyrir og nýtur trausts á grundvelli þess að axla ábyrgð. Þessa ríkisstjórn á að vera hægt að mynda, ekki seinna en eftir kosningar á næsta ári en helst fyrr með því að stokka upp í stjórninni og stjórnarstofnunum sem mesta ábyrgð bera á þann hátt að þjóðin sætti sig við það.

Öðruvísi næst ekki samstaða og traust á leiðtoganum.


mbl.is Íslendingar einblína á vandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brunaútsala eða ekki?

Björgólfur Guðmundsson er óvenjulegur maður um flest. Það er ekki hver sem er sem ákveður, eftir að mannorði hans hefur verið rústað á grófan og að flestu leyti ósanngjarnan hátt, að eyða því sem eftir er ævinnar til að endurheimta það sem af honum var tekið. Þess hörmulegra er það hvernig til tókst og í þetta skipti þannig að fréttist um allan heim.

Hundruð milljóna fólks um allan heim veit hver maðurinn á teinóttu fötunum er, sem á West Ham.

Nú hlakkar í ýmsum sem hafa horn í síðu Björgólfs og þykir í góðu lagi að sparka í liggjandi mann og kasta í hann steinum. Ég hygg að margir muni þar kasta úr glerhúsi og ætla ekki að kasta í hann.

Menn geta haft mismunandi skoðanir á Björgólfi en eitt er víst að hann hefur sýnt það alla tíð að honum er umhugað um samfélagið sem hann lifir í og hefur sýnt það í verki í smáu og stóru.

Ég tel í lagi að upplýsa það, að þegar við hittumst eitt sinn fyrir tilviljun í Landsbankanum í vor, kom í ljós að hann hafði fylgst með skrifum mínum um einstætt gildi gamla flugturnsins á Reykjavíkurflugvell. Hann bað mig um að útvega tilskilin leyfi fyrir því að við máluðum turninn saman, - það væri til skammar hvernig hann liti út.

Ég varð hissa og þó ekki. Þetta var Björgólfi líkt. Það er ekki hver sem er sem er tilbúinn til að fara úr sparigallanum og taka til við að mála gamla byggingu á sama tíma sem hann getur verið að vinna við það að græða meiri peninga.

Ég gekk í málið, sem reyndist ótrúlega flókið en þó leysanlegt. En þá dundu ósköpin yfir og nú sé ég ekki hvernig af þessu getur orðið.

Á sama tíma og ég tel nauðsynlegt að allir sem áttu þátt í hruninu mikla axli ábyrgð, hver á sinn hátt, ætla ég ekki að sparka í Björgólf Guðmundsson.

Björgólfur þurfti rúmlega áratug til að reisa líf sitt úr rústum á sinni tíð. Hann þarf líka að fá tíma núna, þótt æviklukkan gangi á hann og óvíst sé um viðbótartíma vegna meiðsla. Ef hann metur það svo að einhverjir þeirra sem hlakka yfir óförum hans ætli sér að hagnast á því að kaupa West Ham á brunaútsölu og að það sé rétt mat hjá honum, eigum við að styðja hann í því að fá sem mest út úr félaginu ef það er hægt, bæði hans vegna og okkar vegna.

Hann hefur sagst ætla að leggja sitt af mörkum til að reisa Ísland úr rústum og ég treysti því að hann standi við það. Þá er öllum fyrir bestu að hann geti komið heim með sem mest af því sem bjargað verður.

Vonandi verður gamli flugturninn málaður og honum fenginn sá sess sem honum ber þótt einhverjir aðrir en við Björgólfur klárum það nauðsynlega verk.


mbl.is Björgólfur hafnar tilboðum í West Ham
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband