"Eigi leið þú oss í freistni..."

Öll erum við gallagripir, búin frá náttúrunnar hendi bæði góðum og slæmum eiginleikum. Eðli málsins samkvæmt hefur ekki fundist enn sú þjóðfélagsskipan sem aðeins laðar fram það góða en heldur hinu slæma niðri. En það er skylda samfélagsins að leita að slíkri skipan.

Rússar og Kínverjar reyndu að finna slíka skipan með því að setja á blað hið fullkomna alræði öreiganna þar sem allir væru jafnir. Afleiðingin varð ógnarstjórn alræðis, sem kostaði tugi milljóna manna lífið, ekki af því að þessar þjóðir væru verra fólk en aðrir, heldur vegna þess að það gleymdist að gera ráð fyrir mannlegum breyskleika, mætti freistinganna.

Bandaríkjamenn hafa trúað á hið fullkomna frelsi sem nær óheft myndi fæða af sér þjóðfélag þar sem allir gætu orðið svo ríkir að fátæktin hopaði af sjálfu sér. Hér á Íslandi var þetta líka reynt af hömluleysi, sem einn bankastjóranna lýsti vel í tímaritsviðtali meðan hátimbruð sápukúla ímyndaðra auðæfa blés út.

Þetta leit rosalega vel út á pappírnum en mistókst vegna þess að ekki var gert ráð fyrir mannlegum breyskleika, mætti freistinganna.

Þetta sprakk ekki vegna þess að Bandríkjamenn eða Íslendingar væru verra fólk en aðrir, heldur vegna annmarka kerfisins. Kerfið bjó til ógn kommúnismans og kerfið býr til hrakfarir hins óhefta kapítalisma.

Nú og næstu misseri verðum við minnt á þessi sannindi í smáu og stóru. Mest af því sem aflaga fer mun ekki koma upp á yfirborðið en nóg samt til að áminna okkur um takmarkanir okkar og veikleika.

Meira að segja sú skipan blöndu af því besta í markaðshyggju og félagshyggju sem virðist hafa reynst skást á Norðurlöndum hefur reynst fjarri því að vera gallalaus. Flestir kannast við þá hættu sem of mikil forsjárhyggja leiðir af sér, til dæmis þegar sjálfsbjargarviðleitni fólks er deyfð og það "leggst upp á sósíalinn og misnotar hann."

En það hefur sennilega ekki fundist skárri skipan enn og hana er vafalaust hægt að endurbæta.


mbl.is Sami maður beggja vegna borðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband