14.12.2008 | 23:10
Skólabókardæmi.
"Bílvelta á Þingvöllum. Bílvelta varð í Skálabrekku..." Fyrstu sjö orðin í tilvitnaðri frétt og sex orð síðar, alls þrettán orða texti í þessari 35ja orða frétt, eru skólabókardæmi um það hversu mikla vitleysu er hægt að setja á prent í stuttri frétt sem er aðeins þrjár setningar.
Tökum fyrstu þrjú orðin: "Bílvelta á Þingvöllum. " Fjórum orðum síðar er sagt að bíllinn hafi oltið við Skálabrekku. Sá bær er alls ekki á Þingvöllum, heldur fimm kílómetrum fyrir sunnan suðurenda Almannagjár.
Ekki tekur betra við í framhaldinu af fyrirsögninni. "Bílvelta varð..." Á mannamáli er sagt: "Bíll valt", notuð tvö atkvæði í stað fjögurra og textinn hnitmiðaður í stað málleysunnar "bílvelta varð." Ekki tekur betra við í næstu tveimur orðum: "Í Skálabrekku." Halda mætti að bíllinn hafi oltið í nefndri brekku en bærinn Skálabrekka stendur reyndar á flatlendi um 800 metra frá veginum.
Í næstu setningu heldur vitleysan áfram: "Þrennt var í bílnum og voru þau öll flutt til Reykjavíkur og slysadeild, en með minniháttar áverka..."
Samkvæmt þessu orðalagi var slysadeildin flutt til Reykjavíkur, en þar hefur hún reyndar verið í minnsta kosti hálfa öld. Og nú er spurningin, úr því að fólkið og slysadeildin voru flutt til Reykjavíkur, hvort slysadeildin hafi verið með minniháttar áverka eins og fólkið.
Nýlega var sagt upp fjölda góðs starfsfólks á Morgunblaðinu. Það vekur spurningar um uppsagnirnar að sjá svona texta eftir að búið var að grisja í hópi starfsmanna.
Mig langar til að gera tillögu um að orða þessa frétt svona:
Fyrst er fyrirsögnin: "Bíll valt við Þingvallavatn."
Síðan kemur fréttin:
"Bíll valt á móts við bæinn Skálabrekku við Þingvallavatn um fimmleytið í dag. Þrennt var í bílnum og var fólkið flutt á slysadeild í Reykjavík. Að sögn lögreglunnar á Selfossi var það með minniháttar áverka."
![]() |
Bílvelta á Þingvöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.12.2008 | 22:21
Góðir hnefaleikataktar.
Mér er ekki kunnugt um hvort Bush Bandaríkjaforseti hefur nokkurn tíma fengið nasasjón af hnefaleikum, en hann sýndi viðbragð á borð við það besta í hnefaleikunum þegar hann vék sér eldsnöggt undan skónum, sem blaðamaður kastaði að honum á blaðamannafundi.
Þegar Gerald Ford var forseti hentu menn gaman að því að hann hefði stundað hnefaleika á yngri árum og ýmislegt sem hann gerði eða sagði benti til þess að hann hefði fengið of mörg höfuðhögg í hringnum.
Ef taka á eitthvað mark á því hvað menn hafa í flimtingum varðandi heilastarfsemi Bush má leiða að því líkur að engu eða litlu máli hefði skipt, hve mörg högg hann hefði fengið ef hann hefði stundað þessa íþrótt á yngri árum.
Minnir á hálfkæringslega vísu Stefáns heitinn fréttamanns þegar hann var inntur eftir kviðlingi varðandi það að starfsfélagi hans féll af hestbaki og var sagt að blætt hefði inn á heila hans.
Þegar Stefán færðist undan þessu þrýstu menn þess meira á hann og sögðu að hann hefði ort vísu af minna tilefni.
Loks leiddist Stefáni þófið og sló botn í málið með þessari vísu:
Um slysið þetta aðeins eitt
ég yrkja vil:
Það blæðir aldrei inn á neitt,
sem ekki er til.
![]() |
Bush varð fyrir skóárás |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2008 | 12:11
Sá tími mun koma...
Sá tími mun koma og er raunar að byrja að koma, þegar stórþjóðirnar, sem hefði ekki munað mikið um að hjálpa okkur til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar, munu sjá hve óskynsamlegt og ósanngjarnt það var að refsa örþjóð miskunnarlaust samkvæmt lagabókstaf á þann hátt sem er dæmalaus í okkar heimshluta nema sem afleiðing af stórstyrjöld.
Það er hárrett hjá AA Gill að hér gilti ekki það sama um Jón og hefði gilt um séra Jón. Við þurfum í komandi samskiptum við aðrar þjóðir að fá þær til að líta með sanngirni á hlutskipti okkar.
Sá tími kemur vonandi líka þegar íslenska þjóðin mun sjá, að til þess að byggja upp nýtt Ísland með bættu siðferði, mannúð og sanngirni gagnvart samborgurum, afkomendum og öðrum þjóðum var það kannski bara gott að hin hátimbraða sápukúla sjálftöku og græðgi sprakk í tætlur.
Stundum er það þannig hjá áfengissjúklingum að þeir segja stundum eftir á að aðeins vegna þess hve þeir sukku djúpt hefðu þeim orðið ljós nauðsyn róttækra ráðstafana og gjörbreytinga.
![]() |
Brown sparkaði í Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)