Aukakostnaður og frestun á hneyksli.

Ég við byrja þennan pistil á bestu jóla-og nýjársóskum til þeirra starfsmanna Landsvirkjunar og verktakafyrirtækja, sem ég hef átt góð samskipti við undanfarin ár. Þetta fólk hefur unnið sín störf af skyldurækni og færni, oft við erfiðar aðstæður, við að framfylgja ákvörðunum sem voru á ábyrgð þáverandi ríkisstjórna og alþingismanna.

Það hefur aðstoðað mig við mín verk af vinsemd og mér er ljúft að þakka það.

Þetta breytir þó engu um eðli þess verks sem þessu fólki er gert að vinna þarna. Mér hefur verið kunnugt um þann aukakostnað sem hlýst af því hve jarðlög eru laus í sér við Kárahnjúka og á eftir að kosta gerð 20 metra hárrar aukastíflu neðan við Kárahnjúkastíflu.  

Ég hef ekkert verið að minnast á þetta vegna þess að úr því sem komið er er best að málsaðilar segi frá því sjálfir svo að ekki sé hægt að væna fréttaflytjandann um áróður.

Það breytir því ekki að við kvikmyndagerð mína mun ég í engu slaka á að upplýsa um þau hervirki sem enn sér ekki fyrir endann á eystra. Minni í því sambandi á blogg mitt og grein í Morgunblaðinu fyrr í haust um gersamlega óþarfan gerning, sem nú hefur verið frestað en vofir samt yfir og verða mun okkur öllum til mikillar skammar ef hann verður framkvæmdur.

Þar á ég við það að fylla upp svonefnt Kelduárlón fyrir innan Kelduárstíflu. Engin þörf verður á vatnsmiðlun þar nema að loftslag kólni verulega niður í það sem það var á kuldaskeiðinu milli 1965 og 1995.

Meðan loftslag er álíka hlýtt og nú er raunar engin þörf fyrir Hraunaveitu, sem samanstendur af sjö kílómetra jarðgöngum og fjórum stíflum, og eru tvær þeirra á meðal hinna stærstu á landinu. Kelduárlón á að verða átta ferkílómetrar og þegar hefur verið sökkt fögrum grónum árhólmum Kelduár og skrúfað fyrir einstaklega fallegar fossaraðir.

En lónið í fullri stærð mun sökkva fallega grónu landi við svonefnt Folavatn, þar sem er einstakt lífríki og mikil fegurð.

Mig grunar að sumum af hinum mætu mönnum sem fela á að fremja þetta óþarfa hervirki sé ekki sama.

Ef það kemur kuldaskeið yrði hægt að sökkva þessu öllu ef svo bæri undir. En að gera það fyrr er algerlega ástæðulaust og þjónar ekki nokkrum tilgangi. 

Ég á þá nýjársósk til handa því góða fólki sem ég hef kynnst við þessar framkvæmdir að ákveðið verði á nýju ári að hætta við þetta og afstýra því hneyksli sem það yrði að fara þarna fram á þennan hátt.  


mbl.is Ekkert jólahald á Kárahnjúkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við fjörðinn."

Ég nefndi það fyrir 2-3 dögum að ég myndi í tilefni af jólunum setja nokkra texta inn á bloggið. Hér kemur einn, - kannski sérstaklega tileinkaður Gunnari Th. Gunnarssyni, bloggvini mínum.

Kannski líka vegna þess að Einar Bragi Bragason leikur áberandi hlutverk í undirleik ásamt Grétari Örvarssyni við lag sem heitir "Við fjörðinn" og er eitt níu laga á diskinum "Birta - styðjum hvert annað", sem gefinn er út fyrir Mæðrastyrksnefnd og er með land og þjóð, æðruleysi, kjark og samhug sem meginstef.

Ég var staddur á Eskifirði þegar þetta varð til og hugsaði til konu minnar sem er frá Patreksfirði.
Lagið var flutt með tilheyrandi myndum í einum af spurningaþáttunum í keppni kaupstaðanna á Stöð tvö 1989-90.

Helga Möller söng lagið.

VIÐ FJÖRÐINN.

Við fjörðinn þegar fegurst er jörðin. /

Þegar fjólan litar börðin og hafið skín. /

Við sæinn þegar sól vermir bæinn /

get ég setið allan daginn og hugsað til þín. /

Hve blíð voru bernskunnar vor /

og blómin og hið ljóðræna vor. /

Öll þessi fegurð hún ylja mér og gefa mér oft þrek og þor. /

Við fjörðinn þegar fegurst er jörðin, /

þegar fjólan litar börðin ég hugsa til þín. /

Hér enn vil ég eiga mín spor /

og endurlifa bernskunnar vor /

Á ævikvöldi mun það ylja mér og gefa mér oft þrek og þor. /

Við sæinn þegar sól vermir bæinn /

get ég setið allan daginn og hugsað til þín. /


Bloggfærslur 23. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband