"Bæn einstæðingsins."

Um leið og við tökum upp jólagjafir, hugsum hlýtt til hvers annars og óskum hvert öðru gleðilegra jóla er okkur hollt að hugsa til þeirra sem búa þurfa við einsemd af ýmsu tagi.

Þegar Ólafur Gíslason í Neðrabæ í Selárdal fann nokkur ljóð og pistla Gísla Gíslasonar á Uppsölum eftir lát hans var ekki annað hægt en að komast við að sjá nokkur ljóðanna og hugleiðinganna sem eftir þennan einstæðing lágu, sem hvarf héðan úr heimi án þess að láta nokkurn af þessu vita.

Meða þessa efnis var þessi staka:

Jólin færa frið til manns, - /
fegurð næra hjarta. /
Ljósið kæra lausnarans /
ljómar skæra, bjarta. /

Fullkomin og falleg hringhenda, einföld lýsing í sparibúningi íslenskrar trungu frá hendi fátæklingsins.

Önnur staka úr smiðju Gísla hljóðaði svona:

Ljúfi Drottinn lýstu mér
svo lífsins veg ég finni.
Láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.

Einföld bæn, flutt í vetrarmyrkri hins rafmagnslausa bæjar, bæn um andlegt ljós í hinu veraldlega myrkri og einsemd.

Ég komst ekki að því fyrr en eftir gerð þáttar um Gísla að hann var fórnarlamb eineltis. Hann var dálítið sérstakur og alla tíð með sérkennilegan talanda. Þetta einelti og áreiti særði vafalaust viðkvæma og tilfinninganæma sál og smám saman hraktist hann út í horn.

Þegar ég vann að gerð þáttarins "Flökkusál" um útlagana á hálendi Íslands í ársbyrjun 1998 fannst mér ég skulda Gísla á Uppsölum lag við stökur hans. Út frá laginu spann ég fleiri stökur til að setja inn á viðeigandi stöðum í þættinum og gerði lagið að stefi sem gekk í gegnum þáttinn og birtist hér og þar í honum.

Á DVD og CD diskunum "Ómar lands og þjóðar, - kóróna landsins" var þetta spyrt saman undir heitinu "Jól útlaganna" og Halla og Eyvindur koma við sögu.

Brot úr þessum stökum okkar Gísla fóru á flakk eftir þáttinn þegar fólk hripaði þetta niður og þar kom að Gunnar Gunnarsson, organisti í Laugarneskirkju, fléttaði listilega saman það úr þessum texta sem tengdist Gísla á Uppsölum og bjó til söngs.

Svo er komið að þetta lag hefur borist það víða að ég sá að ég yrði að fullklára textann í heillegri mynd.

Nú hef ég lokið því. Upphafið fléttast utan um tvær stökur Gísla og þá von og bæn um birtu og frið í sálinni sem þær fela í sér. Fyrsti hlutinn er í formi hringhendu. Í framhaldinu kynnumst við nánar aðstæðum hans og hugrenningum sem engan lét ósnortinn er þeim kynntist, og í lokin blasir við hinn nöturlegi veruleiki lífs einstæðingsins, - og textinn er aftur kominn yfir í hringhendu.

BÆN EINSTÆÐINGSINS.

Jólin færa frið til manns, - /
fegurð næra hjarta. /
Ljósið kæra lausnarans /
ljómar, skæra, bjarta. /

Frelsun manna fædd nú er. /
Fögnuð sannan boðar mér. /

Ljúfi Drottinn, lýstu mér /
svo lífsins veg ég finni. /
Láttu ætíð ljós frá þér /
ljóma í sálu minni. /

Þegar raunir þjaka mig, - /
þróttur andans dvínar. /
Þegar ég á aðeins þig /
einn með sorgir mínar /

gef mér kærleik, gef mér trú, - /
gef mér skilning hér og nú. /

Ó, minn Guð, mig auman styð, -
ögn í lífsins straumi. /
Kenndu mér að finna frið /
fjarri heimsins glaumi. /

Margur einn með sjálfum sér, - /
sálar fleinn því veldur, - /
eins og steinn sitt ólán ber, - /
ekki neinn þess geldur. /

Nístir kvöl í næmri sál. /
Nætur dvöl er hjartabál. /

Leikinn grátt sinn harmleik heyr. /
Hlær ei dátt með neinum. /
Særður þrátt um síðir deyr. /
Segir fátt af einum. /

Góðar stundir og gleðileg jól !


mbl.is Boðskapurinn breytist ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband