Íslenskur friðarhöfðingi.

Ég játa að ég er ekki nógu kunnugur í Sómalíu til að geta útskýrt til fullnustu hvers vegna ræningjar í þessu landi eru það öflugir að þeir komist í heimsfréttirnar. Hitt veit ég að persónulega upplifði ég nálægð þeirra nokkru fyrir norðan landamæri Sómalíu og Eþíópíu fyrir tveimur árum.

Það voru ræningjar á landi, sem herjuðu norður fyrir landamærin inn í Eþíípíu. Ég var þá á ferð með Helga Hróbjartssyni kristniboða syðri landleiðina milli Addis Ababa og héraðsins El-Kere.

Á leiðinni fékk ég að vita hjá innfæddum að engir erlendir ferðamenn væru óhultir fyrir ræningjum frá Sómalíu á þessum slóðum og þess vegna dirfðust engir útlendingar að fara um þessar slóðir.

Hins vegar breytti það miklu fyrir mig að vera í för með Helga Hróbjartssyni kristniboða. Slíkrar virðingar nyti hann á þessum slóðum fyrir einstætt líknar- hjálpar og menntastarf sitt. Enginn myndi dirfast að snerta hár á höfði hans, hvorki sómalskir ræningjar né nokkrir aðrir.

Á langri leið um þau héruð þar sem Helgi hafði unnið ævistarf sitt hittum við fólk, sem komið var til áhrifa fyrir tilverknað Helga og voru orðnir stjórnendur í hinum fátæku og frumstæðu samfélögum á þessum slóðum.

Í El-Kere var haft á orði að virðingarröð átrúnaðargoða fólksins væri þessi: 1. Allah. 2. Múhammeð. 3. Helgi Hróbjartsson.

Þetta afrek Helga er þeim mun merkilegra að hann er kristniboði og þess vegna með ólíkindum sú virðing sem hann hefur aflað sér, ekki aðeins meðal muslima heldur einnig yfir landamærin á slóðir ræningja.

Ég hef hvergi upplifað eins sterkt hvað ævistarf eins manns getur haft göfgandi áhrif á fjölda fólks og ljúft að minnast þessum á hátíð friðarins.

Ég er að vinna að heimildarmynd um Helga, sem ber nafnið "Engill af himnum." Vegna veikinda og anna við önnur störf hefur það starf dregist á langinn en mjakast þó áfram. Myndin byggist á tveimur ferðum til Eþíópíu 2003 og 2006 og ég reikna með að í tengslum við myndina muni einnig fylgja mynd um ferð til Mósambík árið 2005.

Ekki er langt síðan að bandaríski flugherinn gerði árás á sómalska uppreisnarmenn með velþóknun yfirvalda í Eþíópíu. Sómalía er greinilega "órólegt horn" á austurströnd Afríku rétt eins og Balkanskagi hefur löngum verið í Evrópu.


mbl.is Sómölskum sjóræningjum sleppt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband