6.12.2008 | 13:41
Svona má græða.
Kaup á sumarbústöðum á tombóluverði er ein leið til að græða. Í þættinum "Íslandi í dag" í gærkvöldi las ég nokkrar tilvitnanir í viðtöl við Hannes Smárason og Sigurjón Árnason í Krónikunni í febrúar 2007 sem eru lýsandi fyrir ýmsar aðferðir og hugmyndafræði á bak við frjármálasápukúluna sem sprakk. .
Hannes segir að það hafi ekki verið flugrekstur heldur fjárfestingar sem hafi verið hans ær og kýr. Hann nefnir nokkur dæmi um það hve ábatasamt þær geti verið. Hér eru þrjár tilvitnanir í Hannes:
"Ef ég sel hlutabréf og hagnast á því þarf ég að borga skatt af hagnaðinum. Ef ég endurfjárfesti hins vegar hundrað krónurnar í öðrum hlutabréfum get ég frestað því að greiða skattinn. Þannig get ég í raun haldið áfram út í það óendanlega og þarf aldrei að borga neinn skatt."
"Við kaupum stundum fyrirtæki, skuldsetjum þau og seljum síðan ef okkur finnst það passa. Við gerðum það til dæmis með Refresco. Það var skuldsett yfirtaka þar sem við lögðum fram ákveðið eigið fé og BANKARNIR FJÁRMÖGNUÐU AFGANGINN.Félagið greiddi niður skuldirnar og verðmæti okkar eignarhluta jókst í leiðinni."
"Það hefði engum dottið í hug að gera þessa hluti sem við erum að gera, nema fólki sem VEIT ENGAN VEGINN HVAÐ ÞAÐ ER AÐ FARA ÚT Í."
Sigurjón segir um kynslóðina sem stendur fyrir "efnahagsundrinu.":
"Sú kynslóð ólst upp við mikið frjálsræði en einnig við mikla vinnusemi. Hún fór út að leika sér á morgnana og var þar allan daginn, kom ekki heim fyrr en hún var kölluð í mat. HÚN TALDI AÐ ALLT VÆRI HÆGT OG VAR AÐ ÞVÍ LEYTI ALGJÖRLEGA HÖMLULAUS."
Við þetta er engu að bæta.
![]() |
Bústaðir á tombóluverði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.12.2008 | 01:53
"Það sem er vont fyrir GM..."
"Það sem er gott fyrir General Motors er gott fyrir Bandaríkin." Þess setning átti við þegar GM framleiddi helminginn af öllum bílum í Bandaríkjunum og Bandaríkin framleiddu 80% af öllum bílum í heiminum.
Nú er hægt að snúa henni við og segja: "Það sem er vont fyrir GM er vont fyrir Bandaríkin."
Og ekki bara það. Ef við Íslendingar gerum einmitt núna, sem margir vilja, að tengja okkur við hinn skjögrandi risa í vestrinu, þá verða örlög hins helsjúka bandaríska bílaiðnaðar líka vond fyrir okkur.
Ég hef áður bloggað um þann sjúkdóm sem hrjáir bandarískan bílaiðnað og tengist versnandi gæðum, röngum ákvörðunum og óraunsæi sem stafar af því að yfirmenn jafnt sem starfsmenn bandaríska bílaiðnaðarins urðu værukærir, ofmátu stöðu sína og vanmátu keppinautana.
Í íþróttum gildir lögmálið: Enginn er betri en andstæðingurinn leyfir. Sömu mennirnir og keyrt hafa bandarískan bílaiðnað í þrot, koma nú og vilja komast á opinbert framfæri.
Bandaríkjamenn horfast í augu við svipað og við Íslendingar: Það eru þrjú orð sem byrja á stafnum e: Tvö fyrstu hugtökin eru endurmat og endurnýjun og þau eru forsenda fyrir þriðja hugtakinu sem öllu varðar: Endurreisn.
Ég á stóra bók um sögu GM og Chevrolet og hef lesið hana mér til mikillar ánægju. Chevrolet og þar með GM sló í gegn á árunum 1927-29 þegar bílarisinn Ford var orðinn værukær og sofnaði á verðinum. Hinn mikli brautryðjandi Ford var orðinn gamall, staðnaður og þrjóskur og skynjaði ekki kall tímans og styrkleika keppinautana.
Sem dæmi má nefna að Ford viðhélt teinahemlum sjö árum lengur en keppinautarnir og heilum öxlum og þverfjörðum í 14 ár eftir að keppinautarnir höfðu tekið upp nútímalega fjöðrun. Það er dapurlegt hvernig risinn GM fellur nú á sama hátt og Ford forðum,
Raunar riða allir bandarísku risarnir til falls eins og risaeðlur, hvers tímaglas er tæmt.
![]() |
Framtíð bílarisa á bláþræði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)