NÖLDRAÐ YFIR GÓÐUM HLUT.

Ég var einn af fjölmörgum hljómleikagestum í troðfullu húsi á tónleikunum "Bræður og systur" í gærkvöldi og afar ánægður með þetta framtak Bubba og annarra sem að þeim stóðu. Mér fannst ég fara út skárri maður en ég kom inn. Ég tek ekki undir nöldrið í garð Bubba og Geirs H. Haarde,  sem maður heyrir hjá sumum, heldur fannst mér það gríðarlega mikils virði að forsætisráðherrann skyldi á jafn skemmtilegan og uppörvandi hátt leggja sitt þunga lóð á vogarskálina sem Bubbi stillti upp af alkunnum dugnaði og ósérhlífni.

Nöldrararnir telja að vel stæðir menn megi ekki leggja sitt lið gegn misrétti. Ef tekið væri mark á þessu nöldri hefðu hvorki Roosevelt né Kennedy ekki mátt bjóða sig fram til forseta og Héðinn Valdimarsson alls ekki mátt vera einn helsti baráttumaður fyrir fátæka verkamenn, allt vegna þess að þeir voru efnaðir menn.

Ef kafað er nánar ofan í málflutning nöldraranna ættu nánast engir Íslendingar að mega leggja lið sitt hjálp við fátækasta fólki heims, vegna þess að meðal Íslendingurinn er óendanlega miklu ríkari en t. d. meðaljóninn í Eþíópíu.

Nöldrararnir krefjast þess að þeir sem vilji leggja umhverfismálum lið á ráðstefnu hinum megin á hnettinum megi alls ekki ferðast þangað í þotum heldur skilst manni að þeir eigi að ganga þangað, hjóla eða synda til þess að vera málstað sínum samkvæmir. 

Ef farið væri eftir nöldrinu væri hinum, sem eru "samkvæmir sjálfum sér" eins og það er orðað, veitt frítt spil til að nota auðæfi sín til að berjast gegn öllu því sem haggar við stöðu þeirra.  

Allir sem komu fram í gærkvöld og ekki síst Bubbi og Geir, eiga þakkir skildar fyrir sterka, ánægjulega og uppörvandi tímamótasamkomu.  


SKÝJABORGIR HRAFNS.

Hrafn Gunnlaugsson dreymir um byggð í Vatnsmýrinni sem líkasta skýjakljúfahverfi í Dubai. Eins og fleiri stendur hann í þeirri trú að Reykjavík sé miklu dreifbýlli en sambærilegar borgir. Því fer viðs fjarri eins og ég hef áður rakið með tilvitnun í vandaða skýrslu um 16 norrænar borgir þar sem sést að Reykjavík er nákvæmlega jafn dreifbýl og borgir af svipaðri stærð á Norðurlöndum.

Flestar þessar borgir og fleiri álíka borgir skoðaði ég í hitteðfyrra af forvitni um þetta mál.  

Í Dubai skín sólin nær lóðrétt niður en í Reykjavík er hún svo lágt á lofti að mestallt árið yrðu göturnar í skýjakljúfabyggð Hrafns í köldum skugga.

Nú þegar hefur risið háhýsabyggð á rústum timburhúsanna fyrir neðan Lindargötu en ekki verður séð að barnafólkið, sem heldur þessu þjóðfélagi gangandi öðrum fremur, hafi flust þangað, enda íbúðaverðið hátt og barnafólkið vill frekar búa í nágrannabæjunum og úthverfunum en í steinsteypuveröld Hrafns og skoðanasystkina hans. 

Ef Hrafn tryði því fyrir sjálfan sig sem hann heldur fram að sé best fyrir alla ætti hann heima í einhverjum af háu blokkunum sem risu við Skúlagötu. Í staðinn valdi Hrafn sér stað fyrir lágreist hús í Laugarnesi þar sem eins langt er til næstu húsa og mögulegt er í Reykjavík. 

Allt framansagt breytir ekki því að hagkvæmara er að byggð sé þétt en dreifð og að keppa beri að því eftir föngum. Sjálfur átti ég heima á tólftu hæð í smáíbúðablokk fyrstu búskaparárin og bý nú í blokk. En rétt eins og að fólkið í Austur-Þýskalandi "kaus með fótunum" eins og það var kallað með því að flýja landið,  þar sem menn töldu sér trú um að endanleg kerfislausn væri fundin á öllum þjóðfélagsmálum, eru takmörk fyrir því hvað hægt er að ráðskast með fólk og raða því eins og tindátum inn í háhýsablokkir.

Frjálshyggjumaðurinn góði og vinur minn, Hrafn Gunnlaugsson, ætti að skilja það og það má hann eiga að hafa oft hrist rækilega upp í samfélaginu með ferskri og óbundinni hugsun og gert með því gott gagn.  

 


Bloggfærslur 21. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband