22.2.2008 | 23:24
HÚSGRUNNUR, ÆVINTÝARALAND ÆSKUNNAR.
Þegar ég var á aldrinum 6-8 ára og verið var að grafa fyrstu grunnana fyrir húsunum við Stangarholt voru þeir undralönd með öllu landslagi sínu, hæðum, hólum, tjörnum, bröttum bökkum og "fellum" sem barnið sá rísa á milli vatnanna. Þessa minntist ég í kvöld þegar ég var með Bergi Sigurðssyni á skrifstofu Landverndar að undirbúa ferð á málþing á Vestfjörðum um olíuhreinsistöðvar og sá hvernig risastór húsgrunnur milli Skúlagötu og Borgartúns var rammgirtur svo að engin börn kæmust þar inn.
Nú er það svo að djúpar tjarnir í húsgrunnum geta verið hættulegar fyrir börn en samt þakka ég fyrir það að engir húsgrunnar voru girtir af þegar ég var ungur og hugsa að hægt sé að fara milliveg í þessu efni.
Hann fælist í því að verktakar og eigendur húsgrunnanna gengju þannig frá þeim að um helgar að aðeins væru þar grunnar tjarnir og hættulausar og börnum leyft að fara þar inn.
Fyrir aldarfjórðungi var grafinn skurður í gegnum svæðið við Álftamýraskólann og undravert var að horfa á hvernig börnin voru að leik í uppgreftrinum eins og mý á mykjuskán, þyrptust þangað úr öllum nálægum hverfum.
Mín börn áttu dásamlegt svæði til að leika sér á meðan ekki var búið að ryðja niður og slétta allt við Fjölbrautarskólann við Ármúla og þar voru enn "hamrar" og landslag malargryfja sem þar voru áður.
Sem betur fór er þar enn brekka sem verður krökk af börnum og fullorðnum þegar snjóar en ég held að allt of mikið sé gert af því að koma öllu í reglustikuhorf í umhverfi okkar í stað þess að láta eitthvað af upprunalegu umhverfi halda sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.2.2008 | 10:38
VONIN DVÍNAR.
"Er þetta nokkurt vit?" spurði maður mig í gær um leitina að flugvélinni sem fór í sjóinn suðaustur af landinu. Svarið er: Vonin dvínar en flugvél af sömu gerð og þessi, sem fór í sjóinn suðvestur af Reykjanesi fyrir rúmlega aldarfjórðungi, flaut svo lengi, að henni var náð upp í bát og farið með hana í land.
Sú flugvél varð eldsneytislaus og það hjálpaði til því að tómir geymarnir virkuðu eins og flotholt. Þessar vélar eru lágþekjur og skrokkurinn stendur því lengi upp úr sjónum, gagnstætt því sem er hjá háþekjum. Hins vegar hefur vélin sem nú fór í sjóinn verið með mikið eldsneyti og því flotið verr en Piper-vélin hér um árið.
Ég hef flogið á eins hreyfils vél yfir til Grænlands og gerð er krafa um að HF-sendir sé um borð og uppblásanlegur gúmbátur. Við lendingu á sjó reynir flugmaðurinn að lenda þvert eftir öldunni til að stingast síður inn í hana. Ef flugmaðurinn er auk þess vel klæddur og í léttum flotbúningi á hann nokkra möguleika.
Þótt flugvélin sé sokkin er því enn von um að finna gúmbátinn á reki þótt flugmaðurinn sé ekki á lífi. Svona leit er ekki hætt fyrr en öll von er úti um að finna það sem leitað er að, svo einfalt er það.
![]() |
Leit haldið áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)