3.2.2008 | 18:04
HINDRUN UPPLÝSINGA VESTRA OG HÉR.
Fróðlegur var pistillinn í 60 minutes nú síðdegis um það hvernig ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur gert allt sem í hennar valdi hefur staðið til að breyta skýrslum vísindamanna um hlýnun jarðar og þagga niður í þeim, en búa til niðurstöður sem hentaði óbreyttu ástandi í orkumálum heimsins. Þetta kom fram í viðtal sem tekið var á Þingvöllum við James Hansen, einn af þremur fremstu vísindamönnum á þessu sviði i heiminum, og lýsingar hans og kollega hans, Piltz á kúgun þeirri sem beitt var, var mér kunnugleg.
Þeim var bannað að tjá sig opinberlega og skýrslur þeirra voru ritskoðaðar ótrúlega gróflega. Í Hvíta húsinu stóð Phil nokkur Cooney, yfirmaður umhverfisgæðaráðs, fyrir breytingum, útstrikunum og viðbótum. Cooney lét sig ekki mun um það þótt hann væri lögfræðingur að mennt að endurskoða vísindalegar skýrslur.
Áður en hann réð sig í þjónustu Hvíta hússins hafði hann unnið fyrir olíufyrirtæki og hefur nú aftur tekið upp sömu iðju fyrir Exxon.
Þegar ég var að gera myndina "Á meðan land byggist" var andrúmsloftið þannig hér heima að aðeins einn af þeim kunnáttumönnum, sem ég leitaði til um að ræða um upplýsingar og niðurstöður sínar, þorði að koma fram.
Þessi 100 mínútna mynd var líklega viðtalasnauðasta heimildarmynd af þessari lengd sem um getur og aðeins tveir aðilar treystu sér til að styrkja kvikmyndagerðina, alls um 600 þúsund krónur í mynd, sem hvaða kvikmyndagerðarmaður, sem væri, myndi áætla að myndi kosta tugi milljóna.
Kannski á 60 minutes eftir að fá að finna fyrir svipuðu að gera þennan pistil. Ég kannast við það fyrirbæri frá árunum 1999 til 2003 að setja af stað herferð gegn gerð sjónvarpsmynda sem sýndu á faglegan hátt hvað ætti að fara að gera hér á landi í virkjanamálum.
Yfirvöldum tókst ekki að stöðva sýningu myndanna, þáttanna og fréttanna, en gerðu allt sem þau gátu til að koma í veg fyrir gerð þeirra.
James Hansen taldi sig knúinn til að segja starfi sínu lausu til að losna undan kúgun yfirvalda. Ekki sá fyrsti og ekki sá síðasti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.2.2008 | 00:28
FIMMTUNGS AUKNING Á ÚTBLÆSTRI EKKERT MÁL?
Í umræðunni um olíuhreinsstöðvar minnast fylgjendur þeirra helst ekki á að þær muni kosta útblástur gróðurhúsalofttegunda. En jafnvel þótt miðað sé við mjög hæpið lágt mat þeirra sjálfra á útblæstrinum, verður útblástur frá tveimur olíuhreinsitöðvum á Vestfjörðum meina en fimmtugur af öllum útblæstri hér á landi. Ég segi TVEIMUR hreinsistöðvum því að ef stöð verður reist við Dýrafjörð munu íbúar í Vesturbyggð heimta stöð líka og öfugt.
Bæði á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum er það að verða að trúaratriði að öll byggð á Vestfjörðum standi eða falli með þessum tveimur stöðvum. Ef stöð rísi við Arnarfjörð verði úti um Ísafjarðarbæ og öfugt. Ríkisstjórnin á þá að leggjast á hnén og væla út aukakvóta í samningaviðræðum á alþjóðavettvangi eins og gert var í Kyoto.
Við hjónin höfum tvívegis ferðast norður eftir öllum Noregi og séð sjávarbyggðir þar í svipuðum vanda og slíkar byggðir á Íslandi. Hvergi heyrði ég minnst á það að lausnin fælist í því að hrúga niður olíuhreinsistöðvum þar.
Í Noregi er mun meiri tandurhrein vatnsorka óbeisluð en á Íslandi en samt dettur frændum okkar ekki í hug að heimta alþjóðlegan aukakvóta út á það að hrúga upp fleiri stóriðjuverum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)