MEIRA AÐ SEGJA FRAMSÓKN !

Í dag hefur komið í ljós að meira að segja Framsóknarflokkurinn, höfuðvígi "besta fiskveiðistjórnunarkerfis í heimi" er farinn að efast um gæði þessa kerfis. Ólíklegt er að Halldór Ásgrímsson hefði fært fram sjónarmið Guðna Ágústssonar í Kastljósinu í kvöld ef hann hefði enn verið formaður flokksins. Reyndar sló Guðni úr og í og kom ekki fram með neitt sem hægt væri að festa hönd á nema að skoða málið í ljósi álits Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Í góðu viðtali í Silfri Egils við Magnús Thoroddsen tók þessi virti lögspekingur undir það að borgaraleg réttindi væru brotin í núverandi kerfi. Íslandshreyfingin tók tillögu Magnúsar um breytingar á kerfinu upp á sína arma í kosningabaráttunni en í henni voru augljósir agnúar núverandi kerfis sniðnir af.

Í Silfrinu benti Magnús á að yfir 70% þjóðarinnar væru andvíg núverandi kerfi en hætti samt ekki að kjósa kvótaflokkana. Hann taldi það forsendu fyrir breytingum að fólk kysi þá flokka sem væru andvígir kerfinu.

Samfylkingin virðist nú vilja lítið gera með fyrningarleiðina svonefndu sem hún hélt fram í kosningunum 2003 og virðist nú komin upp að hlið Sjálfstæðisflokksins í því að fara ekki einu sinni vandlega yfir það hvernig hægt sé að koma til móts við álit Mannréttindanefndarinnar.

Íslandshreyfingin lagði fram vel ígrundaðar tillögur í þessum efnum í kosningunum, hugsaðar til bráðar og lengdar í ljósi þess að útlilokað væri að opna ekki kvótakerfið og breyta því. Á stjórnarfundi hreyfingarinnar í dag var þessi stefna rædd og ítrekuð.

Ef Framsóknarflokkurinn slæst í för með þeim flokkum sem vilja breytingar er aldrei að vita nema Magnúsi Thoroddsen verði að þeirri ósk sinni að 70% prósent þjóðarinnar kjósi næst þau framboð sem hanga ekki á núverandi kerfi eins og hundar á roði.


REYKHERBERGI NÚ OG ÞÁ.

Krafan um að allir eigi kröfu á því að anda að sér hreinu lofti er augljóst umhverfismál. Athyglisvert var að heyra Siv Friðleifsdóttur upplýsa á Stöð tvö í gær að kráareigendur hefðu sjálfir ekki viljað heimild um sérstök reykherbergi í aðdraganda setningar laga um bann við reykingum á opinberum stöðum. Ef þetta er rétt eiga þeir sjálfir að þessu leyti hlut í því ástandi sem hefur orðið þeim tilefni til þess að brjóta þessi sömu lög og kenna löggjafanum um ósveigjanleika.

Manni kann að koma í hug að andstaðan við reykherbergin hafi á sínum tíma verið til þess að skapa ástand sem réttlætti það að brjóta lögin. Ég held að vangaveltur séu óþarfar heldur að ráða fram úr málinu eins og það lítur út í dag, burtséð frá því hverjum kann að vera hvað um að kenna.

En krafan um 100% hollustuhætti gagnvart gestum, gangandi og starfsfólki hlýtur að vera sanngirnismál, hvernig svo sem hún er uppfyllt. Siv upplýsti að eitt af því sem gerði kröfuna um reykherbergi snúna sneri að því að starfsfólk ætti rétt á því að þurfa ekki að fara þar inn til þrifa.

Kannski endar þetta með því að sett verði á laggirnar fyrirtækið "Reykherbergjaþjónustan" þar sem starfsfólk með grímur eða fólk sem reykir sjálft tekur að sér slík þrif líkt og þeir sem taka að sér að losa stífluð klósett.


Bloggfærslur 5. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband