6.2.2008 | 20:33
HEIMURINN ER LÍTILL.
Fróðlegt var að sjá fjallað um bandaríska húsnæðismarkaðinn í sjónvarpsþættinum 60 mínútum, hvernig alls konar miðlarar, álitsgjafar og kunnáttumenn fengu beinharða peninga í vasann fyrir að leika sér sem millliðir í hundruða milljarða pappírsleikfimi sem byggð var á því upphafi að ginna fólk til að taka óheyrilega há lán sem voru jafnvel hærri en það sem keypt var og lánþegarnir oft á tíðum engir borgunarmenn fyrir. Í ótal tilfellum var ekki einu sinni spurst fyrir um lánshæfni og þegar svikamylla milliliðanna var komin af stað var hún óstöðvandi og lævíslega hönnuð til þess að enda hjá fjárfestum, bönkum og lánastofnunum víðs fjarri upphafinu.
Þessi bylgja er nú að berast til okkar og fer miklu hraðar milli meginlanda en kreppan 1929, sem kom ekki til Íslands fyrr en 1931. Þessi töf á leið bylgjunnar til Íslands gaf landsmönnum tækifæri til að berast mikið á árið 1930 með Alþingishátíðina sem hápunkt.
Íslenska húsnæðisviðskiptabólan er nú líka við það að springa eins og sú ameríska og líklega eru flestir spádómar hér á landi um framhaldið byggðir á álíka ótraustum ágiskunum og tíðkast erlendis. Í upphafi þenslunnar hér var varað við því að þegar húsnæðisverðið og þenslan tæki um síðir óhjákvæmilega dýfu niður á við myndu þeir síðustu, sem tóku lán fyrir dýfuna, sitja uppi með skuldir sem væru mun hærri en húsnæðið, sem veðsett var fyrir skuldunum.
Bankarnir myndu neyðast til að lengja í hengingarólunum til þess að koma í veg fyrir það hrun markaðarins, sem stóraukið framboð á íbúðum gjaldþrota fólks myndi valda. En þar með yrði komið inn í vítahring, því að á sama tíma yrðu bankarnir að loka fyrir útlán til að bregðast við lánsfjárkreppunni. Sú birtingarmynd er að skýrast þessa dagana.
Sagt hefur verið að verðhrunið og kreppuna 1929 hefði mátt sjá fyrir og svo maður hefði haldið að menn vestra og hér hefðu átt að vera búnir að læra af því sem gerðist fyrir 79 árum.
En það sem sýnt var í 60 mínútum í gær leiddi í ljós að þrátt fyrir byltingu í upplýsingatækni geta slys, hliðstæð slysinu 1929, gerst enn í dag þótt þau verði vonandi ekki eins afdrifarík nú og þá.
![]() |
Mikill samdráttur fasteignalána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.2.2008 | 00:09
HVAR ER STÓRIÐJUHLÉ SAMFYLKINGARINNAR ?
Ekki var annað að sjá í fréttum Stöðvar 2 í kvöld en að stóriðjuhraðlestin muni bruna stanslaust áfram þvert á loforð Samfylkingarinnar um að láta lestina hægja á sér. Virkjanaframkvæmdum fyrir austan lýkur ekki fyrr en næsta haust en þá verða nokkrir mánuðir síðan vinna hófst í Helguvík ef marka má þessar fréttir. Hraðlestin mun samkvæmt þessu ekki einu sinni stoppa á biðstöð. Aðferðin sem beitt er kunnug: Aðilar vinnumarkaðarins, sem eiga ítök í báðum stjórnarflokkunum, grátbiðja um álver og nota kjarasamninga sem vopn.
Þetta er sama aðferð var notuð var í undanfara Kárahnjúkavirkjunar þegar ASÍ-þing á Egilsstöðum grátbað um álver og virkjun og vildi meira að segja að virkjað yrði meira en fyrir álverið eitt, svo mikil var virkjanafíknin.
Össur Skarphéðinsson og meirihluti þingflokks Samfylkingarinnar snerust eins og vindhanar úr andstöðu við virkjunina í það að fylgja henni, enda reið á fyrir kosningarnar 2003 að sýna fram á að Samfylkingin væri stjórntæk.
Ef þetta fer svona sést skýringin á því hvers vegna Steingrímur J. Sigfússon lýsti því í viðtali eftir kosningarnar að hans flokkur myndi ekki standa í vegi fyrir því að staðið yrði við þá samninga sem gerðir hefðu verið ef VG kæmist í stjórn, væntanlega með Sjálfstæðismönnum.
Þessi orð lýstu bæði örvæntingu yfir því að lenda utan stjórnar og einnig vonleysi með árangur af andófi VG gegn stóriðjustefnunni.
Um leið og framkvæmdir hefjast í Helguvík mun þrýstingurinn frá Húsavík aukast og það koma fram, sem taldar voru ýkjuspár mínar fyrir kosningarnar í fyrra, að öll virkjanleg orka á Íslandi yrði sett í álver og ekkert afgangs fyrir skaplegri notendur sem borguðu hærra orkuverð, sköpuðu betri og hærra launuð störf, eyddu minni orku og menguðu ekki.
Vestfirðingar verða síðan að fá sitt í tveimur olíuhreinsistöðvum og Ísland verður þá komið fram úr leyfilegum útblásturskvóta. Ekkert mál að fá þetta í gegn í þeim kjaraviðræðum sem þá verða í gangi.
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var ekki annað að heyra en að allt væri að smella saman um leyfi sveitarfélaganna um kraðak háspennulína og virkjana til að reyra Reykjanesskagann niður með álverunum.
Draumsýnin er að hinn erlendi gestur aki úr Leifsstöð með útsýni yfir álver og línur og haldi áfram um samfellt kerfi af álverum, háspennulínum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum og síðar stíflum, miðlunarlónum og virkjunum austur um Suðurland og áfram upp með Þjórsá alla leið inn í Vonarskarð að vatnaskilum.
Til að uppfylla kröfur álveranna um orku er kreist tvöfalt meiri orka út úr jarðvarmavirkjanasvæðunum en þau afkasta til langframa og gumað af endurnýjanlegri orku og sjálfbærri þróun, þótt orkan verði með núverandi tækni uppurin eftir 40 ár.
Þetta er afsakað með því að ný tækni muni koma síðar sem leysi þetta vandamál. Gallinn er bara sá að ekkert er enn fast í hendi um að þessi tækni gangi upp. En það skiptir ekki máli, - aðalatriðið virðist vera að stóriðjuhraðlestin þurfi ekki að koma við í biðstöð heldur bruna áfram á sama hraða og fyrr, ef ekki hraðar.
Ef svo sem fram sem horfir, hvað segja þeir kjósendur Samfylkingarinnar, sem hafa kosið hana í trausti þess að hún meinti eitthvað með tali sínu um stóriðjuhlé ? Ætla þeir ekki að læra af reynslunni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)