7.2.2008 | 17:55
TÆKNILEGUR STROMPLEIKUR LAUSNIN?
Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra er samkvæmur sjálfum sér þegar hann segir að reykherbergi þingmanna eigi ekki rétt á sér. Í viðtali á Stöð 2 sagði Siv Friðleifsdóttir að ástæða þess að sérstök reykherbergi væru ekki leyfð á opinberum stöðum væri sú, að ekki væri hægt að ætlast til þess að starfsfólkið þar þrifi þessi reykherbergi. Mér dettur í hug sú hliðstæða að starfsfólki væri gert að þrífa hrákadalla eða kamra á hverjum degi. Það er því sérkennilegt ef alþingismenn telja sig svo mjög öðrum æðri og starfsfólk Alþingis að sama skapi öðru starfsfólki óæðra að það þurfi að þrífa reykherbergi háttvirtra þingmanna. Það gefur ávarpinu "háttvirtur" og "hæstvirtur" alveg nýja vídd. Ég hef áður sett fram þá tillögu að reynt verði að finna lausn sem komi til móts við reykingafólk svo að það þurfi ekki að fara út í kafaldsbyl og óveður til að svala fíkn sinni. Af því að þetta er alþjóðlegt vandamál væri skemmtilegt er íslenskur hugvitsmaður fyndi upp tæknilausn sem fælist í því að enginn starfsmaður þyrfti að fara inn í reykmettað herbergi til þrifa stubba og ösku, heldur reyktu menn inni í hjálmum líkum þeim sem konur hafa á hárgreiðslustofum og reykurinn yrði leiddur út eða í loftþétt ílát sem síðan væri hægt að henda eða tæma. Með þessu yrðu reykingarnar gerðar að eins konar strompleik sem Nóbelsskáldið sá ekki fyrir þegar það samdi samnefnt leikrit. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)