AFREK VEGNA MISTAKA.

Sá fyrir tilviljun hólgrein sem vinkona mín, Ólína Þorvarðardóttir bloggaði um afrek flugstjórans í Þýskalandi sem bjargaði hundruðum farþega frá stórslysi í hliðarvindslendingu. Hins vegar blöstu mistök flugstjórans við á myndinni af þessu atviki og aðeins hægt að skýra þau á tvennan veg: Henni (þetta var kona) hefur aldrei verið kennt að lenda í hliðarvindi eða þá svo illa að hún "panikerar" í lendingunni.

Á myndinn er horft á eftir vélinni og sést vel að hliðarvindurinn kemur frá hægri. Flugstýran gerir rétt í því að hún "crabbar" vélinni upp í hliðarvindinn eða beinir nefi hennar til hægri til þess að vélin fjúki ekki af brautarstefnunni.

Þegar hún lendir síðan vélinni verður hún að "slippa" vélinni eða halla henni hressilega upp í vindinn með því að halla henni með hægri vænginn niður en hinn vinstri upp. Um leið og hún snertir brautina verður hún að rétta skrokk vélarinnar af með hliðarstýrunum og nota snertingu hjólanna við brautina til að beina henni beint áfram en halda samt áfram að halla henni upp í vindinn.

En hér annað hvort veit hún þetta ekki eða "panikerar" og hallar vinstri vængnum niður í stað þess hægri og það er ástæða þess að vængendinn rekst niður þegar vélin hrekst út á brautarjaðarinn.

Það er loksins hér sem gefa verður flugstýrunni prik fyrir það að bregðast skjótt við og rífa vélina upp aftur. Nema að það hafi verið aðstoðarflugmaðurinn sem það gerði.

Ég fór að ræða þetta við Stefán Gíslason, fyrrum flugstjóra hjá Loftleiðum og Flugleiðum, sem er hinn hressasti á níræðisaldri og hefur í mörgu lent á flugstjóraferlinum, sem byrjaði 1946.

Hann er mér algerlega sammála um ofangreint. Þetta blogg er aðeins skrifað til fróðleiks en ekki til að kasta rýrð á neinn. Sjálfur lærði ég ekki hliðarvindslendingar til hlítar fyrr en allt of seint að mér fannst, eða þegar ég fór sjálfur að kenna flug og fann út vegna brýnnar nauðsynjar hvernig ætti að æfa nemendurna svo vel í hliðarvindslendingum að öll viðbrögðin yrðu ósjálfráð.


SVIPAÐ OG HEIMA?

Á þriggja daga ferð um "Íslendingabyggðir" í Florida þessa dagana sést svipuð tilhneiging hjá  löndum vorum hér og er hjá innflytjendum frá öðrum þjóðum heima. Hér búa margir landarnir nokkrir jafnvel allmargir saman í sömu götunni eða sama hverfinu. Þegar við undrum okkur yfir því að fólk af erlendum uppruna hópist á svipaðan hátt saman heima ætti það ekki að vera svo óskiljanlegt. Þetta virðumst við gera sjálf þegar við flytjum til útlanda.

Hér í Ameríku virðist hins vegar ekki vera hætta á því að Íslendingarnir hópist svo rækilega saman að úr verði íslenskar nýlendur. Bandaríkjamenn hafa langa reynslu af innflytjendum og allt þjóðfélagið byggðist þannig upp og byggist enn þannig upp.

Mjög fróðlegt var að heyra viðtal við Jón Óttar Ragnarsson nýlega þar sem hann ræddi þessi mál og um það hvernig við eigum að læra af þjóðum eins og Bandaríkjamönnum um það hvernig best verði siglt fram hjá kynþáttavandamálum.

Við hjónin erum nú í heimsókn hjá vinafólki í "Íslendinganýlendu" við Virginíustræti í Duneden á vesturströnd Florida og sjáum ekki annað en að landarnir falli vel inn í hverfið og hafi daglegt samneyti við annað fólk hér í götunni  á eðlilegan og vinsamlegan hátt. Kannski hjálpar til að þetta fólk er álíka stætt og nágrannarnir en ekki ódýrt erlend vinnuafl sem skapar hættu á gjá milli stétta.  

Þorrablótið í gærkvöldi á Melbourne beach var eitt hið besta sem ég hef lengi verið á og byggi ég þann dóm minn á 45 ára gammalli reynslu. Það vera og þeim, sem að því stóðu, til mikils sóma.

Athyglisvert er að sjá hvernig golfunnendur flykkjast hingað en það mun stafa af því að mun ódýrara er að stunda golf hér en í Evrópu.

Ég hef margsagt að fyrir andlega og líkamlega heilsu væri það gott ef við Íslendingar hefðum efni á því að "loka sjoppunni" Íslandi frá þrettándanum fram á góu og byrja þorrablótin heima þá.

Fyrir aðeins nokkrum árum þýddi ekkert fyrir skemmtikrafta að fjalla um pólitíkina og nýjustu atburðina heima á þorrablótum erlendis, - langflest fólkið fylgdist ekkert með því.

Með tilkomu netsins er þetta gjörbreytt. Þegar ég gerði smá könnun á þorrablótinu í gærkvöldi með því að spyrja hvort þorrablótsgestir þekktu nokkur umtöluðustu nöfnin úr nýjustu fréttunum heima réttu nær allir upp höndina. Já, heimurinn verður sífellt minni.

 


Bloggfærslur 10. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband