11.3.2008 | 14:15
Í MEÐFERÐ EFTIR NÆSTA FYLLERÍ.
Fjármálaráðgjafi lýsti því vel í Kastljósi í gærkvöldi hvernig hann sér þjóð sína sem áfengissjúkling eða fíkil á fjármálasviðinu. Hann sagðist skilja vel ummæli forsætisráðherrans um áframhaldandi samfelldar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir til að komast hjá því að taka á hinu raunverulega vandamáli og lýsti því þannig að með því væri farið í eitt fyllerí enn áður en farið væri í meðferð. Hve margir áfengissjúklingar hafa ekki gengið allan æviveginn til enda með þessu hugarfari án þess auðvitað að fara nokkurn tíma í löngu tímabæra meðferð?
Stuðmenn lýstu þessu mjög vel í textanum: "Nú er ég blindfullur, - ég ætla að hætta að drekka á morgun." Ekki í dag, - seinna. Einn af þáverandi ráðherrum í ríkisstjórn fyrir rúmum tíu árum sagði við mig að það yrði að halda stanslaust áfram í stóriðju- og virkjanaframkvæmdum, annars kæmi kreppa og atvinnuleysi.
Þegar ég spurði hann hvað ætti að gera þegar ekki væri hægt að virkja meir, svaraði hann: "Það verður þá verkefni þeirrar kynslóðar sem þá er uppi."
Já, já, án þess að depla auga lýsti hann því yfir að við ættum hikstalaust að velta okkar vandamálum sem allra mest yfir á afkomendur okkar sem myndu fara í þá meðferð, sem við komumst hjá því að fara í af einskæru hugleysi og ábyrgðarleysi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)