14.3.2008 | 21:59
FÁGÆTT DRENGLYNDI, ÖLLUM SPURNINGUM SVARAÐ.
Frá og með síðustu bjölluspurningunni í Gettu betur í kvöld sveif spurning, sem ég óttaðist að ósvarað yrði, yfir vötnunum: Hvað var það sem Sigmar átti við með aðvörun sinni um hljóð í salnum? Sem betur svaraði einn keppandi MA þeirri spurningu af miklu drenglyndi í lok keppninnar og bægði þar með frá skugga sem hugsanlega hefði hvílt yfir þessari keppni og skóla hans, jafnvel þótt atvikið, sem Sigmar ýjaði að, hefði að lokum ekki úrslitaáhrif.
Þar með endaði þessi keppni til sóma fyrir alla aðila og öllum spurningum var svarað, en það er jú sjaldan nauðsynlegra en í svona keppni. Sigmari var vandi á höndum þegar atvikið kom upp því að ómögulegt var að sanna það beinlínis að keppandinn eða keppendur hefðu heyrt ábendinguna úr sal. Í svona tilfelli verða dómari og spyrill að vera fljótir að taka ákvörðun, jafnvel þótt enginn kostur sé góður.
Miðað við þann mikla mun sem þá var enn á keppnilsliðunum og það hve litlar líkur voru á að MA-ingar gætu unnið upp hið mikla forskot með því að vera alltaf á undan að svara og svara alltaf rétt, tel ég þá ákvörðun hafa verið þá skástu í stöðunni að láta keppnina halda áfram og geyma hugsanlega þetta álitamál og taka það ekki upp nema MA ynni.
Með því var spennunni og skemmtuninni viðhaldið og svo fór að lokum að fyrir fágætt drenglyndi fulltrúa MA urðu úrslitin öllum til mikils sóma.
Eftir situr að vakta það enn betur að svona atvik komi ekki upp. Í salnum er margt af óreyndum, kappsfullum unglingum og aðeins einn þeirra getur eyðilagt fyrir öllum hinum og þar með stórskaðað keppnina sjálfa. Keppnislið MA ber hér enga sök, en sá eða þeir sem brjóta af sér í salnum eiga að axla sína ábyrgð í hvert sinn sem svona kemur upp og skólayfirvöld og/eða nemendafélög eiga að hafa á þessu stjórn.
Já, dramatík og fullkomið sjónvarpsefni ! Til hamingju, allir sem að þessu stóðuð !
![]() |
MR vann eftir bráðabana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.3.2008 | 13:35
KJÓSENDUR HAFÐIR AÐ FÍFLUM.
Ekki er annað að sjá af fréttum síðustu daga en að þeir kjósendur verði hafðir að fíflum sem trúðu á loforð um stóriðjuhlé. Enn dapurlegra yrði það ef í þriðja sinn yrði það kona sem yrði látin beygja sig í duftið.
Í kosningabaráttunni í fyrravor fyrtist Ingilbjörg Sólrún Gísladóttir við þegar mér "varð það á" að telja ekki alla liðsmenn hennar til hins græna hluta kjósenda. Hún gaf yfirlýsingar um ekki yrði um frekari stóriðjuframkvæmdir að ræða á suðvesturlandi á næstu árum ef hennar flokkur kæmist til áhrifa og flestir aðrir þingmenn og frambjóðendur Samfylkingarinnar gerðu slíkt hið sama.
Við stjórnarmyndunina og eftir hana hamraði Samfylkingarfólkið á því að nú yrði stóriðjuhlé sem entist að minnsta kosti fram yfir þann tíma sem það tæki að gera almennilega og helst endanlega úttekt á gildi íslenskra náttúruverðmæta.
Fréttirnar þessa dagana sýna allt annað. Það slitnar ekki slefan á milli framkvæmdanna fyrir austan og hér syðra því að enn er unnið að stórfelldum framkvæmdum við Hraunaveitu sem lýkur ekki fyrr en næsta haust.
Enn er eftir að úrskurða um mat á heildarumhverfisáhrifum framkvæmdanna í Helguvík, um lagningu háspennulína, um öflun orku (120 þúsund tonna álver er ekki frekar arðbært nú en það var á Reyðarfirði árið 2000), - eftir að ganga frá því hvort menn ætla virkilega að stúta öllum tiltækum jarðhitasvæðum á Reykjanesskaga (t.d. Seltúni,Bitruvirkjun o.fl.), að ekki sé nú minnst á rannsóknina á náttúrverðmætum landsins.
Samt er vaðið áfram með hugarfarinu í trausti þess að enn sem fyrr muni gamla trixið duga að láta fólk standa frammi fyrir gerðum hlut, eða eins og sagt var í villta vestrinu: Að skjóta fyrst og spyrja svo.
Þeir kjósendur sem kusu Samfylkinguna í síðustu kosningum í trausti þess að hún myndi standa fast bæði á kosningaloforðum sínum og ákvæðum í stjórnarsáttmálanum um að fyrst yrði að ljúka rannsóknum rammaáætlunar verða illa sviknir ef í ljós kemur að allt hafi þetta verið gabb.
Mér finnst það afar sorglegt að það skyldu á sínum tíma hafa verið tvær öflugar stjórnmálakonur, Siv Friðleifsdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem var þröngvað í það hlutverk að öll þjóðin mændi á þær þegar þær kváðu upp úr með ákvörðun sína varðandi Kárahnjúkavirkjun, fyrst Siv með matið á umhverfisáhrifunum og síðan Ingibjörg Sólrún á frægum fundi borgarstjórnar Reykjavíkur.
Þórunn Sveinbjarnardóttir og Rannveig Sigurðardóttir létu ekki beygja sig í atkvæðagreiðslu á Alþingi, og megi þær hafa ævarandi heiður fyrir það.
En nú standa öll spjótin að nýju á einni konu, Þórunni Sveinbjarnardóttur. Össur Skarphéðinsson hefur að vísu fram að þessu stutt sjónarmið hennar og enn er ekki alveg útséð um hvernig máli hennar verður til lykta ráðið.
Hins vegar er morgunljóst að verði það höfuðkosningaloforð svikið að hér verði stóriðjuhlé þar til næsta áfanga rammaáætlunar og rannsókn á íslenskum náttúruauðæfum er lokið, þá hafa þeir kjósendur sem trúðu þessum loforðum verið hafðir að fíflum.
![]() |
Framkvæmdir hafnar í Helguvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)