15.3.2008 | 23:00
SÖNN UMHYGGJUSTÖRF.
Nokkurra daga dvöl mín á Borgarspítalanum í Reykjavík hefur skerpt á vitund minni fyrir íslenska heilbrigðiskerfinu og stolti mínu yfir því fólki sem vinnur þar sönn hugsjónastörf með hugarfarinu "fyrir lífið sjálft" eins og Happdrætti SÍBS orðar það. Hér hefur þetta fólk unnið nákvæm vísindastörf í tvísýnum dansi til að bjarga því sem bjargað varð eftir heiftarlega sýkingu í kýli í baki mínu, sem ég var svo óheppinn að fá fyrir átta dögum á leiðinni út til Bandaríkjanna til að skemmta þar.
Íslenskir sóttvarnarlæknar hafa áorkað því að koma í veg fyrir að nýjustu og skæðustu bakteríurnar erlendis hafi borist til landsins og því búum við í besta landi heims hvað það snerti, sem að mér sneri. Og það er þannig sjálfsagt á fleiri sviðum, - þarf ekki annað en að nefna hreina kranavatnið í Reykjavík sem dæmi.
Þar dróst í tvo sólarhringa að ég fengi sýklalyf í Bandaríkjunum og þau reyndust ekki ráða við sýkinguna, voru einfaldlega ekki réttu lyfin. Ef ég hefði freistast til að leita á náðir læknis í heilbrigðiskerfi voldugustu þjóðar heims, bara til að láta stinga eina nálarstungu, hefði ekki verið hægt að skera mig upp hér heima fyrr en þremur til fjórum dögum eftir að ég kom heim, vegna þess að fyrst hefði orðið ganga tryggilega úr skugga um það að í mér leyndust ekki hinar nýju, skæðu bakteríur.
Sýkingin óx gríðarlega hratt á leiðinni hingað heim á miðvikudagsmorgun og var á mörkum þess að fara út í allt æðakerfið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. En fyrir rétt, nákævm og markviss viðbrögð lækna og hjúkrunarliðfs hér var sýkingin stöðvuð með svæfingu og skurðaðgerð strax á fimmtudagskvöld, daginn eftir að ég kom heim að vestan.
Ótal dæmi eru um það hve lítið þarf út af að bera á fjölmörgum sviðum lækninga. Mér var til dæmis kunnugt um afleiðingar þess fyrir mörgum árum að ekki var farið nógu nákvæmlega að við meðferð nálar við dælingu lyfja í æð.
Fagmennska, alúð og hugsjónir fólksins sem hér vinnur hefur fyllt mig þökk og stolti af því að vera Íslendingur eins og það, - stolti yfir því að búa í besta landi heims.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)