NÝ ÍÞRÓTT, - HRAÐALEIKUR (FARTLEK) ?

Á deildinni á Borgarspítalanum þar sem ég er nú, liggja í næstu rúmum menn, sem hafa fengið brjósklos. Annar þeirra, Vilhjálmur Guðjónsson, tónlistarmaður, var að skemmta með mér sárkvalinn í Florida 8. mars og átti þá kvalafulla og svefnvana viku fyrir höndum. Hemmi Gunn var líka á skemmtuninni en við Villi, Hemmi, Haukur Heiðar og Pétur heitinn Kristjánsson mynduðum kvartettinn Fjörkálfana sem fór um landið 1994.

Hér á spítalanum höfum við Vilhjálmur talað um hálfkæringi að snúa bökum saman í baráttu okkar við ýmsan krankleika í þessum hluta líkama okkar. Sjálfur er ég með svonefnt samfall í neðstu hryggjarliðum, þ. e. brjóskið hefur barist saman í óhollum hlaupum á steinsteypu og malbiki og taugarnar sem liggja út í ganglimina eru því klemmdar.

Var ekki beinlínis heppilegt fyrir mig að fá mikla ígerð í bakið og þurfa að brjóta allar reglur um meðferð hryggjarliðanna með því að þurfa að sitja upp á ská á næturnar.

Raunar eru kvillarnir mínir brandari, því sá þriðji, bakflæði, kemur alveg í veg fyrir að ég geti legið láréttur, hvorki á maganum né bakinu.  

Ég spilaði innanhússfótbolta í nokkur ár á steinsteypugólfi og hljóp áratugum saman á malbiki og harðri möl. Flest bök þola þetta en ekki öll. Vili var skorinn í gær og er allur annar maður.

Önnur "hlauparaveiki" er minna þekkt en það er tábergssig og stafar af sömu misnotkun beinanna. Við of mikil hlaup á hörðu undirlagi aflagast beinin frá hæl fram í tá smám saman og síga niður í gegnum ilina og þófana. Þetta gerist kannski ekki nema hjá minnihluta hlauparanna, en hjá miklu fleirum en ef hlaupið væri af meiri tillitssemi við það, fyrir hvað líkami okkar var skapaður.

Fyrstu einkennin eru bólga og eymsli í svipuðum dúr og maður fær eftir að lítil flís eða glerbrot hefur komist óvart inn í ilina. Maður leitar að flísinni eða glerbrotinu eins og vitlaus maður og finnur ekki neitt og tiplar um eins og norn á glóðum.  Eftir nokkur ár í mislukkuðum eltingarleik og aðgerðum á borð við þykkari innlegg o. s. frv. kom síðan skýringin loks hjá sérfræðingi og lausnin var einföld: Mæling á fótunum og sérsmíðuð innlegg hjá Össuri.

Niðurstaða: Það er manninum hollast að haga sér og gera það sem hann er skapaður til. Og til hvers var hann skapaður? Jú, eftir úrval kynslóðanna sem komist hafa af í hundruð þúsunda ára erum við nokkurs konar niðurstaða, sem lá ljós fyrir á síðustu öld en taka mundi þúsundir ára að breyta í samræmi við breyttar lífsvenjur.

Hryggurinn í okkur var frábærlega hannaður fyrir ferfætt spendýr og náttúruúrvalinu hefur ekki unnist tími til að breyta því í neinum grundvallaratriðum. Eina leiðin við fæðingu, ef menn vilja nýta sér byggingu hryggjarins rétt, væri að fara niður í á fjóra fætur og vera í þeirri stellingu mest alla ævina. Ég mæli ekki með því.

Það er útséð um að jafnvel útsjónarsamasta tækni geti breytt því að við séum upprétt. En við eigum möguleika á að minnka líkurnar á því að bakið bili á margvíslegan hátt, sem ég hef reynt að nota síðustu árin af brýnni nauðsyn, en því miður allt of seint.

Fætur forfeðra okkar og iljar voru skapaðar til að ganga, skokka og hlaupa á misjöfnu undirlagi. Ekki að hlaupa marga kílómetra eða tugi kílómetra á degi hverjum á malbiki. Sem betur fer sleppa flestir langhlauparar við að vera refsað fyrir að fara svona með bak og fætur en fleiri myndu sleppa við kvillana sem ég hef hér talað um, ef hlaupa- og trimmvenjunum yrði breytt.

Á árunum í kringum 1940 var sænski millivegalengdarhlauparinn Gunder Hagg hinn besti í heimi. Þjálfunaraðferð hans byggðist á hlaupum um fjölbreytt landsins, mishröðum og mislöngum sprettum upp og niður brekkur á misjöfnu undirlagi. Aðferðina kallaði hann "Fartlek", hraðaleik.

Ég mæli með stofnuð verði samtök Hraðaleikshlaupara. Þeir æfðu sig undir eftirliti hver annars á þann hátt að forðast bak- og beinakvillana og héldu síðan mót á brautum sem væru lagðar í samræmi við það. Heimsmetstímar myndu ekki skipta máli, - er hvort eð er búið að skekkja  og skæla svo margt í þeim efnum með tæknibrellum og lyfjum.

Þessi "Hraðaleikur" yrði ekki víðavangshlaup á malbiki, enda finnst mér vera mótsögn í því að kalla hlaup á hörðum og sléttum gangstéttum og akbrautum "víðavangs" hlaup.

Að lokum mataræðið. Ef við horfum upp í okkur sjáum við tennur, sem eru gerðar fyrir blöndu af grænmeti og kjöti.

Við vitum að enginn drakk gerilsneydda mjólk fyrir 1940.

Ef við lítum til þess hvar okkur líður best, er það í blönduðu umhverfi og betra að sem mest af því sé úti í náttúrunni.

Mér leið aldrei betur og var aldrei heilsuhraustari en við frumstæðar aðstæður í sveit, mykju, mýrar, drullu og spenvolga nýmjólk. Ég fór í bað tvisvar á sumri og svitnaði, blotnaði og þornaði á víxl.

Auðvitað þvoðum við okkur um hendurnar við rétt tækifæri o. s. frv. en ónæmiskerfið fékk nóg að gera allt sumarið, efldist og styrktist.

Nú stefnir fram í öld þar sem ofverndaðir afkomendur okkar fást við vaxandi sjúkdóma af völdum veiklaðs ónæmiskerfis.

Okkur líður að öðru jöfnu best ef við getum í nútíma umhverfi líkt sem best eftir þeim aðstæðum sem hinir hæfustu voru í meðal kynslóðanna á undan okkur og hegðað okkur sem líkast því.

Ég er ekki að tala um neitt meinlætalíf, það má auðvitað ýmislegt fljóta með sem kynslóðir fortíðarinnar þekktu ekki.

En niðurstaðan er líklega falin í gamla íslenska máltækinu: "Á misjöfnu þrífast börnin best."

Bendi að gamni mínu á skemmtilega umræðu á bloggsíðu Ólínar Þorvarðardóttur. Stundum fáum við Ólína svipaðar hugmyndar á svipuðum tíma.


Bloggfærslur 16. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband