27.3.2008 | 12:35
"ÍSLANDSLÆGÐIN" FÆR NÝJA MERKINGU.
"Íslandslægðin" er hugtak sem nágrannaþjóðir okkar við Norður-Atlantshafið þekkja vel. Fyrir suðvestan Ísland er að meðaltali lægsti loftþrýstingur veraldar að vetrarlagi og héðan berast þessar djúpu lægðir austur yfir hafið með ómældum áhrifum á veðurfarið í Norður-Evrópu. Litla Ísland er sem sagt býsna fyrirferðarmikið og áhrifaríkt í þeim hluta orðaforða nágrannaþjóðanna sem notaður er um veður.
Nú kann svo að fara að "Íslandslægðin" fái nýjar merkingu í formi efnahagslægðar sem hefur áhrif á miklu fjarlægari lönd en Bretlandseyjar og Norðurlönd. Upp í hugann koma tvö íslensk orðtök: "Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi og "miklir menn erum við, Hrólfur minn."
Í veðurfarslegu tilliti hefur Íslandslægðin neikvæða merkingu og vonandi verður það nóg fyrir okkur að hugtakið sé einskorðað við veðurfarið heldur en að það fái líka neikvæða merkingu í fjármálaheiminum.
![]() |
Íslandsbylgjan gæti skollið á mörgum löndum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.3.2008 | 12:27
TÆKNIN LÉTTIR LÍFIÐ.
Tæknin getur breytt mörgu í lífi mannsins, bæði í leik og starfi og einnig í veikindum. Sú var tíðin að þegar fólk var flutt á sjúkrahús, var því að miklu leyti kippt úr sambandi við umheiminn. Ef það var rúmfast og veikt voru heimsóknir nánast eina sambandið við lífið utan spítalans.
Fjarskiptatæknin hefur breytt þessu og ég er einn þeirra sem hef notið góðs af tækniframförum í rúmlega tveggja vikna vist á Borgarspítalanum, sem stefnt er að að ljúki á morgun, þótt lengri tíma taki að ná fullum bata.
Allan tímann á spítalanum hefur mér verið kleift að blogga, vera í sambandi við netið og fylgjast með lífinu utan dyra, þótt þrek til þess hafi ekki verið mikið fyrstu vikuna. Aðstæður til þess arna eru að vísu örlítið misjafnar eftir deildum og sjúkrastofum en lipurt starfsfólk reynir það sem það getur til að létta sjúklingum dvölina á ýmsan hátt.
Fyrir bragðið vissu fæstir að ég væri hér inni fyrr en upp komst á netinu á fimmta degi spítalavistarinnar og ég hafði gaman af því að það dróst svo lengi. Það er engin ástæða til að velta sér upp úr veikindum eða sjúkrahúsdvöl því að það er svo sem í sjálfu sér ekkert merkilegra að fólk fari á spítala til viðgerðar en að bílar fari á verkstæði.
Þetta er eitthvað það eðlilegasta í tilverunni, munurinn hins vegar nokkur þegar tekið er tillit til þess að bílar eru dauðir hlutir en sjúklingar ekki.
Á þessum hálfa mánuði hef ég átt náttstaði á fjórum stöðum á spítalanum og kynnst nokkrum sjúklingum í næstu rúmum sem hafa verið mjög mismunandi veikir. Ég hef fylgst með harðri baráttu sumra þeirra og fórnfúsu starfi hjálparfólksins, þar sem allur sólarhringurinn hefur verið undir.
Síðustu dagarnir hafa verið mjög gefandi. Með vaxandi þreki hef ég byrjað á að skrifa tvær bækur, sem setið hafa á hakanum í tuttugu ár vegna þess að alltaf var eitthvað annað í daglega lífinu, sem mér fannst ég þurfa að taka fram yfir.
Með hinum snöggu veikindum sem dundu yfir fyrirvaralaust fyrir þremur vikum, var sem gripið í taumana og ráðin tekin af mér. Kannski var það ekki svo slæmt eftir allt.
Önnur bókanna, sem ég hef byrjað að skrifa hér, er þess eðlis að ég held að ég hafi ekki fengið skárri hugmynd um ævina. Samt hef ég vanrækt hana í sautján ár, kannski vegna þess að maður getur alltaf efast um það hvað hugmyndir manns séu góðar.
En spítaladvöl kennir manni samt þörfina á að forgangsraða viðfangefnum upp á nýtt og meta betur þá Guðs gjöf að fá að vera til og eiga nána aðstandendur, ættingja og vini.
Nú, þegar stefnir í brottför mína héðan er mér ljúft að þakka starfsfólkinu hér fyrir frábæra umönnun og störf í þágu sjúklinganna, sem ég hef orðið vitni að. Hér vinna margir hljóðlát hugsjónastörf og veita mörgum ómetanlega aðstoð við að fást við erfiðustu viðfangsefni lífsins.
Ég var svo heppinn að mitt tilfelli var vel viðráðanlegt og í sjálfu sér minniháttar þótt aðstæður krefðust þess að ég væri svo lengi inni þrátt fyrir þrána til þess að komast héðan.
Af fáu getum við Íslendingar verið stoltari en heilbrigðiskerfinu. Eftir veru á smitsjúkdómadeild hefur mér birst betur en áður að lega landsins, langt frá öðrum löndum, kann að vera kostur, sem getur verið ómetanlegur og reynst okkur dýrmæt staðreynd í framtíðinni.
Stefni að því að blogga betur um það síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)