MÓTMÆLI ÁN ÁBYRGÐAR.

Mótmælaaðgerðir eiga sér hefð í vestrænum samfélögum og víðar. Um þær gilda lög hér á landi og víðast hvar. Martin Luther King og Gandhi brutu að vísu ranglát lög og vöktu athygli á ranglæt af því að hjá þeim var að ræða stórmál í samanburði við verðlagningu á eldsneyti á Íslandi. Þessir mótmælendur vissu að þeir yrðu að axla ábyrgð á aðgerðum sínum með því að sæta refsingu eftir gildandi lögum og tóku hana út, misjafnlega réttláta að vísu.

Þegar Mývetnskir bændur sprengdu stíflu í Miðkvísl 1970 var um að ræða slíkt stórmál, stöðvun ótrúlega hrikalegra spjalla í einstæðri náttúru Mývatns og Laxár, að hækkun á bensínverði núna eru hreinir smámunir. Bændurnir kröfðust þess að vera sakfelldir og dæmdir og taka með því ábyrgð á gerðum sínum.

Vöruflutningabílstjórar virðast hins vegar vera þeirrar skoðunar að lög eigi ekki að ná yfir aðgerðir þeirra, sem fara langt fram úr öðrum mótmælaaðgerðum síðari ára hvað snertir tjón og truflun. Lögreglan er gagnrýnd fyrir skipta sér nokkuð af þeim.

Skrýtið er þegar menn krefjast þess að bera ekki ábyrgð á gerðum sínum og svara fyrir þær.Klifur upp í krana á Reyðarfirði í hitteðfyrra, sem refsað var fyrir, voru smámál miðað við það stórfelldar og síendurteknar aðgerðir bílstjóranna en mótmælendurnir voru því viðbúnir að lögregla og yfirvöld skiptu sér af þeim, þótt í enstaka tilfellum væru aðgerðir lögreglunnar í harkalegasta lagi.

Bílstjórarnir sem nú fara hamförum, telja hins vegar eðlilegt að lögregla aðhafist ekkert gagnvart þeim.

Ef yfirvöld láta að vilja bílstjóranna eru almenningi með því send þau skilaboð, að því meiri usla og tjóni sem aðgerðir valdi, þeim mun meiri árangur muni þær bera og þeim mun meiri linkind eigi beita af hálfu lögreglu.

Hér í landi gilda lög um verkföll og mótmælaaðgerðir sem yfirleitt er farið eftir. Eftir að ég hætti í fréttamennsku og gerðist frjáls til þess að lýsa yfir skoðunum mínum í umdeildum pólitískum málum tók ég þátt í því ásamt 13-15 þúsund manns að mótmæla umhverfisspjöllum Kárahnjúkavirkjunar á fullkomlega löglegan hátt og að ég held með meiri árangri en ólöglegar og ofbeldisfullar aðgerðir hefðu náð.

Það lýsir hugmyndafátækt bílstjóra að geta ekki látið sér detta neitt annað í hug en að fara offari í mótmælaaðgerðm sínum.

Nú sé ég frétt um það að fjármálaráðherra taki vel í að ræða við flutningabílstjóra, nú sem endranær. Ég vil ítreka hér í þessum bloggpistli það sem ég hef sagt annars staðar að bílstjórar og 4x4 klúbburinn hafa rétt fyrir sér í því að loforð um að fara að dæmi annarra þjóða við verðlagningu á dísilolíu hafa verið svikin með þeim afleiðingum að við erum sér á báti meðal þjóða Evrópu í að nýta okkur ekki yfirburði dísilvéla fyrir bensínvélar hvað snertir eyðslu.

Vöruflutningabílarnir eru allir knúnir dísilvélum en er að þessu leyti refsað fyrir það ranglega. Við búum í því landi Evrópu þar sem meðalhiti ársins er lægstur og eyðsla bensínvéla eykst miklu meiri við kulda en dísilvéla.


mbl.is Lögregla kallar eftir kranabílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞAÐ KOSTAR ORKU AÐ FLYTJA ÞYNGD.

Sparnaður í samgöngum fæst með því að létta bíla og gera þá minni svo að loftmótstaðan minnki. Þetta geta almennir bílaeigendur gert en ekki vöruflutningabílstjórar. Hagkvæmasta stærð flutningabíla eru stærstu bílarnir, því að léttari og minni bílar hafa sömu loftmótstöðu. Allir þessir bílar eru með dísilvélum, enginn með bensínvélum.

Að meðaltali er 1,1 - 1,2 um borð í hverjum af þeim 150 þúsund einkabílum sem fara um götur og vegi. Meðalbíllinn er 4,5 metra langur og 1,5 tonn. Sívaxandi fjöldi einkabíla er milli 2 og 3 tonn með allt að 500 hestafla vélum.
Engin þörf er á slíkum drekum og hinn gríðarlegi fjöldi þeirra er mesta bruðl- og mengunarvandamálið.

Að "almenningur rísi upp" er einfaldlega krafa um að áfram verði haldið á braut eyðslu og bruðls því að bílakaupin hafa aldrei verið meiri og bílarnir aldrei stærri og eyðslufrekari og hvergi í Evrópu keypt jafn lítið af dísilbílum.

Það er frekar hægt að hafa samúð með vöruflutningabílstjórum sem ekki hafa sömu möguleika og almennir borgarar til að minnka við sig. Engin bót væri af því að þeir minnkuðu vélarnar í bílum sínum, eyðslan myndi jafnvel aukast og bílarnir verða dragbítar í hraðri þjóðvegaumferð.

Hins vegar þarf ítarlega rannsókn á hinum raunverulega kostnaði við landflutninga samanborið við sjóflutninga og taka með í reikninginn það dýra auka viðhald sem þungir landflutningar kosta. Á þetta lagði Íslandshreyfingin áherslu í síðustu kosningabaráttu en ekkert hefur gerst í þeim málum.


mbl.is „Ráðamenn vakni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband