"VÁIN" FYRIR DYRUNUM Á SUÐURNESJUM.

Fréttin um að hvergi fjölgi fólki meira á landinu en á Suðurnesjum stingur í stúf við sönginn um að þörf sé stórkarlalegra handaflsaðgerða í formi stóriðju til að bægja þar vá frá dyrum.  

Síðan ljóst var að varnarliðið á Keflavíkurflugvelli myndi fara hefur verið rekinn linnulaus áróður fyrir mótvægisaðgerðum á Suðurnesjum. Þess vegna verði að reisa álver í Helguvík, annars verði kreppa og atvinnuleysi.

 Andri Snær Magnason lýsti því skemmtilega hvernig hann sá fyrir sér bæjarstjórann í Reykjanesbæ sitja við líkan af Rosmhvalanesi og ætla að raða atvinnulausum starfsmönnum af vellinum eins og tindátum inn í komandi álver. En áður en tóm gæfist til þess voru allir atvinnulausu tindátarnir týndir, - þeir höfðu einfaldlega horfið sjálfkrafa inn í atvinnulífið og engin leið að finna þá.

Samt skal reisa álver, þótt ekki væri til annars en að geta flutt inn Pólverja til að leysa það mál. 

Ástæða þess að bæjarstjórinn fann ekki tindátana, sem hann leitaði að, var einfaldlega sú við það að hvergi á landinu hefur fólki fjölgað jafn mikið og á Suðurnesjum undanfarin ár. En meira en 40 ára gömul síbylja um nauðsynina á gamaldags sovéskum lausnum í stíl stóriðju Stalíns hefur haft þau áhrif að meira að segja í þeim landshluta þar sem fólki hefur fjölgað mest tala menn eins og allt sé að fara í kaldakol og að leita þurfi lausna í stíl handaflsaðgerða í afskekktum byggðum þar sem raunverulegur samdráttur á sér stað.


mbl.is Íslendingum fjölgar um 1,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HVAÐ VAR SVONA MERKILEGT 10.MAÍ 1940?

Ég tók mér smá tíma í kvöld eftir langt hlé til að skoða ýmislegt varðandi myndina "Brúarjökull og innrásirnar í Ísland", sem hefur verið í salti hjá mér í nokkra mánuði. Nokkrar staðreyndir: Hernám Íslands 10.maí 1940 var framkvæmt af 746 illa útbúnum hermönnum. Tugir þeirra höfðu aldrei hleypt úr byssum áður. Samt trylltist Hitler af bræði í búðum sínum í Eifel-fjallendinu þegar hann frétti þetta og skipaði Raeder yfirmanni sjóhersins að gera innrásaráætlun.

Fram að því höfðu Þjóðverjar ekki leitt hugann að Íslandi í neinni alvöru. Sú ætlun Breta að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gerðu það hafði hins vegar þau áhrif að innrásaráætlunin Ikarus var gerð.

Fram til 10. maí 1940 höfðu Þjóðverjar ætíð haft frumkvæði í hernaðaraðgerðum með innrásum sínum í Austurríki, Tékkóslóvakíu, Pólland, Danmörku og Noreg. Bandamenn gerðu ekkert annað en að bregðast við og áttu til dæmis enga sóknaráætlun tilbúna til að ráðast inn í Þýskaland. Þess vegna gat Hitler sent nær allar bryndrekasveitir sínar inn í Pólland án þess að þurfa að óttast sókn úr vestri inn í Þýskaland.

Sá sem ræður bardagavellinum og atburðarásinni hefur ævinlega forskot á andstæðinginn. Á því byggðist velgengni Þjóðverja meðal annars.

Þegar Bretar hernámu Ísland var það í fyrsta sinn sem frumkvæðið kom frá bandamönnum og kallaði á viðbrögð Þjóðverja. Það ærði Hitler að verða í fyrsta sinn að bregðast við frumkvæði andstæðingsins.

Áætlunin Ikarus gerði ráð fyrir að nota tvö af hraðskreiðustu herskipum Þjóðverja og tvö hraðskreiðustu farþegaskip þeirra. Sem dæmi um það hve hraði skipa hafði mikið að segja má nefna að Bretar töldu óhætt að láta Queen Mary sigla óvarða fram og til baka yfir Atlantshafið vegna þess að hún átti að geta sloppið undan árás hvaða skips sem var.

Í bók Þórs Whiteheads er því lýst hve auðveldlega Þjóðverjar hefðu getað tekið Íslands alveg fram á haust 1940.
Það var fyrst í ágúst sem níu flugvélar af gerðinni Fairy Battle voru komnar á Melgerðismela, en í Belgíu um vorið höfðu Þjóðverjar skotið slíkar vélar svo miskunnarlaust niður að þær fengu viðurnefnið "fljúgandi líkkisturnar."

Áætlunin Ikarus varð ekki að veruleika vegna þess að Þjóðverjar vissu ekki um neitt flugvallarstæði á íslandi sem hægt yrði að nota á sama hátt og þeir gerðu í innrásinni í Noreg þar sem yfirráð í lofti réðu úrslitum. Án yfirráða í lofti yfir Íslandi gætu þeir ekki haldið landinu.

Myndin "Brúarjökull og innrásirnar í Ísland" mun einmitt taka það fyrir, að í raun var þetta flugvallarstæði fyrir hendi án þess að útsendurum Þjóðverja hefði tekist að koma um það skilaboðum til Þýskalands.

Rannsóknarvinna vegna þessa er langt frá því að vera lokið. Hún hefur kostað ferðir til Bretlands, Noregs, Frakklands og vetrarferð til Demyansk í Rússlandi, sem er 500 km fyrir norðvestan Moskvu.

Það var gæfa Íslands, svo ótrúlegt sem það kann að hljóma, að kreppan stóð svo lengi hér á landi, að við vorum flugvallalaus í upphafi stríðs. Og þó. Já, það er nú einmitt það.


Bloggfærslur 4. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband