RAGNAR REYKÁS BLÓMSTRAR.

Um fátt talar Íslendingurinn meira núna en kreppuna sem sé skollin yfir, til dæmis með svo hroðalegu háu bensínverði að allt sé að fara til fjandans. Viðbrögð Íslendinga við þessu ofurháa bensínverði eru hins vegar þau að fluttir inn og keyptir miklu fleiri og stærri bílar en nokkru sinni fyrr og fleiri Íslendingar eru á ferð í útlöndum en nokkru sinni fyrr á þessum árstíma. Kortanotkun stórvex og annað er eftir því.

Þetta er Ragnar Reykás eins og hann gerist bestur og þetta er svipað fyrirbæri og 1967 þegar kreppa var að skella á og aldrei voru farnar fleiri og dýrari utanferðir, meira að segja á þremur stórum erlendum skemmtiferðaskipum og hefur það aldrei síðan verið leikið eftir.

Hugsunarháttur okkar virðist vera sá að stórauka eyðsluna áður en kreppan er skollin á meðan peningarnir eru til. Síðan treysta menn á það að daglegt tal forsætisráðherrans um nauðsyn á áframhaldandi stóriðju- og virkjanaframkvæmdum verði að veruleika.

Þá verður hægt að endurtaka leikinn frá 2002 þegar þenslan skall á ári áður en framkvæmdirnar hófust og sérfræðingur í Seðlabankanum fann út meira en 80 prósent hennar fólst í auknum yfirdráttarlánum.


TIL SKAMMAR FYRIR OKKUR.

Hafi þeir, sem stóðu að því að rjúfa friðhelgi sendiráðs Dana með því að mála hnýfilyrði gegn þessari vinaþjóð okkar, haldið að með því gerðu þeir Dönum skömm, skjátlast þeim hrapallega. Íslenska þjóðin verður í staðinn að lifa við þá skömm að hér á landi skuli svona viðgangast. Þetta er hneisa og tímaskekkja að auki. Þegar sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst lögðust menn aldrei svona lágt í hita þess leiks.

Mig minnir að ég hafi áður rökstutt það í bloggpistli að það hafi verið ein mesta gæfa Íslendinga að Danir réðu hér á öldum áður en ekki einhver önnur þjóð. Ekki var um það að ræða að Íslendingar gætu verið sjálfstæðir á þeim tímum vegna þess að þá var það ekki spurning hvort þjóðir í okkar aðstöðu gætu verið sjálfstæðar, heldur hvaða einvaldskonungur réði yfir þeim. 

Einokunarverslunin illræmda hefði verið hér hvort sem Danir eða aðrir hefðu ráðið. Bretar lyftu ekki litla fingri þegar írar hrundu niður tugþúsundum saman í hungursneyð en Danir stóðu fyrir söfnun handa Íslendingum eftir Móðuharðindin.

Vitanlega færði einveldið okkur ýmsa kúgun en hún hefði líklegast verið mun meiri ef annar einvaldskonungur hefði ráðið hér. Ólíklegt er að önnur þjóð en Danir hefðu haldið helstu sjálfstæðishetju nýlendunnar uppi á sama hátt og Danir héldu Jóni Sigurðssyni uppi. Vafasamt er að við værum sjálfstæðir í dag, hvað þá að hér væru töluð íslenska.  

Í Danmörku naut aðallinn þeirra fríðinda að aðalsmannasynir áttu aðgang að Kaupmannahafnarháskóla. Á móti kom skylda aðalsmannanna til að láta synina í té til herskyldu til varnar landinu.

Íslenski aðallinn samanstóð af embættismönnum, prestum og stórbændum, sem áttu 90 prósent allra landareigna í landinu. Synir þessara manna fengu sömu fríðindi í Kaupmannahafnarháskóla og aðalsmannasynirnir í Danmörku en þurftu ekki að hlíta herskyldu.

Enn í dag njóta börn þeirra Íslendinga, sem voru einhvern tíma þegnar Danakonungs, fríðinda í dönskum háskólum! Sonur minn komst að þessu þegar hann var við nám í skólanum í Horsens!  

Í fróðlegri doktorsritgerð sænska prófessorsins Hans Gustafsson kemur fram að hvergi í Evópu réði einvaldskonungur jafn litlu og á Íslandi. Íslensku landeigendurnir gerðu allt sem þeir gátu til þess að koma í veg fyrir að þéttbýli myndaðist við sjóinn eins og í nágrannalöndunum.

Tillögur Danakonungs og landsnefndar hans til úrbóta 1771 voru nær allar hundsaðar af íslenska aðlinum. Hæstiréttur í Kaupmannahöfn kom í veg fyrir að ýmis dómsmorð væru framin á Íslandi.  

Sjálfstæðisbarátta okkar var hörð en líklegast er einsdæmi að slík barátta skyldi ekki kosta eitt einasta mannslíf eins og hér.

Þrátt fyrir allt varðveittu Danir fyrir okkur handritin og engin þjóð hefur gert það sama og þeir, að afhenda slíkar þjóðargersemar tveimur öldum síðar.

Þarf ekki annað en litast um í frægustu söfnum Frakka og Breta til að sjá hve einstakt þetta drenglyndi Dana var.

Ég er ekki hrifinn af þeim viðhorfum gagnvart útrás okkar á fjármálasviðinu sem komið hafa fram hjá ýmsum  aðilum í Danmörku. En við því er ekkert að segja. Þar í landi eins og á okkar landi ríkir skoðanafrelsi innan hæfilegra marka og ekkert við því að segja þótt einhverjir sjái þar ofsjónum yfir því sem við erum að gera í þeirra landi. 

Fráleitt er að alhæfa vegna þessa um Dani almennt og enn fráleitara að grípa til lágkúrulegra og siðlausra aðgerða.  

Nú hafa siðleysingjar sett blett á málstað okkar í tvennum skilningi með athæfi sínu á friðhelgri sendráðslóð Dana.

Ég skammast mín sem Íslendingur fyrir það.  


Bloggfærslur 5. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband