10.4.2008 | 19:22
Hvar er miðborgin?
Enn tala margir um að miðborg Reykjavíkur sé í kvosinni. Þetta er löngu úrelt. Í frétt á Stöð 2 í kvöld var upplýst að miðja búsetu á höfuðborgarsvæðinu sé við Hörgsland í Fossvogi eða meira en fjóra kílómetra fyrir austan hina svonefndu miðborg. Þessi miðja er á austurleið. Ekki fylgir sögunni hvar miðja atvinnu sé. Ljóst er þó að bæði sú miðja og miðja búsetu eru á austurleið, í áttina til hinnar eðlilegu samgöngumiðju frjálsrar þjónustu og verslunar, stærstu krossgatna Íslands.
Á þeim krossgötum mætast annars vegar landleiðirnar frá Norðurlandi, Vestfjörðum og Vestfjörðum um höfuðborgarsvæðið til Suðurnesja og hins vegar landleiðin frá Suðurlandi út á Seltjarnarnes. Sem sagt, Elliðaárdalur.
Alls staðar í heiminum soga helstu krossgötur til sín atvinnu og þjónustu. Krossgötusvæði höfuðborgarinnar liggur frá Ártúnshöfða um Mjódd og Smára. Miðjur búsetu og atvinnu eru á leið í áttina þangað.
Í umræðum um skipulag Reykjavíkur og samgöngumannvirki í borginni er tönnlast á tölum varðandi Reykjavík eina, rétt eins og enginn eigi heima í Kópavogi, Mosfellsbæ, Garðabæ, Hafnarfirði eða á Álftanesi eða eins og þessi samgöngumannvirki komi öðrum landsmönnum ekkert við.
Hin svokallaða miðborg Reykjavíkur er hátt á fimmta kílómetra frá miðju búsetunnar og miðja atvinnunnar er líka talsvert fyrir austan gömlu miðborgina og á hraðri austurleið.
Möguleikar hinnar gömlu miðborgar Reykjavíkur liggja í ýmsum opinberum stofnunum en þá verður að hafa í huga að þeir sem eiga erindi í þessar stofnanir þurfa að fara lengri leið heiman frá sér heldur en ef þessar opinuberu stofnanir væru nær krossgötunum stóru. Enda eru ýmsar opinberar stofnanir á austurleið.
Þá er eftir helsti möguleiki gömlu miðborgarinnar, sem felst í menningarlegri og umhverfislegri sérstöðu hennar í stað þess að ætla að keppa í steinsteypu- og glerkössum við Kringluna, Smáralind, Mjódd og komandi verslunar- og þjónustuhverfi á Ártúnshöfða.
15 þúsund manna byggð í Vatnsmýri yrði aðeins með 7% íbúafjölda höfuðborgarsvæðisins og myndi því engum sköpum skipta um það hvar hin raunverulega þungamiðja verður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)