Röng forgangsröð.

Það er augljóslega röng forgangsröð að tvöfalda Suðurlandsveg án tillits til slysatíðni og byrja uppi á Hellisheiði. Framkvæmdir hafa ekki hafist enn og því á að vera hægt að bregðast við orðum sýslumannsins á Selfossi um að breyta þessu og byrja á kaflanum milli Hveragerðis og Selfoss þar sem flest slysin hafa verið, taka síðan kaflann frá Rauðavatni upp að Litlu kaffistofunni og restina síðar.

Lögmál Murphys og Vegagerðin.

Í anddyri Vegagerðarinnar mætti vera stórt skilti með lögmáli Murphys: "Ef eitthvað getur farið úrskeiðis mun það gerast fyrr eða síðar." Af þessu má álykta að ef bíll getur farið yfir á öfugan vegarhelming þá mun það gerast. Ef bíll getur farið út af vegi og fram af hömrum mun það gerast.

Eftirfarandi dæmi um þetta kemur upp í hugann. Í kringum 1990 fjallaði ég í sjónvarpsfréttum um skort á vegriðum í Hvalfirði. Vegagerðin sagði að það væri allt oft dýrt að leggja margra kílómetra vegrið í firðinum. Ég flaug þá á lítilli flugvél eftir veginum og sýndi fram á það með myndum að aðeins þyrfti að setja rið á 1,3 kílómetra.

Vegagerðin má eiga það að rið voru sett á þessa 1300 metra en ekki fyrr en tvö mannslíf í viðbót höfðu tapast.

Það er rétt að Vegagerðin verður að nýta fjármagn sitt vel og rök hennar fyrir 2 plús 1 vegum eru gild að því leyti til að með slíkum vegum, líkt og maður sér í Noregi og Svíþjóð, verður hægt að láta miklu lengri vegarkafla sleppa fyrr við bölvun Murphyslögmálsins en ef aðeins eru lagðir 2 plús 2 vegir.

Til mikils er að vinna. Nú kostar hvert tapað mannslíf íslenska þjóðfélagið 200 milljónir króna. Þá er ótalinn sjúkrahúskostnaður, eignatjón og tilfinningalegt tjón sem ekki er hægt að meta til fjár. Þessi staðreynd mætti líka vera letruð á áberandi stað í anddyri Vegagerðarinnar.


Bloggfærslur 11. apríl 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband