"Að moldu skaltu verða."

Ég vil breyta greftrunarsiðunum í samræmi við eftirfarandi staðreyndir: Við fæðingu komum við í heiminn með líkama okkar og ekkert annað efnislegt. Við dauðann skilum við jörðinni því sem hún gaf. "Af moldu ertu kominn. Að moldu skaltu verða" er sagt við moldunina. Fæðing og dauði eiga að mínum dómi að vera í jafnvægi hvað þetta snertir, en eru það ekki. Ýmist erum við grafin í einnota kistum eða brennd. Annað hvort fer trjáviður til spillis eða orka.

Þessu er hægt að breyta með því að nota margnota kistu sem er með gólfi á hjörum sem hægt er að opna með taug, sem liggur í lokin upp á grafarbarminn. Eftir að allir eru farnir kippa líkmennirnir í taugina og taka kistuna upp og geta síðan notað hana aftur.

Mold mokað yfir og umbreytingin í mold hefst þegar í stað. Með þessu opnast möguleikar á að nýta betur pláss kirkjugarðanna og ljúka æviferlinum á táknrænan og rökréttan hátt. Með því að taka kistuna upp væri líka hægt að nýta efni hennar í annað ef menn vildu. Þetta er að vísu ekki mikið fyrir hvern mann en samt eru verðmæti fólgin í 3000 kistum árlega hér á landi og tugum milljóna á heimsvísu.

Ef einhverjum hugnast ekki að mold sé mokað beint ofan á hinn látna má hugsa sér að eftir kistulagningu megi klæða hann í einfaldan, þunnan, ódýran poka, sem leysist fljótt upp í moldinni.

Líklega getur hver sem er breytt þessu fyrir sig. En ef nógu margir vilja það opnast möguleiki fyrir að hafa hluta kirkjugarðsins fyrir svona rýmissparandi greftrun með minni gröfum og möguleikum á að hafa fleiri en einn í hverri gröf.


Bloggfærslur 14. apríl 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband