16.4.2008 | 21:07
Réttdræpir í Kína og Bandaríkjunum.
Listi Amnesty International yfir mannréttindabrot í Kína er langur og ljótur og engin ástæða til að gera lítið úr því. Tvennt af því sem nefnt er í þeirri upptalningu er þó ekki óþekkt á Vesturlöndum, dauðadómar og það að halda fólki í fangelsum án ákæru eða réttarhalda.
Ástfóstur það sem Bandaríkjamenn hafa tekið við líflátsdóma er blettur á lýðræðisþjóð sem telur sig í fararbroddi í baráttu fyrir mannréttindum og mannúð um allan heim. Ekki batnar það þegar líflátsaðferðirnar eru skoðaðar.
Meðferð á föngum í Guantanamo hefur líka verið kapítuli út af fyrir sig. Bandaríkjamenn setja líka kíkinn fyrir blinda augað þegar um er að ræða mannréttindabrot og harðstjórn hjá þóknanlegum bandamönnum svo sem Saudi-Aröbum.
Fréttirnar af hæstaréttindadómnum um notkun á banvænum sprautum við dauðarefsinga eru dapurlegar og koma mér á óvart. Ég var að vona að það væri einhver hreyfing í aðra átt vestra.
![]() |
Eitursprautur áfram leyfðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
16.4.2008 | 20:50
Eðli málsins samkvæmt.
Nú eru 22 ár síðan ég tók viðtal við sjómann í Kaffivagninum um brottkastið þar sem hann lýsti ástæðunum fyrir því svo vel að hvert mannsbarn skildi. Þetta var í fyrsta skipti sem slík lýsing heyrðist opinberlega. Hann var látinn taka pokann sinn daginn eftir og því miður fylgdi ég þessu máli ekki eftir með því að fylgjast með því og segja líka frá því í fréttum.
Samkvæmt viðtölum mínum við sjómenn hefur brottkastið alltaf verið miklu meira en menn hafa viljað viðurkenna. Hitt blasir við að ástand á miðunum og í veiðunum eins og Guðjón Arnar Kristjánsson lýsir nú á þingi ýtir stórlega undir brottkast. Þegar viðtalið í Kaffivagninum birtist 1986 voru aðeins tvö ár liðin frá upptöku kvótakerfisins og afleiðingarnar strax farnar að koma í ljós.
Margrét Sverrisdóttir hefur sagt mér frá því að á ferð með sjávarútvegsráðherra Færeyja í Bretlandi hafi hann sýnt henni fiskikör með afla, sem var nýkominn á land þar og sagt henni hver þeirra komu frá Íslandi og hver frá Færeyjum.
Í íslensku körunum voru allir fiskarnir jafnstórir en í þeim færeysku misstórir.
Eðli brottkastsins er svipað og brotalamir kommúnismans, - kerfið laðaði fram lögbrot, eðli málsins samkvæmt. Lög eða kerfi sem taka ekki mannlegt eðli með í reikninginn og virkja hvetjandi til lögbrota eru ólög í sjálfu sér.
![]() |
Segir brottkast að aukast gífurlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)