18.4.2008 | 23:31
Óskiljanlegt er ónýtt.
Kvikmyndir, leikhús og ljósvakafjölmiðlar flytja skilaboð til fólks í formi leikins efnis, upplesturs, frétta og þátta. Ef ekki skilst hvað sagt er, fara skilaboðin forgörðum og gildir þá einu hversu vel er að verki staðið að öðru leyti. Vandamálið er ekki einskorðað við Danmörku, heldur alþjóðlegt og er vaxandi vandamál hér á landi.
Um þetta gildir það sama og ef píanóleikari sleppti úr nótum eða skautaði yfir laglínur. Nauðsyn á hraða er engin afsökun fyrir því að vera illskiljanlegur. Þegar Logi Bergmann Eiðsson er fréttaþulur græðast minnst 20 - 30 sekúndur í hverjum fréttatíma og les hann þó skýrt og afar örugglega.
Það heyrist vel þegar hlustað er á þuli bestu erlendru sjónvarpsstöðvanna að þar leyfist ekki annað en skiljanleg, skýr og eðlileg framsögn. Að ekki sé nú minnst á óaðfinnanlegt málfar.
Hér á landi þyrfti að taka til hendi í þessum efnum ekki síður en í Danmörku. Nýlega heyrði ég fréttamann nokkurn tönnlast alloft í frétt á orði sem ég skildi ekki. Hann talaði aftur og aftur um "surraggriman" og á mörgum fleiri stöðum skautaði hann svo yfir orð og setningar að ekki var hægt að skilja hann.
Sem betur fór nefndi hann "surraggriman" nógu oft til þess að ég skildi að hann var að tala um Suður-Afríkumann.
Hæfileikar allra manna eru mismunandi. Sumir, sem illskiljanlegir eru í tali, eru duglegir og færir fagmenn að öðru leyti og hvað ljósvakamiðlamenn snertir væru sumir betur komnir sem blaðamenn á tímarítum eða dagblöðum ef þeim er ómögulegt að breyta framsögn sinni.
Barnabörn mín skemmta sér vel þegar ég fer með þau í bíltúr og leik löngu látinn strætisvagnabílstjóra í Reykjavík á þeim tíma þegar kölluð voru upp nöfn á stoppistöðvunum. Hann kallaði á einum staðnum: "Jofristan!" og átti við Jófríðarstaði við Kalkofnsveg.
Þetta getur verið skemmtilegt en er það oftast ekki. Sendiboði sem flytur ónýt skilaboð er ónýtur sendiboði.
![]() |
Danskan torskilin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2008 | 11:03
Hugrakkur mannvinur.
Grein Árna Tryggvasonar leikara í Morgunblaðinu í dag er óvenjuleg að því leyti að í stað þess að það sé aðstandandi geðsjúklings sem gagnrýnir aðbúnað starfsfólks og sjúklinga á geðdeild Landsspítalans er það sjúklingur sem geri það. Um andlega heilsu og líkamlega gildir það að enginn er fullkominn. En okkur hættir til að vilja ekki viðurkenna þetta varðandi andlegu heisluna er það miður. Þess vegna sýnir Árni einstakt hugrekki með því að skrifa grein sína og það sýnir líka að ástæðan hlýtur að vera brýn, - honum blöskrar.
Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að vera klefafélagi Árna í gömlu Iðnó þegar ég þurfti, aðeins 12 ára gamall, á góðum klefafélaga og reyndum leikara að halda til að veita mér stuðning við það að takast á við stórt og erfitt hlutverk í Vesalingunum eftir Hugo.
Þá kynntist ég mannkostum þessa öðlings og hef ævinlega metið hann mikils síðan. Vonandi er að yfirvöld fari ofan í saumana á þessu máli í kjölfar framtaks og fórnar einstaks mannvinar og þjóðþekktrar persónu. Ef það dugar ekki þá veit ég ekki hvað þarf til að hreyfa við brýnum málum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2008 | 08:54
Topp flytjendur.
Ég hef unnið bæði með Friðriki Ómari og Regínu Ósk og ég held að sjaldan hafi ég unnið með jafn miklu hæfileikafólki og þeim. Þau eru ekki aðeins topp söngvarar heldur prófessjónal fram í fingurgóma, svo að maður sletti nú einu sinni. Friðrik Ómar er er einhver músíkalskasti tónlistarmaður sem ég hef unnið með. Það verður gaman að fylgjast með þeim.
Ég hef það mikla trú á þeim að ég held að það eina sem þau þurfi að varast sé að vera ekki of spennt eða ofkeyra sig. Þau eiga að geta gert þetta svo vel án þess að rembast að ég myndi ráðleggja þeim að leggja höfuðáhersluna á að hafa gaman af þessu en vanda sig þó auðvitað eftir föngum.
Síðan er ekki ónýtt að hafa reynsluboltann Grétar Örvarsson nálægt sér. Þar er enn einn þátttakandinn sem ég hef unnið með og er í fremstu röð. Árangur hans í keppninni fyrr á árum segir allt sem segja þarf.
![]() |
Fyndnasta og skemmtilegasta Eurovision myndbandið " |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)