23.4.2008 | 12:53
Gas!!! Gas!!! Gas!!! - Hvílík mistök.
Ég ætla að bíða og kynna mér atburði morgunsins. Eitt er þó ljóst í mínum huga: Myndskeiðið af sérsveitarmanninnum úðandi piparúðanum sem öskrar "gas!! Gas!! Gas!!! með andlit, sem virðist afmyndað af heift og bræði er dæmalaust í íslenskri sjónvarpssögu og einhver klaufalegustu mistök í starfi sem ég hef séð lengi. Ef yfirmenn mannsins hafa kennt honum að gera þetta svona sýnir það vanþekkingu á sálrænum áhrifum hegðunar í vandasömu starfi.
Það virðist hafa gleymst að svona öskur hafa varla sést og heyrst síðan Hitler var upp á sig besta og þau hvorki heyrast né sjást í bíómyndum nema viðkomandi sé viti sínu fjær af grimmdaræði, bræði eða hræðslu. Vel kann að vera að lögreglumaðurinn hafi hvorki verið æstur, hræddur né grimmur, heldur aðeins að reyna að aðvara fólk. En hann einn er til frásagnar um það.
Allir sem sjá þetta myndskeið eru minntir á hliðstæður þar sem viðkomandi voru svo sannarlega ekki í jafnvægi. Svona öskur sjást og heyrast helst þegar hermenn gera árás tilbúnir að drepa, ekki borgaraleg lögregla sem á að vera öryggisverndari fólksins.
Síðan þessi ofangreindu orð voru rituð sést að útskrifarnemendur hafa komið á staðinn í nasistabúningum og skynjað það sem ég er að segja.
Það á að vera hægt að vara fólk við gasúðun með því að hrópa hátt en þó án þess að öskra eins og villidýr. Sérsveitarmenn eiga að vera þrautþjálfaðir menn og búa yfir meiri yfirvegun en gengur og gerist. Vonandi fór ekki fleira úrskeiðis í morgun en þetta.
![]() |
Lögreglumaður á slysadeild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (95)