Tilboð um hið illframkvæmanlega?

Þeir sem hafa viljað að Lára Ómarsdóttir fengi þyngstu afgreiðslu fyrir það að hafa opinberlega viljað skipulegga eggjakast á vettvangi við Rauðavatn tína aðallega til tvenn rök: 1. Orð hennar. 2. Enginn hló að því sem átti vera gráglettið glens. Þetta segja þessir haukar að sanni að henni hafi verið alvara.

1. Skoðum fyrst orðin sem gagnrýnendurnir vilja túlka bókstaflega frá orði til orðs: "Ég ætti kannski að fá einhvern til að kasta eggi." Allt sjónvarpsfólk veit að við þær aðstæður, sem voru þarna, var þetta illframkvæmlegt. Til þess að þetta sé hægt með góðu móti þarf að beina myndavél að þessum eina sem á að kasta þessu eina eggi, gefa honum merki um að kasta egginu og ná mynd af því í beinni útsendingu. Ef Lára hefði meint það sem hún sagði frá orði til orðs, hefði hún sagt: Ég get fengið einhverja til að kasta eggjum. Orðalag hennar bendir til þess sem hún heldur fram, að engin alvara hafi verið á bak við orðin.

(Í kvöld sást á Stöð tvö að Lára er að stilla sér upp fyrir beina útsendingu, sem er að bresta á. Í þeirri stöðu á hún enga möguleika á að fara úr þessari stöðu til þess að fara að skipuleggja eggjakast.)

2. Enginn hló að því sem hún sagði. Skoðum það. Hún var að tala í síma en hljóðneminn, sem nam orð hennar, var utan símans. Hlátur þess sem hún talaði við gat því ekki heyrst í útsendingunni. Sömuleiðis talar fólk öðruvísi í síma heldur en þegar það talar við einhvern sem er í persónulegri návitst þess.

Í bloggheimum og víðar hefur verið farið mikinn í því að dæma í þessu máli án þess að það hafi verið skoðað eins og tíðkast í hliðstæðum tilfellum á öðrum sviðum þjóðlífsins. Jafnvel hefur verið látið svo sem eggjakastið hefði byrjað eftir meinta áeggjan Láru. En eggjakastið byrjaði löngu áður og mér vitanlega átti enginn fjölmiðlamaður hlut að því og gráglettnisleg orð í síma voru aðeins ætluð manninum á hinum enda sambandsins.

Heimtað hefur verið blóð Láru og fréttastofu hennar þegar í stað.

Nú geta þessir dómendur væntanlega verið ánægðir og tekið fyrir þann næsta í þjóðfélaginu sem á að fjúka.

Að öðru leyti vil ég benda á blogg Egils Helgasonar á eyjan.is.


Óeirðavaldurinn íslenska krónan.

Fróðlegt væri að kafa ofan í undirliggjandi ástæður mótmæla vörubílstjóra. Þeir eru verktakar sem hafa boðið í flutninga í krónutölu og verða síðan fyrir því að krónan kolfellur um leið og eldsneytisverð hækkar í heiminum. Á meðan þeir eru bundnir við tilboð sín lepja þeir dauðann úr skel. Áhrif olíuverðhækkananna verða miklu meiri hér en í Evrópulöndum, því þegar evran styrkist miðað við dollar verða verðhækkanirnar minni í Evrópu en hér. Fall krónunnar ýtti hins vegar undir áhrif hækkunar eldsneytisverðsins hér.

En vöruflutningabílstjórar eru ekki þeir einu sem hafa lent í svona hremmingum og vandséð er hvernig hægt er að vísa kostnaðinum eða hluta hans á ríkissjóð. Tilvist íslensku krónunnar og efnahagsstjórnin er hins vegar á forræði ríkisvaldsins og Seðlabankans og þar liggur hundurinn grafinn.

Afar fróðleg skoðanskipti hafa farið fram í Morgunblaðinu milli gömlu vinanna og bekkjarfélaganna Styrmis Gunnarssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar. Grein Jóns Baldvins er frábær lesning enda er hann ekki aðeins einhver sjóaðasti og færasti sérfræðingur okkar á þessu sviði heldur virðist honum flestum öðrum frekar vera kleift að skoða hlutina upp á nýtt og vera ekki fastur í margra áratuga gömlu fari.

Þessu kynntist ég vel þegar hann lét til sín taka í umhverfismálaumræðunni í fyrravor. Að mínum dómi flutti hann í Bæjarbíói í Hafnarfirði bestu ræðuna sem flutt var það vor um virkjana- og stóriðjumál.

Á þessari æskudýrkunaröld eru menn á aldur við Jón Baldvin því miður afskrifaðir og gildir einu þótt hugurinn, fjörið, andinn, þekkingin og rökfestan taki fram því sem þekkist hjá 20 árum yngri mönnum.


Endalaus Ást.

Í kvöld var síðasta sýningin og sú 85. og síðasta á söngleiknum Ást í Borgarleikhúsinu fyrir fullum sal. Nú fer Pálmi Sigurhjartarson, tónlistarstjóri sýningarinnar, til London til að stjórna tónlistinni í söngleiknum þar, sem verður frumsýndur 2.júní. Þess vegna stóð til að hætta hér heima í kvöld.

En síminn hefur ekki stoppað síðustu daga í miðasölunni og því tilkynntu forráðamenn leikhússins okkur eftir sýningu í kvöld að reynt yrði að hafa tvær aukasýningar í maí. Pálmi mun þá væntanlega fljúga heim og til baka fyrir þær sýningar.

Það hefur verið mjög gefandi að fá að taka þátt í þessari sýningu ásamt leikhúsgestum, sem hafa tekið henni afar vel. Sýningar á Ást hafa oft verið sömu kvöldin og hin frábæra sýning Ladda, sem líka stefnir upp undir 100 sýningar og ekki ónýtt að vinna í slíku leikhúsi.


Bloggfærslur 25. apríl 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband