VEÐUR TIL AÐ SKAPA.

Ég segi oft við sjálfan mig og aðrar þegar vaknað er til dýrðardags eins og dagsins í dag að nú sé veður til að skapa. Eitt af því sem stendur til að skapa í dag eru endurvakin náttúruverndarsamtök á Vestfjörðum en þangað stendur til að leið mín og fleiri liggi í dag.

Ekki mun af veita í þeirri sömu viku og ljóst var að ekki yrði einu sinni reynt að nota hemla á stóriðjuhraðlestarnir sem bruna eiga út á öll landshorn á næstu árum.


HETJURNAR ÓLAFUR OG ELÍN.

Jarðarför Ólafs Ragnarssonar í Dómkirkjunni í dag var ákaflega stílhrein, fögur og áhrifamikil athöfn. Dómkirkjan varð fyrir valinu vegna þess að þau Ólafur og Elín Bergs giftu sig þar fyrir 40 árum. Kirkjan var full út úr dyrum og kom glöggt fram hve marga vini þau áttu og hve mikla virðingu og velvild þau höfðu skapað sér.

Lestur ljóða Ólafs, einfaldur og látlaus, gaf athöfninni einstakan blæ.

Ég varð sjálfur vitni að því á síðasta stigi sjúkdóms Ólafs hve erfið örlög þeir sjúkdómar leiða yfir fólk, sem gera það að föngum í eigin líkama. Ólafur hélt fullri andlegri getu allt fram til hins síðasta þótt hann gæti ekki tjáð hana nema með smáum augnhreyfingum með aðstoð tölvu.

Maður er orðlaus yfir þeim hetjuskap og gagnkvæmri ást sem þau hjónin sýndu bæði, ekki síst hún. Ég hef vart séð fegurra á ævinnni.

Fyrir það er skylt að þakka, vegna þess hve mikið það gefur öðrum að vinna slík afrek.


HESTURINN BER EKKI ÞAÐ SEM ÉG BER.

Þekkt er þjóðsagan af karlinum sem sat á hesti og bar þungan poka á baki sér í stað þess að hafa hann fyrir aftan sig á hestinum. Þegar hann var spurður að því hvers vegna hann gerði þetta svona svaraði hann: "Hesturinn ber ekki það sem ég ber." Ríkið hefur í raun lækkað megin álögur sínar á eldsneyti undanfarin ár með því að hafa þær í fastri krónutölu. Tekjuauki vegna virðisaukaskatts hefur verið sáralítill.

Ríkið leggur minna á eldsneyti hér en í nágrannalöndunum og verðið er lægra hér. En margir virðast gæla við þá hugsun að stórhækkun verðs erlendis frá sé hægt að losna við á svipaðan hátt og karlinn á hestinum taldi sig gera.

Í tilfelli eldsneytiskostnaðarins samsvarar hesturinn þjóðfélaginu í heild, karlinn samsvarar ríkissjóði og pokinn samsvarar hækkandi verði eldsneytis sem borga þarf erlendum aðilum. Nú halda menn að hægt sé að láta ríkissjóð taka pokann og að þá beri hesturinn (þjóðfélagið) ekki lengur byrðina.

Hið rétta er að það er ekki hægt að láta þessa hækkun gufa upp rétt si svona. Einhver verður að borga hana. Ef tekjur ríkissjóðs verða minnkaðar til þess að bera hækkunina hefur ríkissjóður minna fjármagn til spítala og skóla. Það þýðir með öðrum orðum að spítalar og skólar eiga að borga hækkunina fyrir þá sem nota eldsneytið.

Um 2010 er áætlað að olíuframleiðsla nái hámarkil. Eftir það verða þær olíulindir, sem taka þurfa við þeim lindum sem þá byrja að þverra, æ dýrari og erfiðari í vinnslu.

Verðið á þverrandi olíu getur ekkert nema hækkað og við því er ekki hægt að finna nein hókus pókus ráð. Hesturinn mun þurfa að bera vaxandi byrði, sama hvað hlaðið verður á bakið á karlinum sem situr á honum.

Að auki er augljóst að kostnaður af afleiðingum olíunotkunarinnar, loftslagsbreytinganna, verður margfalt meiri en nokkur "sparnaður" sem menn þykjast ætla að finna með því að "láta einhvern annan" borga brúsann af olíuverðshækkunum.

Það er rétt hjá bílstjórum að ríkisstjórnin virðist halda að hægt sé að halda þremur nefndum í óratíma við að finna nýtt kerfi á gjaldtöku af eldsneyti.

Einnig er það rétt að ríkisvaldið hefur tregðast við að viðurkenna á sama hátt og nágrannaþjóðirnar þjóðhagslegan ávinning af notkun dísilolíu. Á sama tíma og í nágrannalöndum er leitast við að hafa verð á dísilolíu lægra en á bensíni, er lítrinn af dísilolíu hér tíu krónum dýrari en af lítra af bensíni.

Atvinnubílstjórarnir aka nær eingöngu dísilbílum og það þarf engar þrjár nefndir til að finna út það sama og aðrar þjóðir hafa gert hvað varðar dísilbílana. Stjórnin gæti eftir helgina ákveðið að lækka lítrann á dísilolíu um fimm krónur og hækkað bensínlítrann á móti og efnt gamalt loforð um þetta efni.


mbl.is „Gagnslaus fundur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. apríl 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband