6.4.2008 | 23:43
UMHVERFIÐ UMHVERFIS UMHVERFISRÁÐHERRANN.
Þórunn Sveinbjarnardóttir stóð vaktina vel þegar hún greiddi atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. Hún sagði á Umhverfisþingi í haust að hún yrði andófsmaður í ríkisstjórn. En enginn má við margnum og nú virðist hún vera að bogna og þurfa brýningar við. Í Silfri Egils var ekki annað að heyra á henni en að orkuöflun fyrir álver á Bakka (sem forstjóri Alcoa segir nú að þurfi að nálgast 420 þúsund tonn að stærð) væri ekki atriði í ferlinu að öðru leyti en því að orkan þyrfti að vera tryggð.
Umhverfisráðherrann minntist ekki orði á þau umhverfisverðmæti sem í húfi verða ef skefjalaus virkjunaráform fyrir 420 þúsund tonna álver verða að veruleika. Ekki var annað á henni að heyra en að nú væri önnur tíð hjá henni heldur en þegar hún var óbreyttur þingmaður.
Hún hefur nú þegar byrjað feril sem mun leiða til þess, ef marka má ummæli hennar í Silfrinu, að umhverfisráðuneytið verði sams konar afgreiðsluráðuneyti fyrir iðnaðarráðuneytið og virkjanafíklana og verið hefur.
Ég óska eftir að fá að sjá Þórunni vera hina sömu í ráðherrastóli og hún var sem þingmaður. Ef ekki, þá held ég að hún myndi gera meira gagn fyrir ómetanlega náttúru landsins með því að segja af sér ráðherraembætti í mótmælaskyni við það hvernig hún er bæld niður í andófi sínu og nýti sér frelsi sitt sem óbreytts þingmanns á nýjan leik.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.4.2008 | 01:37
GÓÐUR STOFNFUNDUR VESTRA.
Stofnfundur Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða í gær var afar ánægjulegur. Raunar kom það að fram mótmæladaginn 26. september 2006 að enda þótt fyrri samtök vestra hefðu lognast út af lifði vel í glæðunum, því að göngurnar urðu fjórar þetta kvöld, hver á sínu landshorni. Í tíð eldri samtakanna hefðu það þótt tíðindi að ráðherra, þingmenn og bæjarstjóri létu sjá sig á svona samkomu "kverúlanta og öfgafólks." En þessir gestir voru viðstaddir í gær þegar stofnunin var kynnt.
Tveir fyrrverandi ráðherrar og þingmenn Vestfjarða, Sverrir Hermannsson og Matthías Bjarnason, sendu kveðjur og lýstu yfir stuðningi við samtökin.
Í tíð fyrri samtaka var friðland á Hornströndum stærsta málið. Eitthvað var þá minnst á Breiðafjörð en lítið kom út úr því. Aðallega var tekist á um Hornstrandafriðlandið en nú eru vígstöðvarnar orðnar fleiri, Dýrafjörður, Arnarfjörður, Teigskógur og fleiri staðir. Teigskógur er á strönd Breiðafjarðar og því hluti af honum. Áhugasvæði náttúruverndarfólks á Vestfjörðum ætti því eðli þess máls samkvæmt að ná allt til Snæfellsness.
Aldrei hefur verið eins hart sótt að náttúru Vestfjarða og nú þegar rætt er um tvo staði þar fyrir risavaxnar olíuhreinsistöðvar.
Mér veittist sú ánægja að sýna fundarmönnum rúrmlega sex mínútna langa nýja heimildarmynd um olíuhreinsistöðvar í Noregi og áætlanir um svipaðar stöðvar á íslandi.
100 oíuhreinsistöðvar eru Evrópu en aðeins tvær í Noregi, önnur fyrir sunnan höfuðborgina og hin nálægt næst stærstu borginni. Norðmenn eru einir af stærstu olíuframleiðsluþjóðum Evrópu og ef sami hugsunarháttur ríkti þar og virðist nú vera spanaður upp á Vestfjörðum, væru Norðmenn búnir að raða olíuhreinsistöðvum norður eftir öllu hinu langa landi sínu þar sem byggðavandi er svipaður í hinum ótal norsku fjörðum og á Vestfjörðum.
En þetta gera Norðmenn ekki.
Eftir að hafa verið á ferð vestra og rætt við ýmsa bæði á Ísafjarðarbæ og í Vesturbyggð sýnist mér að andstaða gegn olíuhreinsistöð í Dýrafirði sé meiri eða að minnsta kosti opinskárri en andstaðan gegn slíkri stöð við Arnarfjörð og því líklegra að stöð rísi í Vesturbyggð.
Í Vesturbyggð er rekinn harður áróður fyrir stöð þar og talað á svipaðan hátt um þá sem andæfa og gert var á Austfjörðum um andstæðinga Eyjabakkamiðlunar og Kárahnjúkavirkjunar, þ.e. að þetta væru óvinir byggðarinnar og hryðjuverkamenn.
Af þessu leiðir að þeir sem hafa efasemdir um stöð í Vesturbyggð þora yfirleitt ekki að láta í sér heyra af ótta við að vera úthrópaðir og stimplaðir óþurftarmenn.
Ég stefni að því að koma mynd minni á framfæri eftir lítilsháttar lagfæringar og fór að afloknum hinum ánægjulega fundi á Ísafirði í myndatökuflug yfir Hælavíkurbjarg og Hornbjarg, tvö af þeim þremur stærstu fuglabjörgum Evrópu sem nú stefnir í að Vestfirðingar vilji setja í hættu vegna olíuslyss, sem ekki verður spurning um hvort, heldur hvenær verður ef marka reynsluna í Alaska og annars staðar þar sem umferð olíuflutningaskipa er mikil.
Í skipströndum við Vestfirði í hinum miklu óveðrum sem þar dynja oft yfir, hafa þaulvanir og kunnugir skipstjórar verið við stjórnvölinn. Nú á að telja okkur trú um að bandarískir, rússneskir eða litháiskir skipstjórar muni standa þeim svo mjög framar að óhöpp verði útilokuð.
Enn hefur fiskigegnd í sjó og ám ekki náð sér á strik í Alaska eftir strand olíuskipsins Exxon Valdes fyrir tuttugu árum. Loforð olíufélagsins um bætur hafa verið svikin og félagið eyðir stórfé í lögfræinga sem hjálpa því til að kolmast hjá því að bæta fyrir tjónið.
Ef Exxon Valdes slysið er fært til Látrabjargs liggja hafstraumar þannig, að það verður ekki bara fuglalíf bjargsins sem fer til fjandans í slíku slysi heldur verða allar fjörur norður með Vestfjörðum í hættu.
Murphys-lögmálið segir að geti eitthvað farið úrskeiðis muni það gerast fyrr eða síðar. Stærstu olíuskipin eru með eina skrúfu. Hvað ef hún verður afllaus? Hvaða skipi er ætlað að draga slíkt ferlíki í fárviðri?
Nýstofnuð náttúruverndarsamtök vestra hafa ærið verk að vinna á mörgum sviðum og megi þeim vegna sem best.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)