10.5.2008 | 23:10
Sóknin hafin inn á Mývatnssvæðið.
Það virðist fátt við það að athuga að stækka Kröfluvirkjun umtalsvert og halda sig við núverandi borsvæði. En ósvarað er áríðandi spurningu: Hve lengi telja menn að svæðið afkasti þessari miklu viðbótarorku þar til orkan er þrotin? 40 ár? 20 ár? Fyrir 30 árum var sú aðferð notuð að fara varlega í þessum efnum en það er liðin tíð. Nú sér orkustjórinn fyrir norðan í hillingum 1000 megavatta orku sem hægt yrði að kreista út úr jarðhitasvæðunum við Þeystareyki og norðaustan Mývatn. Draumsýnin er samfellt virkjanasvæði með borholum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum og háspennulínum allt frá Bjarnarflagi við Mývatn norður um Kröflu, Leirhnjúk og Gjástykki. Sú var tíð að Eysteinn Jónsson, Birgir Kjaran og fleiri slíkir gerðu sér grein fyrir verðmæti Mývatns og Laxár og Þingvallavatns sem helstu nátttúruundra meðal vatnasvæða Íslands og beittu sér fyrir lagasetningum þar að lútandi. En það er liðin tíð að áhrifamenn í tveimur stærstu stjórnmálaflokkum landsins leggist á þær árar. Hin fræðilega hernaðaraðferð í upphafi þessrarar sóknar er kunn. Þegar Þjóðverjar hófu sína sókn til landa og sendu herlið inn í Rínalönd 1936 voru þeir bara "að athafna sig í sínum eigin bakgarði". Næsta skref fyrir norðan verður að endurskilgreina hugtakið "ný virkjanasvæði". Þegar er komin stór borhola skammt frá Leirhnjúki sem með endurskilgreiningu er talin á "gömlu virkjanasvæði", eða "í eigin bakgarði" Landsvirkjunar. Í haust hefst síðan sóknin inn í Gjástykki með nýtingu rannsóknarleyfis sem getur gefið möguleika til svo mikils rasks, svipuðu því sem varð við Trölladyngju, að menn standi frammi fyrir gerðum hlut hvað snertir náttúruspjöll. Vélaherdeildunum, jarðýtum og borum verður fagnað þar á svipaðan hátt og þegar þegar Þjóðverjum var fagnað af Austurríkismönnum 1938 þegar þeir innlimuðu landið í Þýskaland með þeim rökum að Austurríkismenn og Þjóðverjar væru jú sama þjóðin sem talaði sameiginlegt tungumál. Það virðist stutt í að talað verði sama landvinningatungumál virkjanamanna allt frá Bjarnarflagi við Mývatn og langt norður í Gjástykki á Lebensraum-svæði álversins á Bakka. |
![]() |
Vilja stækka Kröfluvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
10.5.2008 | 03:42
Fram og aftur blindgötuna.
Vesalings Seðlabankinn eigrar nú fram og aftur um þá blindgötu og öngstræti sem hann og íslensk efnahagsmál eru komin í eftir óstjórn, stóriðjuæði og neyslufyllerí undanfarinna ára. Spáð er stýrivaxtahækkunn og síðan hraðri lækkun þegar verðbólgan, sem hann heldur að hann ráði eitthvað við, fer að minnka. En bankinn stjórnar æ minna af efnahagskerfinu eftir því sem flóttinn frá krónunni rýrir gildi hennar. Davíð og co sveiflast eins og strá í vindi verðbólgunnar.
Óttinn við fjárfestana sem hafa fjárfest í vaxtamuninum svo hundruðum milljarða skipti veldur því að svigrúm til lækkana vaxta er lítið vegna hákarlanna sem hafa stóran hluta hagkerfisins í hendi sér.
Æ meiri líkur eru á því að þjóðin muni ekki sjá sér annað fært en að sækja um aðild að ESB. En þeir sem trúa á það sem allherjarlausn gleyma því að til þess þarf grjótharðar ráðstafanir til þess að standast þær kröfur sem gerðar eru þar á bæ um þau atriði hagstjórnar sem hér eru fokin út í veður og vind.
Aðvörunarorð frá þeim sem sáu hvert stefndi síðustu árin hafa verið að engu höfð og nú súpum við seyðið af því hlaut að gerast, að krónan lækkaði um síðir og þá stjórnlaust. Það er komið að skuldadögunum og íslenska stefnan eða öllu heldur stefnuleysið: "Þetta reddast allt einhver veginn" á eftir að reynast okkur dýr.
![]() |
Spá frekari hækkun stýrivaxta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)