24.5.2008 | 14:40
Gott framtak fyrir flugið.
Flugvikan sem nú er að enda í Reykjavík á vegum Flugmálafélags Íslands hefur verið nauðsynleg og þakkarverð. Ég er á leið með 19 ára gamlan tveggja manna Toyota-pallbíl (minnsta Toyota jöklajeppa á Íslandi) austur á austurhálendið þar sem hann verður notaður til að draga Örkina eins og í fyrra og hitteðfyrra, - nú um ný lón við Eyjabakka.
Þar sem ég sit hér og blogga þetta á Akureyrarflugvelli verður mér hugsað til þess hve gott það væri ef flugið nyti sömu almennu velvildar í Reykjavík og hér nyrðra.
Akureyringar finna það á sjálfum sér hve mikils virði greiðar, skjótar og öruggar flugsamgöngur eru í járnbrautalausu landi. Flugið er "þráðurinn að ofan" líkt og í söguna um köngulóna, sem kom niður þráðinn að ofan en gleymdi að lokum á hverju vefurinn fíni byggðist og klippti á þráðinn með kunnum afleiðingum.
Því miður virðast margir Reykvíkingar vera búnir að gleyma því að borg byggist upp í kringum samgöngur, einkum við krossgötur, og eru tilbúnir til að klippa á þráðinn af ofan.
Þess vegna er glæsilegt framtak Flugmálafélagsins undir ötulli forystu Arngríms Jóhannssonar svo mikiðvægt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)