Mynd, sem skrifar sjálf handrit sitt.

Var að koma ofan af Kárahnjúkasvæðinu. Friðþjófur Helgason, kvikmyndatökumaður, ók á gamla Toyota pallbílnum sem ég nota til að draga Örkina, og var í fylgd með Þórhalli Þorsteinssyni á jöklajeppa sínum en sjálfur notaði ég FRÚna til að komast uppeftir og lenda þar. Síðan var dagurinn nýttur til hins ítrasta til myndatöku á landi og úr lofti.

Óvenjuleg snjóalög hafa verið efra í vetur og því erfitt hægt að komast um. Til dæmis komumst við ekki að Töfrafossi sem hefur birst í bili áður en hann sekkur að nýju þegar hækkar í lóninu. Þeim mun betri myndum náðum við af honum úr lofti. Umhverfi hans kom gersamlega á óvart. Inni í botni gljúfursins, þar sem fossinn er, hafa hlaðist upp háir hjallar af auri.

Barátta gæsanna fyrir hreiðurstæðum kom okkur líka á óvart. Á rönd meðfram vegi, sem á að varna sandfoki á austurbakka Hálslóns hafa þær verpt í vegkantinn í þéttasta gæsavarp á Íslandi. Þær berjast þarna á áhrifamikinn hátt hinni vonlausu baráttu sinni fyrir að þurfa ekki að flýja varpsvæðið.

Margt fleira væri hægt að tína til sem komið hefur á óvart þarna á þann hátt að engin leið var að skrifa um það kvikmyndarhandrit fyrirfram. Myndin um Örkina gerir það svo sannarlega sjálf.


Bloggfærslur 26. maí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband