Höfum við efni á að hætta að virkja?

Ofangreindri spurningu hafa Björn Ingi Hrafnsson og fleiri varpað fram og komist að þeirri niðurstöðu að við höfum ekki efni á því. Með þessu viðhorfi er boðuð hræðsla við virkjanalok svipuð dómsdagshræðslu sem ýmsir kirkjufeður fyrri alda ólu á.

Íslenskur ráðherra sagði við mig fyrir tíu árum að við yrðum að virkja stanslaust, annars kæmi kreppa og atvinnuleysi. Enn og aftur er þetta sagt.

Ég spurði ráðherrann á móti hvað myndi þá gerast þegar allt yrði virkjað og ekkert eftir. "Það verður verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi," var svar hans. Stórmannlegt svar eða hitt þó heldur.

Sú lausn virkjanafíklanna að virkja áfram endalaust gengur ekki upp því rökrétt afleiðing þessarar stefnu er að í lokin verði allt virkjað, - líka Gullfoss og Geysir, Dettifoss, Askja, Kverkfjöll og Torfajökulssvæðið.

Þjóð sem þegar hefur virkjað fimmfalt meiri orku en hún hefur þörf á til heimabrúks á ekki að þurfa að æða áfram í takmarkalausri græðgi skammtímalausna á kostnað afkomenda sinna með því að skilja engin náttúruverðmæti eftir handa framtíðinni og valda óbætanlegum skaða á mestu verðmætum og stolti lands og þjóðar. 

Áfengis- og fíkniefnasjúklingar sjá oft engin önnur úrræði til að leysa skammtímavandamál sín en að fórna dýrgripum og munum með miklu persónulegu tilfinningagildi til að seðja fíkn sína. Í huga þeirra gildir að í hvert skipti sem þeir eru í vanda hafa þeir ekki efni á að hætta.

Svipuð hugsun ríkir hjá virkjanafíklunum sem meika það ekki að hér verði virkjanahlé.


Bloggfærslur 29. maí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband