11.6.2008 | 22:16
Dapurleg iðja.
Ég var við dapurlega iðju nú rétt áðan þegar ég skilaði til Fréttablaðsins umbeðnum ábendingum um þrjá fáfarna "leynistaði." Einn þeirra er gilið Sogin við Tröladyngju, svo fallegt, að fara þarf í Kerlingarfjöll eða Landmannalaugar til að finna annað eins.
Þegar ég sýndi þau fyrst fyrir 25 árum var fólk mjög þakklátt. Ekki lengur, vegna þess að þarna á að virkja og þá vill fólk hafa sig afsakað með því að vita sem minnst. Þegar hafa verið unnin þarna mikil spjöll vegna "rannsókna." Enn er þó hægt að horfa yfir gilið austan frá ósnortið.
Ég valdi Leirhnjúk og Gjástykki því að ég hef enn ekki fundið Íslending sem hefur skoðað það svæði. Íslendingar skoða Kröfluvirkjun og Víti en útlendingar hið enn ósnortna svæði fyrir norðan sem senn verður umturnað í virkjanasvæði þótt þar sé sá staður þar sem rek Ameríku frá Evrópu sést best, m. a. sprungur sem myndir eru til af hvernig rifnuðu upp fyrir 25 árum, hraun kom upp og rann aftur niður. Einnig ummerki eftir fjórtán eldgos á árunum 1975-84.
Einnig má enn skoða þarna fyrirhugað æfingasvæði fyrir marsfara, sem verður hætt við ef virkjað verður.
Áætlað er að gufuafl í Gjástykki muni skapa 40 störf í álverinu á Húsávík. Glæsilegur ávinningur við að fórna svæði jafnmerkilegu og sjálfri Öskju.
Ég valdi líka Sönghofsdal í Krepputungu. Kannski hann verði einn ósnortinn af þessum þremur stöðum, - og þó. Ef illa gengur um orkuöflun við Mývatn gæti Jökulsá á Fjöllum orðið þrautalendingin. Sagði ekki Valgerður Sverrisdóttir að friðun hefði ekkert gild, - það mætti alltaf aflétta henni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)